Lykill að lífsfyllingu?
|
Hagstjórn ríkja er flókið viðfangsefni og skoðanir skiptar um hvernig eigi að haga henni. En svo gripið sé til gamalla og góðra einfaldana á flóknu viðfangsefni, má segja að viðfangsefni hagstjórnar sé að flestum tilfellum annars vegar að reyna að stækka „kökuna“ (sem er í flestum tilfellum verg landsframleiðsla), og hins vegar að skipta kökunni sem jafnast. Þar sem markmið hagstjórnar er samkvæmt þessu tvíþætt er ljóst að allar aðgerðir sem stækka kökuna án þess að breyta skiptingu hennar eru jákvæðar, og það sama á við um allar aðgerðir sem jafna skiptinguna án þess að minnka kökuna. Þær aðgerðir sem jafna skiptinguna á kostnað heildarstærðar, eða öfugt, þarf síðan að meta í pólítísku samhengi og ákvarða hvort kostirnir séu stærri göllunum.
Þessi viðhorf til hagstjórnar byggja á mikilvægri grundvallarforsendu um þarfir og langanir einstaklinganna í þjóðfélaginu. Sú forsenda er að einstaklingar verði á einhvern hátt sáttari og hamingjusamari við það að þeirra biti stækki. Bubbi Morteins spurði í samnefndu lagi: „Skapar fegurðin hamingjuna?“. Hagfræðingar spyrja svipaðrar spurningar: „Skapa peningar hamingjuna?“, og treysta því að svarið sé já.
Richard Layard, hagfræðiprófessor við London School of Economics, hélt nýverið fyrirlestraröð þar sem hann dró saman ýmsar rannsóknir á því hvað hefur áhrif á hamingju fólks, og sér í lagi hvort auknar þjóðartekjur auki hamingju þess. Svarið við því er samkvæmt þessum rannsóknum nei.
Þegar hamingja fólks er skoðuð síðustu fimmtíu árin kemur í ljós að þrátt fyrir að tekjur fólks hafi aukist gríðarlega í flestum löndum heims hefur hamingja fólks í þessum löndum staðið í stað. Samanburður á milli landa leiðir svipaða hluti í ljós, það er að lítið samhengi er milli meðaltekna í hverju landi og hamingju fólks í landinu. Reyndar er rétt að taka fram að í mjög afmörkuðum tilfellum kemur fram fylgni milli tekna og hamingju. Annars vegar kemur í ljós að í þeim löndum þar sem fólk lifir undir sultarmörkum eru íbúarnir áberandi óhamingjusamari en annars staðar, og hins vegar að í þeim löndum sem voru fyrir neðan sultarmörk en eru það ekki lengur hafa íbúarnir orðið mun hamingjusamari en áður.
En í hefðbundum vestrænum ríkjum, þar sem nánast enginn sveltur, virðast auknar þjóðartekjur ekki hafa nein áhrif á hamingjuna. Þetta hljómar kannski undarlega, enda myndu sennilega flestir gleðjast við að fá launahækkun eða happdrættisvinning. En málið er ekki svo einfalt. Niðurstöður rannsóknanna gefa til kynna að launahækkun auki hamingju þess sem fær hana svo lengi sem allir aðrir fá ekki líka sömu launahækkun. Ef allir bitar kökunnar stækka jafnmikið verður fólk lítið hamingjusamara.
Til viðbótar við stórar kannanir á hamingju fólks eftir löndum og yfir löng tímabil hafa einnig verið gerðar kannanir til að greina hvernig tilteknir einstaklingar líta á samhengi peninga og hamingju. Könnun sem gerð var í Harvard háskóla fyrir nokkrum árum skoðar einmitt þetta samhengi, og voru nemendur skólans beðnir um að svara einfaldri spurningu. Þýdd og staðfærð útleggst spurningin eitthvað á þessa leið:
A: Þú færð 500.000.- í mánaðarlaun en aðrir fá að meðaltali 250.000.-
B: Þú færð 1.000.000.- í mánaðarlaun en aðrir fá að meðaltali 2.000.000.-
Meirihlutinn svaraði þessari spurningu með því að velja möguleika A, það er, fólk kaus fremur að hafa minna milli handanna en meira, svo lengi sem það var ofar í launastiganum en náunginn.
Þessar niðurstöður valda ákveðnum vandamálum fyrir valdhafa. Það er nægilega strembið að reyna að auka hagvöxt og hagsæld í landinu, þótt ekki bætist við hausverkur yfir því að enginn verði neitt sáttari fyrir vikið. Hvað ef allar betrumbætur á ytri aðstæðum fólks eru til einskis, því öfund gagnvart betri aðstæðum allra annarra vegi þær algerlega upp? Er þá nokkuð til ráða annað en að setja þjóðina á geðlyf eins og hún leggur sig? Sem betur fer kemur í ljós að „öfundaráhrifin“ eru ekki jafnmikil hvað varðar öll lífsgæði. Nemarnir í fyrrnefndri könnun voru til að mynda einnig spurðir annarrar spurningar:
A: Þú færð tvær vikur í sumarfrí, en aðrir fá að meðaltali eina viku.
B: Þú færð fjórar vikur í sumarfrí, en aðrir fá að meðaltali átta vikur.
Í þessari spurningu snerist dæmið við og mikill meirihluti valdi B, það er, svarendur völdu meira frí, jafnvel þótt það þýddi að aðrir fengju enn meira frí en þeir. Í raun kom í ljós að hægt er að raða mismunandi lífsgæðum upp eftir því hvort fólk metur þau að eigin verðleikum (fríið), eða í samanburði við aðra (launin), og voru ýmis lífsgæði skoðuð til viðbótar við þessi tvö.
Meðal þeirra var einmitt fegurðin sem Bubba var svo hugleikin. Í ljós kom fólk hefur engan áhuga á fegurð fegurðarinnar vegna, aðeins að vera fegurri en náunginn. Fegurðin skapar greinilega ekki hamingjuna.
Hvað má læra af slíkum niðurstöðum? Ekki hafa allir trú á hamingjumælingum, sem eru flókið fyrirbæri og raunar efni í heilan pistil. En að því gefnu að menn vilji reyna að miða hagstjórnarstefnu við að auka hamingju fólks gefa niðurstöðurnar ákveðnar vísbendingar:
- Hagvöxtur er mikilvægur við að undirbyggja samfélagið og tryggja fjármögnun þess.
- Atvinna og atvinnuöryggi eru mikilvægir þættir í hamingju fólks. Hagvöxtur og hátt atvinnustig er líklegt til að bæta líðan fólks. Niðursveiflur, kreppur og atvinnumissir hafa mjög slæm áhrif á líðan fólks.
- Fólk metur frítíma sinn mikils og aukning á frítíma er líkleg til að skila aukinni ánægju jafnvel þótt frítíminn aukist jafnt hjá öllum.
- Þjóðarátak til að auka fegurð Íslendinga er ekki vænlegt til árangurs.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020