Fyrir rétt um ári síðan var íslenskur hlutabréfamarkaður að rétta úr kútnum eftir nokkrar róstur, eins og t.d uppákomur varðandi kaup og sölu bréfa í Skeljungi. Segja má að mynd hafi verið að komast á markaðinn og að hann hafi verið að skilja við fortíð frumskógarlögmála. Barnskónum hefur verið slitið og unglingsárinn tekið við.
Fækkun skráðra fyrirtækja
Þrátt fyrir mikin uppgang á markaðnum þar sem af er þessu ári, þá hafa menn ekki hlaupið til og skráð fyrirtæki sín, heldur hefur þeim fækkað. Er þetta til marks um styrk og þann þroska sem sem markaðurinn hefur sýnt á undanförnum misserum.
Um síðustu áramót voru 48 fyrirtæki skráð í kauphöllina en nú eru þau 42. Þegar mest var voru þau 75 á árunum 1999 og 2000, en greina má sama munstur í fjölda skráðra fyrirtækja hjá hinum Norðurlöndunum. Þessi fækkun félaga þarf ekkert að vera óeðlileg þar sem mörg félög skráðu sig í uppsveiflunni 1999-2000 í þeim tilgangi að búa til gjaldmiðil í formi skráðra hlutabréfa ef vera skildi að vöxtur hlypi í það. Þessi skráning væri í dag dragbítur á þessi sömu félög þar sem talsverður kostnaður fylgir skráningunni og einnig hvílir rík upplýsingaskylda á því. Íslenski markaðurinn er grunnur og því getur þessi upplýsingaskylda skekkt mjög samkeppnisstöðu fyrirtækja ef þeirra helstu samkeppnisaðilar eru ekki skráðir.
Erfitt er að segja til um hver ákjósanlegur fjöldi skráðra fyrirtækja sé, en bent hefur verið á að virk viðskipti séu að jafnaði með um 15 fyrirtæki og að u.þ.b. 25 hafi einhverja alvöru verðmyndun. Það er spurning hvort hér sé um vanmat að ræða, en ef svo er ekki þá þarf jafnvel að grisja en meira en nú hefur verið gert.
Úrvalsvísitalan (ICEX-15)
Úrvalsvísitalan (ICEX-15) er samansett af 15 félögum sem skráð eru á Aðallista Kauphallarinnar og valin eru eftir ákveðnum reglum. Tvisvar á ári er vísitalan endurskoðuð og hefjast ný tímabil 1. janúar og 1. júlí ár hvert.
Félög í Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar frá og með 1. júlí síðastliðnum eru Kaupþing Búnaðarbanki (vægi í vísitölunni 28,2%), Íslandsbanki (18,0%), Actavis Group (16,0%), Landsbanki Íslands (8,4%), Bakkavör Group (7,1%), Burðarás (6,3%), Straumur fjárfestingarbanki (3,9%), Össur (2,7%), Samherji (1,8%), Marel (1,8%), Og fjarskipti (1,5%), Grandi (1,4%), Fjárfestingarfélagið Atorka (1,4%), Medcare Flaga (0,7%) og Opin kerfi (0,7).
Við val á félögum í Úrvalsvísitöluna eru fyrst valin 20 félög á grundvelli viðskipta innan kauphallar á undanförnum 12 mánuðum. Er þeim raðað eftir markaðsvirði leiðréttu fyrir floti, og mynda 15 efstu Úrvalsvísitöluna. Ef fyrirtæki uppfyllir ekki þau skilyrði sem sett eru, þá mun félag lægra á lista þessara 20 félaga ryðja þeim úr vegi að því tilskildu að það uppfylli gefin slilyrði. Til að mynda þá kom fjárfestingarfélagið Atorka hf. í fyrsta skiptið inn í Úrvalsvísitöluna um síðustu mánaðarmót, og kom þá í stað Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna.
Á þessu ári hefur Úrvalsvísitalan hækkað mikið og orðið hærri en hún hefur nokkru sinni verið. Á allra síðustu dögum hefur hún reyndar lækkað úr 2.960 (2.7) og er nú 2.893(7.7). Í ágúst árið 2001 fór vísitalan niður fyrir 1.000 stig, en fyrir ári síðan var hún u.þ.b. 1.500 stig. Úrvalsvísitalan fór í fyrsta skiptið yfir 2.000 stig í nóvember 2003, og yfir 2.500 stig í febrúar á þessu ári. Hækkunin hefur því verið nokkuð stöðugt og náði hámarki 22. júní síðastliðin þegar dagslokagildi Úrvalsvísitölunar var 2.956,9, og hafði þá hækkað um rúmmlega 100% á 12 mánuðum. Til samanburðar þá varð dagslokagildið hæst í síðustu uppsveiflu 1.888,7 þann 17. febrúar árið 2000 þegar mikil bjartsýni ríkti.
Bjart framundan
Í 2. ársfjórðungsriti Kauphallar Íslands kemur fram að fyrri hluti ársins hafi verið einstaklega hagfelldur. Samanlögð velta á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði var nær þúsund milljarðar króna sem er um þriðjungi meiri velta en á sama tíma í fyrra og tvöfalt meiri en árið þar á undan. Heildarvelta með hlutabréf fyrstu sex mánuði ársins var 285 milljarðar og hafa viðskipti aldrei verið meiri á fyrri hluta árs. Veltuaukning frá sama tíma í fyrra er 25%. Meðalvelta með hlutabréf á fyrri helmingi ársins var tæpir 2,4 milljarðar á dag en var 1,9 milljarðar á sama tímabili í fyrra.
Þá hefur verðþróun á hlutabréfamarkaði verið mjög hagstæð og skráð fyrirtæki verið að ná miklum árangri, ekki síst fyrirtæki í útrás. Markaðsvirði skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni nemur nú um 850 milljörðum króna sem samsvarar um 100% af landsframleiðslu þjóðarinnar. Þetta er hátt hlutfall í alþjóðlegu samhengi.
Framtíð íslenska hlutabréfamarkaðsins er björt. Greiningadeildir bankanna spá áframhaldandi hagnaði helstu fyrirtækja, þó að vísu greini þær á um það hversu mikill hagnaðurinn muni verða. En það er ljóst að fólk á markaðnum stígur mun gætilegra til jarðar nú heldur en 1999-2000. Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur slitið barnskónum og unglingsárinn eru tekin við. Nú þarf bara að gera unglinginn að manni.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007