Daginn tekið að stytta. Loksins. Í gær voru sumarsólstöður, eða sumarsólhvörf, þegar dagurinn er lengstur. Íslendingar ættu nú að vera orðnir vanir því að á sumrin séu næturnar bjartar og dagarnir langir en það gildir nú ekki um alla.
Ég er ein þeirra sem get alls ekki sofnað þegar bjart er í svefnherberginu. Af gluggatjöldunum að dæma í húsinu sem ég bý í (fjölbýlishús) þá gildir það sama um ansi marga. Ég læt mér nægja að vera með dökk gluggatjöld fyrir gluggum sem myrkva svefnherbergið nokkuð vel, nema þegar það sólin nær að skína á gluggann sem hefur verið nokkuð algengt nú í sumar. Nágrannar mínir eru aftur á móti sumir hverjir heldur kappsfyllri í tilraunum sínum til að halda birtunni úti. Álpappír og svartir ruslapokar eru dæmi um nútímagardínur í húsinu. Kannski ekkert sérlega smart en gegna hlutverki sínu vel.
Maður skyldi þó ætla að fólk fætt og uppalið á Íslandi væri orðið vant þessu. En svo virðist alls ekki vera. Að minnsta kosti ekki ef marka má gardínuvalið hjá mér og nágrönnunum sem erum jú flest uppalin við þetta. Af tali mínu við vini og kunningja hefur mér einnig orðið ljóst að ég er ekki ein.
Ég á það til að fara óskaplega seint að sofa á sumrin, sérstaklega þegar fallegt veður er úti. Það gerir birtan, mér finnst hreinlega ekki vera komin nótt. Held að það sama gildi um marga aðra. Maður verður svona örlítið ofvirkur. Getur verið frábært þegar mörg verkefni liggja fyrir sem þarf að leysa. Getur líka verið erfitt þegar vakna á snemma næsta morgunn.
Ferðamönnum sem koma til landsins á sumrin finnast mörgun þetta fyrirbæri, björtu næturnar, hreint frábært. Þangað til þeir ætla að fara í háttinn. Þá getur það gengið erfiðlega að sofna. Þeir eru jú flestir vanir því að kolniða myrkur skelli á að kvöldlagi og vari fram á morgun. Það er allt annað að sofna í myrkri.
En björtu næturnar eru ekki alslæmar. Einn kostur við þær er sá að á morgnanna er bjart. Það er nefnilega miklu auðveldara að vakna í birtu en dimmu og drunga. Maður er líka bara einhvern vegin hressari og glaðari þegar það er svona bjart.
Já, sumarið er tíminn! Allavega fram að háttatíma.
- Þú ert það sem þú hugsar - 9. nóvember 2007
- Verða allt sem þú getur - 15. júní 2007
- Hver velur hvað ég borða? - 8. september 2006