SpaceShipOne

Eins og greint var frá á forsíðu Fréttablaðsins á sunnudaginn að þá hefur fyrsta einkageimferjan verið smíðuð. SpaceShipOne eins og hún er kölluð er smíðuð af Bandaríkjamanninum Burt Rutan og mun ná um 100km hæð yfir jörðu.

Eins og greint var frá á forsíðu Fréttablaðsins á sunnudaginn að þá hefur fyrsta einkageimferjan verið smíðuð. SpaceShipOne eins og hún er kölluð er smíðuð af Bandaríkjamanninum Burt Rutan og mun ná um 100km hæð yfir jörðu.

Það komst í fréttirnar fyrir um tveimur árum síðan þegar Bandarískur auðjöfur keypti sér ferð með rússneskri geimferð fyrir stórfé og varð þar með fyrsti ferðamaðurinn til að fara út í geiminn. Hingað til hefur það einungis veri á færi ríkisstjórna að senda menn út í geim enda kostnaðurinn gífurlegur. Þetta kann þó að breytast með tilkomu geimferja eins og SpaceShipOne. Það má því gera að því skóna að geimferðir fyrir ferðamenn verði raunhæfur möguleiki í fyrirsjáanlegri framtíð. Eftirspurnin er líklega til staðar enda marga sem dreymir um að horfa á útlínur jarðarinnar úr mikilli fjarlægð sem og að upplifa þyngdarleysi í ákveðinn tíma.

Geimflaugin og flugvélin, White Knight, sem kemur henni á loft.

SpaceShipOne, sem fór í loftið á mánudaginn í fyrsta sinn opinberlega eftir tilraunaflug, er smíðuð af fyrirtæki Bandaríkjamannsins Burt Ratan og ber flugmann og tvo farþega. Sérhannaða flugvélin White Knight mun bera hana upp í skýin og verður henni skotið þaðan í um 100 km hæð eða um 330.000 fet. Til samanburðar flýgur venjuleg farþegaþota í um 35-40.000 feta hæð. Þotuhreyfillinn, sem er þrýstiloftshreyfill og þarf súrefni til að geta starfað, hættir að virka í ákveðinni hæð, um 80.000 fet, þar sem loftið er orðið svo þunnt. Til þess að komast hærra en það þurfa því geimflaugar að vera knúnar eldflaugahreyfli. Eldflaugahreyfillinn brennir einfaldlega gasi og spýtir því út á ógnarhraða. Lögmálið um varðveislu skriðþungans útskýrir það af hverju það verður til þess að eldflaugin þeytist áfram. Það segir að margfeldi massa og hraða gassins sem þrýstist út úr eldflauginni sé það sama og margfeldi massa og hraða eldflaugarinnar.

Það er víst eins og hin besta rússíbanaferð að ferðast með SpaceShipOne. Eftir að flugvélin White Knight hefur náð um 45-50.000 feta hæð, er SpaceShipOne skotið út í geim í nær lóðréttri stöðu. Hröðunin sem farþegarnir upplifa er um þreföld þyngdarhröðun jarðarinnar. Geimflaugin heldur áfram með þeirri hröðun þar til hún nær um 200.000 þúsund feta hæð en þá er slökkt á hreyflunum. Augnabliki eftir það er hraði farþeganna meiri en flaugarinnar og því er eins gott að þeir séu vel spenntir í sætisbeltin því annars myndu þeir þjóta út um framrúðuna á flauginni. Flaugin nær svo að ferðast um 150.000 fet til viðbótar áður en þyngdarafl jarðar hefur að fullu dregið úr hraða hennar. Farþegarnir ná að upplifa þyngdarleysi í um fjórar mínútur á þessu ferðalagi.

Svona að lokum má geta þess að það er í gangi samkeppni um hin svo kölluðu Ansari X verðlaun. En sá sem fyrstur kemur þremur aðilum út í geim, í sömu geimferjunni, tvisvar á tveggja vikna tímabili fær tíu milljónir Bandaríkjadollara í verðlaun. Það er því um að gera fyrir áhugamenn um geimferðir að hefjast handa og reyna að krækja í þennan aur á undan Burt Rutan. Hafiði í huga að til að hljóta verðlaunin þarf þetta að hafa gerst fyrir 1.janúar 2005.

Ítarefni og heimildir

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)