Það hefir mikið vatn runnið til sjávar síðan Matti Nykänen gerði garðinn frægan á Ólympíuleikunum.
|
Það virðist vera sem öll samfélög eigi sér einhvers konar hirðfífl sem menn geta sameinast um að hlægja að. Það er allt gott blessað. Meira að segja bara alveg frábært. Þessar persónur eru að öllu jöfnu fyrrverandi eitthvað og svífast einskis til þess að komast aftur í sviðsljósið. Hér á landi hefir ekki verið stundarfriður 2000 fyrir viðlíka fífli – en í pistli dagsins segir þó af öðrum og öllu merkilegri manni.
Í raun er ævintýrið af skíðastökkvaranum Matti Nykänen gömul saga ný. Eftir að hafa unnið til allra verðlauna sem skíðastökkvari getur látið sig dreyma um, lagði hann skíðin á hilluna og hugðist einbeita sér að öðrum hlutum.
Og það hefir okkar maður svo sannarlega gert…
Eins og sönnum sveimhuga sæmir ákvað hann sennilega væri bara sterkasti leikurinn í stöðunni að stofna rokkhljómsveit. Það væri svo sem allt gott og blessað ef Nykänen hefði ekki fengið þá flugu í höfuðið að heillavænlegast væri fyrir bandið ef hann myndi í senn spila á öll hljóðfærin, syngja og semja líka öll lögin. Rammfölsk söngrödd hans kom þó ekki að sök og finnska þjóðin fylkti liði til að berja þjóðhetjuna augum – allt gekk eins og í sögu.
Útvarpi Sögu.
En lífsstíll rokkarans er þreytandi til lengdar. Smám saman varð öllum ljóst að Nykänen var sokkinn djúpt í ólifnað sem markaði upphafið að endi hljómsveitarinnar. Nykänen var eyðilagður maður. Hann og konan hans skildu að skiptum. Hann kvæntist á nýjan leik – skildi – kvæntist aftur – skildi – og kvæntist loks í fjórða sinn, en athöfnin fór einmitt fram í þyrlu!
Það er því ekki ofsögum sagt að sambandið hefir verið stormasamt frá upphafi og virðist jafnvel hafa verið andvana fætt. Og skal engan furða. Eiginkonan gengur undir viðurnefninu pylsudrottningin og mun í fyllingu tímans erfa stærsta pylsufyrirtæki Eystrasaltsríkjanna. Og hún klárar svo sannarlega alltaf matinn sinn!
Steininn tók þó fyrst úr þegar okkar maður seldi alla verðlaunapeningana sína á internetinu til að fjármagna áfengsneyslu sína. Finnska þjóðin saup hveljur af æsingi. Þjóðræknir samlandar hans stofnuðu samtök sem höfðu það eitt að augnamiði að ná verðlaunapeningunum aftur til landsins – sem þeim tókst að lokum.
Síðasti afleikur Nykänen var loks að hefja framleiðslu klámmynda. Hann lét sér ekki segjast og ákvað að beita sömu gullnu formúlu og hafði riðið tónlistarferli hans að fullu. Hann ákvað sem sagt að framleiða, leikstýra og leika aðalhlutverkin í klámmyndunum. Eftir þennan afleik afskrifaði finnska þjóðin manninn að mestu – en sagan segir okkur að sumir menn gefast bara aldrei upp.
Þá er bara að vona að Ástþór fái ekki sömu flugu í höfuðið!
Já, við skulum bara vona…
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007