Þetta ár, eins og öll önnur ár, kemur 17. júní, og hann nálgast óðfluga. Dagskráin í höfuðborginni er vegleg í ár enda ekki við öðru að búast á ári 100 ára afmælis heimastjórnar.
Undirrituð hefur nú sjaldnast eytt þessum merka degi í Reykjavík, enda mikil flökkukind og flestum sumrum ævinnar verið eytt annars staðar en í borginni. Það er þó eitt sem víst er og það er að 17. júní fer aldrei fram hjá manni sé maður á annað borð staddur á landinu. Íslendingar sjá um það!
Ég hef þó ekki alltaf verið stödd á Íslandi þegar þessi merkisdagur rennur upp. Árið 2002 eyddi ég þjóðhátíðardegi mínum við próflestur í Austurríki og áttaði mig ekki á því að kominn væri sjálfur þjóðhátíðardagurinn fyrr en langt var liðið á daginn. Eftirfarandi er kafli úr bréfi sem ég skrifaði til félaga minna á Íslandi þennan dag:
„Ég byrjaði strax [þegar ég áttaði mig á hvaða dagur væri] að raula fyrir munni mér „Öxar vid ána“ eins og góðum Íslendingi sæmir. Það breyttist fljótlega úr rauli í hraustlegan söng um leið og hjarta mitt fylltist af ættjarðarást. Í huga mér birtust niðandi fossar, grænar hlíðar, glóandi eldgos, skógar og móar, konur í þjóðbúningi, íslenski hesturinn og húsið hans Davíðs Stefánssonar á Akureyri (ég hef ekki hugmynd um hvar Davíð Stefánsson kemur inn í þetta!). Þetta eru engar ýkjur. Svona líður manni þegar maður er aleinn í útlöndum og enginn skilur hvað það er að missa af 17. júní!!
Ég ákvað svo að kíkja inn á heimasíðu Íþrótta- og tómstundaráðs og athuga hvað um er að vera í dag og af hverju ég missi. Auðvitað er það bara það sama og venjulega, Brúðubíllinn, skátarnir, Bjöggi og Land og Synir á sínum stað svo eitthvað sé nefnt. Engir niðandi fossar eða grænar hlíðar (fyrir mér flokkast Arnarhóll ekki undir grænar hlíðar). Venjulega hefur mér ekki þótt þetta neitt sérstaklega spennandi. Í dag varð mér þó ljóst, eins og svo oft á þessari önn, hversu satt máltækið er „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“
Íslendingar eru ættjarðarelskandi þjóð. Eins og áður sagði er dagskrá 17. júní í ár mjög vegleg og hafa borgaryfirvöld greinilega lagt mikið í það að gera þjóðhátíðardaginn sem hátíðlegastan og ánægjulegastan fyrir alla aldurshópa. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki séð sérstaka ástæðu til að taka þátt í hátíðarhöldunum með meira afgerandi hætti en áður heldur frekar viljað halda sitt eigið einkaafmæli þá ætla ég að gera það. Og þrátt fyrir að nokkrir afvegaleiddir Íslendingar hafi á síðustu vikum lýst yfir einhvers konar hugleiðingum um ágæti þess að snúa sér aftur til Danakonungs þá mun ég veifa flaggi á Skólavörðustígnum á 17. júní og fagna því að búa í frjálsu og sjálfstæðu lýðveldi!
Dagskrá þjóðhátíðarhalda Reykjavíkurborgar í ár má finna hér og virðist vera ágætis spegill af hinu fjölbreytta samfélagi sem orðið er úr okkur. Kynnið ykkur hana vel og svo sjáumst við öll í skrúðgöngu á fimmtudaginn!
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008