Atvinnuþjófnaður útlendinga er einhver mesta og langlífasta þvæla sem fundin hefur verið upp. Sú ranghugmynd að atvinna sé takmörkuð auðlind sem flytjist á milli manna, kynþátta og landsvæða hefur oft verið rædd á þessu vefriti og jörðuð í hvert skipti, enda ekki erfitt verk. En þrátt fyrir að vera álíka fölsk og tilgátan um flatneskju jarðar virðist atvinnuþjófnaðarkenningin njóta sívaxandi vinsælda hjá ráðamönnum ýmissa þjóða.
Skemmst ber að minnast umræðunnar um „hjáleið inn á íslenskan vinnumarkað“ í kringum nýju útlendingalögin og þann ásetning bandarískra forsetaframbjóðenda að „stöðva flutning bandarískra starfa til útlanda.“ Nýjasta dæmið um þessa bábilju eru kröfur Þjóðverja og Frakka til að setja lágmörk og tekjuskatt fyrirtækja í ESB, til að koma í veg fyrir að nýju aðildarríkin „taki til sín“ fjárfestingar með „óeðlilegri“ skattasamkeppni.
Þetta er auðvitað ótrúleg og ósanngjörn frekja mjög þróaðs ríks í garð fátækari nágranna. Flestar A-Evrópu þjóðir hafa mun lægra tekjuskattshlutfall á fyrirtæki, sem laðað hefur að erlendar fjárfestingar. En það er auðvitað auðveldara að ota að þýskum kjósendum meintum skatthórdómi fátækra slava heldur að benda á sín eigin mistök. Það eru á endanum höftin og ósveigjanlegu hagkerfin sem valda atvinnuleysi þessara ríkja.
Nýlega var kveðinn upp merkur úrskurður í Hæstarétti Þýskalands. Rétturinn áttu að taka afstöðu til hvort lög sem bönnuðu að hafa verslanir opnar á sunnudögum stríddu gegn stjórnarskrá. Atkvæðafgreiðslan fór 4-4 en meirihluta þurfti til að fella lögin úr gildi.
Það er alveg einstaklega sorglegt vitrir menn leita skýringa á vandamálum í atferli nágranna sinna í stað að horfa í sinn eigin barm. Sjöundi hver Þjóðverji er án atvinnu. Það er bannað að hafa búðir opnar sjöunda hvern dag. Hvernig bregðumst við við vandamálinu? Með auknu frelsi? Nei, með skattaþvingunum í garð annarra þjóða!
Já, sumir stjórnmálamenn hafa yndi af því að setja lög. Og þegar þeim er bent á fáranleika laganna bregðast þeir ekki við með því að afnema lögin eða einfalda þau í átt til meira frjálsræðis. Nei, þeir bregðast við með nýjum lögum og undanþágum við gömlu lögin.
Þannig benti einhver á það að það hentaði ferðamönnum einkar illa að geta ekki farið í búð og verslað helstu nauðsynjar þegar þeir væru á ferðalagi. Við þessu var ákveðið að bregðast með því að leyfa verslunum á járnbrautarstöðvum að hafa opið á helgidögum. Ferðamaður sem staddur er á Ostbahnhof í Berlín á sunnudegi getur nú auðvitað gleymt því að hann fái að kaupa sér nokkuð nema að standa í hálftíma röð, enda er hálf Berlín að versla í matinn í þeim tveimur „ferðamannamatvöruverslunum“ sem opnar eru á stöðinni.
Vitleysur vegna laganna koma fyrir á fleiri stöðum og langt mál væri að tiltaka þær allar. Til að mynda hafa margar bílasölur sérstakar „sýningar“ á sunnudögum. Þar býðst fólki að koma og skoða bílana en það má auðvitað ekki kaupa það og, athugið, starfsfólki er óheimilt að veita upplýsingar! T.d. má ekki segja hvað bíllinn kostar því það væri sölumennska og slíkt er stranglega bannað á sunnudögum.
Sem betur fer er mikil andstæða við skattasamhæfingu hjá t.d. Bretum og öllum nýju aðildaríkjunum. Hins vegar greiða Þjóðverjar allra þjóða mest í ESB svo að þeir hafa ákveðið tromp í hendi í þessum efnum.
Og bara svona að lokum. Sumir láta eins og innganga í ESB væri óheillaskref fyrir þá frjálshyggjuparadís sem Ísland vill verða. En miðað afstöðu Íslendinga t.d. til landbúnaðarmála má draga í efa að Ísland yrði sérstakur frjálsræðismúlasni innan vébanda þess.
Nýlega samþykktu ráðherra Norðurlandanna að löndin, þar á meðal Ísland og Noregur sem eru ekki í ESB, skulu mynda með sér sérstakan þrýstihóps innan sambandsins (?) til samræma áfengisskatta þess. Segja má að atvinnuþjófnaðarvitleysan hafi þarna náð nýjum hæðum. Norðurlöndum tókst að mynda með sér bandalag til að hindra flutning norrænnar drykkju til annarra Evrópulanda. Merkilegt alveg hreint.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021