Það hefur nokkuð borið á því í málflutningi þeirra sem eru andvígir auðlindagjöldum að þeir telji að slík gjöld muni leiða til hærra vöruverðs og lakari þjónustu á sama hátt og virðisaukaskattur hefur áhrif á vöruverð. Þessi skoðun er hins vegar byggð á grundvallar misskilningi á eðli auðlindagjalda. Það er mikilvægur eðlismunur á slíkum gjöldum annars vegar og virðisaukaskatti hins vegar sem gerir það að verkum að auðlindagjald ætti alls ekki að hafa áhrif á verð og/eða gæði þjónustu.
Ástæðan er sú að auðlindagjald er í raun fastur kostnaður sem ræðst á engan hátt af ákvörðunum fyrirtækja um verð og þjónustu og hefur því engin áhrif á þær ákvarðanir. Farsímafyrirtæki sem þarf að ákveða hversu hátt verð það setur á símtöl ákvarðar verðið þannig að það hámarki hagnað fyrirtækisins. Þar sem auðlindagjaldið er alltaf það sama, hvaða verð sem fyrirtækið velur, hefur auðlindagjaldið engin áhrif á þessa ákvörðun. Fyrirtækið velur nákvæmlega sama verð með auðlindagjaldi og án auðlindagjalds, þ.e. verðið sem hámarkar hagnað fyrirtækisins.
Virðisaukaskattur er hins vegar hlutfall af verði vöru og er því ekki fastur kostnaður. Þvert á móti hækkar upphæð skattsins og lækkar þegar tekjur fyrirtækisins hækka og lækka. Fyrirtæki sem er að reyna að átta sig á því hvort það á að hækka eða lækka verðið á vöru sinni þarf því að huga að því hvað áhrif slík breyting hefur á upphæð virðisaukaskattsins sem fyrirtækið þarf að skila til ríkisins. Virðisaukaskattur hefur því áhrif á vöruverð.
Þetta er mjög mikilvægur munur á auðlindagjaldi og virðisaukaskatti. Raunar er það þessi munur sem gerir það að verkum að rétt er að segja að auðlindagjöld séu hagkvæmari tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð en virðisaukaskattur. Skattar eru nefnilega óhagkvæmari þeim mun meiri áhrif sem þeir hafa á hegðun fólks og fyrirtækja. Það er einmitt sá eiginleiki auðlindagjalda að vera fastur kostnaður og þar með að hafa ekki áhrif á verð og/eða gæði þjónustu sem gerir þau að hagkvæmustu tekjuöflunarleið sem ríkinu stendur til boða.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009