Eflaust voru margir sem kviðu fyrir skipulagningu sunnudagskvöldsins enda erfitt að þurfa að velja á milli þess að sjá Úrslitaleik EM og missa af upphafi tónleikanna eða öfugt. Sérstaklega þegar allir höfðu gert ráð fyrir að sjá tvö skemmtileg sóknarlið, Tékkland og Holland, í úrslitum.
Nú hefur hins vegar aðeins verið dregið úr þeim áhyggjum, hjá mörgum a.m.k. Grikkirnir slógu út enn eitt stórliðið í gær og eru komnir í úrslit öllum að óvörum.
Það verður ekki af Grikkjum tekið að sigur þeirra í gær var ekki ósanngjarn. Þeir spiluðu vörnina frábærlega og illa gekk hjá Tékkum að komast í gegn. Þau færi sem Grikkir fengu voru síður en svo verri en færi Tékkanna.
Það er hins vegar afar pirrandi að horfa á leiki þar sem lið eins Grikkir spila. Frábærir knattspyrnumenn líta út eins og algjörir klaufar þegar þeir hlaupa um í tvo klukkutíma og reyna að troða inn marki hjá mönnum hverra nöfn maður er að heyra í fyrsta skipti.
Það fyndna við leik Grikkjana er því ekki aðeins að þeir geta unnið leiki með öguðum varnarleik. Það hafa margir gert og raunar gerist þetta alltaf þegar smáþjóðir mæta hærra skrifuðum andstæðingum. Það magnaða er að Grikkjum tekst einhvern veginn að láta góð og skemmtileg lið eins Tékka og Frakka líta út þunglamaleg og hugmyndasnauð.
Grikkjunum hefur því tekist hið næstum ómögulega. Þrátt fyrir að menn séu hundfúlir yfir brottfalli Tékkanna, er vart hægt að fyllast einhverju hatri í garð Grikkja, eins og verður oft með lið sem grísa sig áfram með leiðinlegum varnarleik.
EM mun enda eins og það hófst, með leik Portúgala og Grikkja. Grikkjum tekst jafnvel að láta góð lið spila illa og þeir hafa gert hingað til má búast við leiðinlegum og pirrandi úrslitaleik. Metallica aðdáendur geta því óhræddir lagt tímanlega af stað og fundið sér stæði í Grafarvoginum.
Og lesið um leikinn í blaðinu á mánudaginn.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021