Evrópumeistarar?

Grikkir unnu EM 2004 og öllum virðist standa á sama. Vel gert hjá Grikkjum en hver á heiðurinn að titlinum?

Grikkir hafa um aldir verið þekktir fyrir flest annað en fótbolta. En nú hefur knattspyrnulandsliði þeirra á augabragði skotið upp á stjörnuhimininn og skipað sér á bekk með þeim bestu í Evrópu. Það verður þó því miður seint sagt að gríska landsliðið sé léttleikandi eða spili skemmtilegan bolta en segja má með sanni að það er vel skipulagt og leikmenn þess eru þolinmóðir og duglegir.

Af sex leikjum sínum á Evrópumótinu unnu þeir fjóra, gerðu eitt jafntefli og töpuðu einum. Aðeins í einum af þessum leikjum tókst þeim að skora fleiri en eitt mark – í fyrsta leik mótsins á móti Portúgal skoruðu þeir tvö. Þeir eru því ekki miklir markaskorarar en geta státað sig af því að hafa aðeins fengið á sig fjögur mörk, enda ekki annað sæmandi fyrir núverandi Evrópumeistara.

Fyrir Evrópumótið höfðu Grikkir aldrei unnið leik á stórmóti og veðbankar töldu afar litlar líkur á því að þeir myndu hampa titlinum. Hins vegar komu þeir, sáu og sigruðu og fóru alls ekki léttustu leiðina í gegnum mótið. Þeir unnu Portúgali, tvisvar, Frakka og Tékka, en gerðu jafntefli við Spánverja og eini tapleikurinn var á móti Rússum.

Þrátt fyrir allt gott sem segja má um gríska landsliðið á ég enn eftir að hitta þann sem var ánægður með sigur þeirra á Evrópumótinu. Menn virðast jafnvel hafa orðið fyrir töluverðum vonbrigðum og á endanum þótt lítið til mótsins koma. Undirritaður er dyggur stuðningsmaður enska landsliðsins á stórmótum sem þessum og þótti mjög miður að sjá þá detta út á móti Portúgölum. Hefðu þeir komist áfram má telja líklegt að Evrópubikarinn hefði endað í þeirra höndum.

En þegar öllu er botninn hvolft, hver á þá heiðurinn að hinum glæsta gríska sigri? Það hlýtur að vera heilinn á bakvið hið skipulagða lið Grikkja, þjálfarinn Otto Rehhagel. Eins og nafnið gefur til kynna er hann Þjóðverji og þeim skjátlast sjaldan þegar fótbolti er annars vegar. Þeir sem geta illa unað Grikkjunum sigurinn geta því huggað sig við það að þýska stálið var að verki á bakvið tjöldin og jafnframt að næsta stórmót í knattspyrnu er heimsmeistaramótið í Þýskalandi 2006. Við skulum vona að þá verði boðið upp á örlítið meiri skemmtun en að þessu sinni.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)