Fyrir skömmu var birt greiðsluafkoma ríkissjóðs fyrir fyrstu fimm mánuði þessa árs. Í ljós kom að greidd gjöld ríksins hafa hækkað um rúmlega 16,5 milljarða milli ára eða 22,4%. Við fyrstu sýn er þessi hækkun með hreinum ólíkindum. Maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér hvort allar flóðgáttir séu hreinlega opnar upp á gátt í fjármálaráðuneytinu.
Þegar betur er að gáð kemur hins vegar í ljós að hluti útgjaldaaukans stafar af sérstökum tilefnum eða kemur ekki til gjalda á rekstrargrunni. Hvað sérstök útgjöld varðar má til dæmis nefna að bætur til öryrkja í kjölfar öryrkjadómsins námu 1,3 milljörðum og að 900 milljónum var veitt í sérstök framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Af greiddum gjöldum sem ekki koma til gjalda á rekstrargrunni má nefna 1,8 milljarða í vaxtagreiðslur sem skýrast af því að stór flokkur spariskírteina kom til innlausnar í febrúar. Eftir standa hins vegar talsverðar almennar hækkanir útgjalda. Að því er ég kemst næst virðast greidd gjöld hafa aukist um rúm 17% milli ára þegar tekið hefur verið tillit til allra sérstakra útgjalda. Hér virðist vera um mjög almennar hækkanir að ræða og er líklegt að miklar launahækkanir opinberra starfsmanna skýri stóran hluta þessara hækkana.
En þótt alltaf sé unnt að skýra aukningu útgjalda á einhvern veg er ekki þar sem sagt að í skýringunum felist afsökun fyrir útgjaldaaukningunni. Þannig er til dæmis athyglisvert að þegar sérstök útgjöld komu til sögunar á fyrstu fimm mánuðum ársins, t.d. vegna öryrkjadómsins, var lítið sem ekkert talað um sérstakar aðhaldsaðgerðir til þess að vega upp á móti þessum sérstöku útgjöldum.
Á undanförnum mánuðum hefur komið betur og betur í ljós að stjórnvöld vanmátu stórlega það aðhald sem hagkerfið þurfti á að halda í formi hærri vaxta og aðhaldssamrar fjármálastefnu á árunum 1997-2000. Ef til vill er þetta ekki besti tíminn til þess að snúa við blaðinu og herða sultarólina. Hagkerfið virðist nú vera að hægja á sér af sjálfs dáðum nokkuð hratt. Það er hins vegar mikilvægt að við lærum af reynslu síðustu ára svo okkur takist betur upp við að koma í veg fyrir ójafnvægi í næstu uppsveiflu.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009