Jacek Kuron fæddist í Lvov (nú í Úkraínu) árið 1934. Eftir stríð flutti hann til Kraká og síðan Varsjá þar sem hann bjó til æviloka.
Jacek Kuron var alla tíð mikill vinstrimaður, og var jafnvel í Kommúnistaflokknum framan af ævinni. Hann sagði þó skilið við flokkinn endanlega um miðjan sjöunda áratug. Hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að birta opið bréf til flokksmanna þar sem hvatt var til umbóta.
Samtals sat hann í fangelsi í um 9 ár. Meðað á einni slíkri dvöl stóð dó Gajka, fyrri eiginkona hans. Hann hafði fengið leyfi til að heimsækja hana í 3 tíma þar sem hún lá banaleguna en varð af snúa aftur í fangelsið. Hún dó tveimur tímum síðar.
Hann tók virkan þátt í baráttunni gegn alræðisstjórninni og stofnaði mörg óháð verkalýðsfélög. Hans slagorð var „Brennið ekki ráðin, stofnið ykkar eigin.“ Hann reyndi líka að hindra illa skipulögð og handahófskennd mótmæli sem enduðu bara með handtökum eða óeirðum. Um fram allt hafði Kuron þó einhvern vinalegan sjarma og bar virðingu fyrir öllu fólki. Það sést t.d. á því að fulltrúar allra helstu trúarbragða heims fluttu bænir í útför hans þrátt fyrir að Kuron sjálfur hafi verið trúlaus og eflaust bara verið kallaður kommi á öðrum tímum.
Jacek Kuron var einn af þessum mönnum sem maður efaðist aldrei um að meinti vel. Hann varð atvinnumálaráðherra í fyrstu frjálsu Ríkisstjórn Póllands og var frægur fyrir vikulega sjónvarpsþætti, Korter með atvinnumálaráðherranum [sic], þar sem hann reyndi að tala kjark í fólk á erfiðum tímum. Hann fór sjálfur og gaf heita súpu af götum Varsjár, ekki af popúlisma eins og svo margir stjórnmálamenn heldur trúði maður því að honum virkilega þótti það mikilvægt.
Eins og svo margir aðrir fótaði Jacek Kuron sig aldrei jafnvel í frjálsum stjórnmálum og baráttunni fyrir þeim. Hann fór meðal annars í misheppnað forsetaframboð 1995 en lenti í þriðja sæti. Eftir það dró hann sig smám saman úr hringiðu stjórnmálanna og beitti sér í mannúðarmálum allt til æviloka. Hann starfaði að málefnum barna í Póllandi en einnig í Bosníu og Afríku.
Tveir persónulegir vinir Jacek Kuron sendu samúðarkveðjur í dag: Vaclav Havel og Dalaj Lama, en sá síðarnefndi var af og til gestur í íbúð hans í Varsjá þar sem þeir ræddu mannréttindamál. Þótt rödd mín sé smá við hliðina á þessum tveimur nöfnum langar mig engu að síður að koma á framfæri samúðarkveðjum til fjölskyldu hans og lýsa yfir sorg minni vegna brotthvarfs þessa frábæra manns.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021