Mikið hefur verið rætt um hver völd forsetans séu að undanförnu. Hefur sú umræða aðallega snúist um heimild hans til að synja lögum frá Alþingi staðfestingu. Í næstu setningum verður kastljósinu beint frá áhrifum forsetans á innanríkismálum að mögulegum áhrifum forsetans á alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.
Ef 21. gr. og 1. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar eru lesnar og skýrðar saman er nokkuð ljóst að í íslenskum stjórnskipunarrétti er forsetanum ekki ætlað að hafa frumkvæði að samningum við erlend ríki. Í 21. gr. segir að forseti lýðveldisins geri samninga við önnur ríki. Tekið er þó fram að hann geti enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til. Í 1. mgr. 13. gr. segir að forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt. Ef 14. gr. reglugerðar um stjórnarráð Íslands og 2. mgr. 1. gr. laga um utanríkisþjónustu eru skoðaðar er ljóst að utanríkisráðherra fer með vald það er kveðið er á um í 21. gr. stjórnarskrárinnar. Í 2. mgr. 1. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands segir að utanríkisþjónustan annast í umboði forseta samningagerðir við önnur ríki, nema þar frá sé gerð undantekning í lögum eða forsetaúrskurði. Í 14. gr. reglugerðar um stjórnarráð Íslands er m.a. tekið fram að utanríkisráðuneytið fari með mál, er varða skipti forseta Íslands og annarra þjóðhöfðingja, skipti við erlend ríki, samninga við önnur ríki og gerð þeirra og aðild Íslands að alþjóðlegum samtökum, stofnunum, ráðstefnum og fundum, er varða opinbera hagsmuni og eigi ber undir annað ráðuneyti, samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar eða eðli máls.
Í 2. mgr. 7. gr. Vínarsamningsins um milliríkjasamninga frá 1969 sem íslendingar eru ekki aðilar að en er talin endurspegla þjóðréttarvenju sem íslendingar verða því að fylgja er kveðið á um hvaða aðilar sem fram koma fyrir hönd ríkis eru taldir hafa formlegt samningahæfi til þess að vera í fyrirsvari fyrir ríki án sérstaks heimildabréfs. Þeir sem taldir eru fyrst upp eru þjóðhöfðingi, forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Forseti Íslands er þjóðhöfðingi. Er því hægt að ætla að forsetinn hafi samningshæfi að þjóðarétti. Þar sem að þeir sem hafa samningshæfi að þjóðarétti geta skuldbindið ríki skriflega sem og munnlega, sbr. dómur Fasta alþjóðadómstólsins í svonefndu Austur Grænlandsmáli frá 1933 (Danmörk gegn Noregi) og dómur Alþjóðadómstólsins í Haag í svokölluðu kjarnorkutilraunamáli frá 1974 (Ástralía og Nýja Sjáland gegn Frakklandi), getur forseti Íslands skuldbundið íslenska ríkið að þjóðarétti með yfirlýsingum sínum og undirskriftum.
Í þessu samhengi er þó ekki nóg að líta til 2. mgr. 7. gr. Huga verður að 46. gr. samningsins en þar segir að ríki geti ekki krafist ógildingar á samþykki sínu við samningsgerð á þeim grundvelli að það sé andstætt landslögum nema slíkt sé augljóst og varði grundvallarreglu þess. Samningur sem gerður er andstætt stjórnarskrá myndi falla innan ramma þessa ákvæðis enda eru grundvallarreglur bundnar í stjórnarskrám. Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að forseti Íslands getur skuldbundið íslenska ríkið að þjóðarétti, hins vegar ættu raunverulegir valdhafar skv. íslenskum stjórnskipunarrétti að geta krafist ógildingar. Getur því sú undarlega staða komið upp að íslenska ríkið verði skuldbundið að þjóðarétti án þess að samningsgerðin standist íslensku stjórnarskrána ef ríkið krefst ekki ógildingar á samningnum.
Forseti Íslands getur skapað mikil vandræði fyrir íslenska ríkið ef hann fer að gefa yfirlýsingar um hitt og þetta og fer að skrifa undir hina og þessa samninga. Það hlýtur að teljast til álitshnekkis ef grípa þarf til ógildingarreglna vegna gjörninga þjóðkjörins þjóðhöfðingja.
Mikil ábyrgð fylgir því að taka þátt í kosningum. Hér að ofan hefur verið sýnt hvernig forsetinn getur skandaliserað með eftiminnilegum hætti á alþjóðavettvangi. Hvetur undirritaður því alla sem lesa þessar línur að hafa þetta dæmi í huga og vanda valið á laugardaginn næstkomandi þegar þjóðhöfðingi verður kjörinn.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009