Í þessari stuttu en jafnframt snjöllu bók, varpar Gaddis ljósi á utanríkis- og öryggismálastefnu Bush stjórnarinnar eftir 11. september, í samhengi við ákveðna atburði í sögu Bandaríkjanna. Þannig sé best að skilja hana, en um leið líka að gagnrýna hana.
Þessir atburðir eru þrír talsins: þegar Washington borg var brennd af Bretum 1814, árás Japana á Pearl Harbor 1941 og hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Allar þessar árásir komu Bandaríkjunum í opna skjöldu og hver þeirra hefur leitt til þess, að viðbrögð Bandaríkjanna hafa verið á þann veg að endurmeta upp á nýtt langtíma stefnu (e. grand strategy) sína gagnvart umheiminum og hvernig best sé að tryggja öryggi Bandaríkjanna fyrir utanaðkomandi árás. Svarið hefur verið það sama í öllum tilvikum; túlka bandaríska hagsmuni víðar en áður og tryggja þá með virkari utanríkisstefnu að leiðarljósi – spila sókn en ekki vörn.
Eftir árás Breta á Washington 1814 var það John Quincy Adams, þá utanríkisráðherra, sem lagði grunninn að gerbreyttri utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Fyrir þann tíma höfðu Bandaríkin haft tilhneigingu til að víkja sér undan hættum sem að þeim steðjaði. En eins og Gaddis bendir á, þá hafa óvæntar árásir þær afleiðingar í för með sér, að feykja í burtu gömlum hugmyndum um þjóðaröryggi og hvað þurfi til að tryggja það. Sú varð einmitt raunin í þessu tilfelli og hefur verið alveg síðan þá.
Næsta áratugin sem leið þróuðu Bandaríkin stefnu sem átti að afstýra hugsanlegum árásum í framtíðinni í líkingu við þá sem Bretar höfðu gert. Kjarni þeirrar stefnu var í fyrsta lagi að beita fyrirbyggjandi aðgerðum (e. preemption) til að koma í veg fyrir að ýmiss konar ræningjahópar gætu notfært sér veikleika nágrannaríkja, eða að ríki frá Evrópu myndu sölsa undir sig viðkvæm svæði eins og Kaliforníu, þar sem þau gætu hótað Bandaríkjunum árás. Í öðru lagi fólst stefnan í einhliða aðgerðum (e. unilateral). Til að tryggja öryggi Bandaríkjanna væri best að þurfa ekki að vera háðir öðrum þjóðum í flóknum bandalögum. Og í þriðja lagi væri nauðsynlegt að vera forysturíkið (e. hegemony) í allri Norður-Ameríku, svo að alþjóðakerfið á svæðinu endurspeglaði yfirburði Bandaríkjanna, í stað valdajafnvægis milli nokkurra stórþjóða. Hefði hið síðara orðið ofaná hefði það aukið verulega líkurnar á stríðum, viðskiptadeilum og byltingum.
Ein höfuðforsendan í þeirri utanríkisstefnu sem John Adams var arkitektinn að – og Bandaríkin framfylgdu næstu hundrað árin – var fjarlægðin sem Bandaríkin höfðu frá öðrum stórþjóðum. Það sem árás Japana á Pearl Harbor árið 1941 leiddi hins vegar í ljós, var að á þetta gat Bandaríkin ekki lengur treyst. Miklar tækniframfarir höfðu orðið á sviði hernaðar – bæði á sjó og í lofti – og því gátu Bandaríkin ekki leyft sér lengur þann munað, að halda að landfræðileg lega þeirra gæti aðskilið þá frá umheiminum. Í annað skiptið í sögunni þurftu Bandaríkin því að endurmeta langtíma stefnu sína upp á nýtt. Og núna var komið að Franklin D. Roosvelt að vera arkitektinn.
Roosevelt ákvað, að til að tryggja öryggi þess þyrftu Bandaríkin að verða, ekki aðeins forysturíki í einni álfu, heldur að verða forysturíkið í öllum heiminum. En til að ná fram þessu metnaðarfulla markmiði gætu Bandaríkin ekki fylgt áfram gömlu stefnunni sem grundvallaðist á hvort tveggja einhliða og fyrirbyggjandi aðgerðum í utanríkismálum. Bandaríkin hafði einfaldlega ekki það vald sem til þurfti – hvorki hernaðarlega né efnahagslega – ef þeir ætluðu sér að verða forysturíki í heiminum. Í staðinn lagði Roosevelt áherslu á fjölþjóðlega samvinnu til þess að reyna afla stuðnings annarra ríkja við forystu Bandaríkjanna. Þetta gerði hann með því að koma á fót Sameinuðu Þjóðunum.
Eftir lát hans var þessari stefnu haldið áfram með stofnun m.a. NATO, Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þessi fjölþjóðlega samvinna Bandaríkjanna við önnur ríki var algjört frávik frá þeirri stefnu sem John Adams hafði boðað. Hann hafði enga trú á, að önnur ríki gætu orðið eins og Bandaríkin. Verkefni Bandaríkjanna að hans mati var „ekki að endurbæta heiminn, heldur frekar, að sjá til þess að Bandaríkin væru örugg innan hans.“ Roosevelt taldi hins vegar, að til að tryggja öryggi Bandaríkjanna á þessum breyttu tímum, þá væri best að tryggja öryggi heimsins – þannig yrði öryggi Bandaríkjanna sem mest.
Gaddis heldur því fram, að það hafi verið þetta fjölþjóðakerfi sem hafi að lokum unnið kalda stríðið – en 11. september afhjúpaði svo einnig veikleika þess. Ríki eru friðsamlegri í dag – það er eitt mesta afrekið í kjölfar kalda stríðsins – en þau eru sömuleiðis veikari en áður, bendir Gaddis á. Sú staðreynd hafi átt sinn þátt í hryðjuverkaárásunum 11. september, svo ekki sé talað um tímabilið sem hefur fylgt á eftir. Eftir lok kalda stríðsins hafi leiðtogar Bandaríkjanna gerst værukærir. Gaddis segir, að „líkt og eftir fyrri heimsstyrjöldina, leyfðu þeir fjarveru á sýnilegri hættu sannfæra sig um að ekkert ósýnilegt gæti valdið hættu.“ Þeir höfðu sigrað kalda stríðið og það var nóg í huga þeirra.
Þeir sem gagnrýna Bush fyrir róttæka utanríkisstefnu sem eigi sér ekkert fordæmi í sögu Bandaríkjanna hafa einfaldlega rangt fyrir sér, segir Gaddis. Það sé sláandi hvað stefna Bush eigi margt sameiginlegt við þá stefnu sem John Adams var arkitektinn að, fyrir um 190 árum síðan. Það ætti ekki að koma mönnum í opna skjöldu, að mati Gaddis, að áhersla á fyrirbyggjandi og einhliða aðgerðir í bandarískri utanríkis- og öryggismálastefnu hafi komið aftur á yfirborðið eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september. „Djúpar rætur hverfa ekki auðveldlega á brott,“ og því hafi Bush gripið til þessarra aðgerða, í þeirri viðeitni að reyna endurreisa öryggi bandarísku þjóðarinnar.
Þrátt fyrir að Gaddis hrósi Bush fyrir þá langtímastefnu sem hann hafi komið með í kjölfar hryðjuverkaárásana, þá bendir hann á margt sem betur megi fara. Bush gæti t.d. lært ýmislegt af Roosevelt í því hvernig fara skuli með hið svokallaða mjúka vald (e. soft power). Gaddis gefur einmitt til kynna, að ein forsendan fyrir velgengni Bush stefnunnar, sé að heimurinn taki mætti Bandaríkjanna með opnum örmum.
Gaddis er þó ekki haldin þeirri blekkingu – líkt og sumir gagnrýnendur Bush – að hægt sé að snúa aftur til stefnu 10. áratugarins. Sá tími er liðin undir lok.
- Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska? - 21. ágúst 2008
- Af hverju kapítalismi leiðir ekki endilega til lýðræðis - 15. ágúst 2008
- Annað tækifæri - 12. janúar 2008