Það eru ýmsar hvatir sem ráða því hvernig menn ráðstafa atkvæði sínu. Sumir kjósa bara þann sem er þeim skyldastur meðan aðrir kjósa eitthvað flippað, bara til að vera öðruvísi en allir hinir. En vissulega var það ekki auðvelt val sem margir stóðu fyrir seinasta laugardag. Á að láta sig hafa að kjósa skásta kostinn bara því að hinir eru enn þá síðri eða á sitja hjá og láta heilshugar vinstrilúða kjósa Ólaf og afstýra slysi? Sá sem þetta skrifar valdi fyrri kostinn en álasar ekki þeim sem völdu þann síðari.
Það er nú reyndar svolítið skondið að sjá suma menn tala um að niðurstöðurnar sýni að „fólkið í landinu“ hafi verið meina þetta eða hitt með öllum auðu atkvæðunum þegar ljóst er að viðmælendurnir eru einmitt sjálfir í hópi þeirra sem svo gerðu. „Fólkið í landinu“ var að senda skilaboð um að það vilji ekki pólitískan forseta. Sem sagt „við“ sögðum það. Svolítið kjánalegt að tala um sjálfan sig í þriðju persónu.
En þrátt fyrir að hafa kosið núverandi forseta þá frábið ég mér það að vera kominn í sérstakan fanklúbb Ólafs Ragnars Grímssonar með atkvæði mínu. Ég held að líka að Ólafur geti vart verið að fá aðsvif yfir hinum mikla sigri sínum. Í kosningum þar sem mótframbjóðendur hans voru rugludallur og óþekktur borgari töldu um tveir þriðju kjósenda að hann væri hæfastur til verka.
Þetta þykir mér svolítið mikið atriði sem nýkjörinn forseti verður að átta sig á. Þrátt fyrir að meirihluti kjósenda hafi álitið hann vera skásta kostinn er ekki þar með sagt að allir þeir séu að blessa hans störf og framkomu með atkvæði sínu. Þeir svöruðu einfaldlega þeirri spurningu: „Hver vilt þú að verði, af þessum þremur dauðlegu mönnum, næsti forseti Lýðveldisins?“
Ég er langt frá því ánægður að Ólafur Ragnar skuli vera forseti Íslands, í eitt kjörtímabil í viðbót. Ég er ekki hrifinn af fortíð hans, mér finnst hann klisjukenndur og ég set spurningamerki við tryggð hans við sannleikann. Eflaust hefði ekki þurft nema meðalþekktan garðálf með hreina samvisku til að ég mundi kjósa hann frekar. En hann var skásti kosturinn og því kaus ég hann.
Sumir mátu það svo að allir frambjóðendur væru jafnslappir og skiluðu auðu. Þeir gerðu það væntanlega til að lýsa sérstakri óánægju með Ólaf, því varla trúi ég því að menn hafi eftir allt saman talið hann og Ástþór vera jafngóða kosti. Sjálfur tel ég að til séu betri leiðir til að „senda skilaboð“ en að skila auðu í kosningum (SMS, email, leynilegt handaband). En auðvitað er ég engin maður til að segja öðrum hvað þeir eigi að gera.
Vandinn við góða kosningu Ólafs hefði verið sá að hann hefði eflaust gortað sig af henni og talið sérstakan móralskan sigur. En það segir Ólafi varla mikið um hans raunverulegu vinsældir að hafa orðið fremstur miðað við hvernig samkeppnin sem hann fékk var.
Það er auðvitað ómögulegt að segja hver niðurstaðan sé þegar aðeins einn er í framboði. Ólafur má auðvitað vera ánægður með að hafa sigrað en ætti ekki að gera sér upp einhverjar ranghugmyndir um vinsældir sínar í kjölfar úrslitanna. En jafnframt ættu þeir sem eru andvígir Ólafi að koma fram með alvöru mótframboð. Að kjósa ekkert er svona nett aulalegur málstaður til að berjast fyrir.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021