4. júní síðastliðinn var atburðanna á Torgi hins himneska friðar minnst um allan heim. Á þessum degi fyrir 15 árum hafði fjöldi fólks komið saman á torginu af frumkvæði stúdenta, til að krefjast umbóta í átt til lýðræðis og til að gagnrýna stjórn kommúnista í Kína. Í hungurverkföllum og mótmælagöngum var farið fram á grundvallarréttindi, eins og málfrelsi og trúfrelsi.
Kveikjan að mótmælunum var dauði Hu Yaobang fyrrverandi formanns kommúnistaflokksins og valdabarátta á milli harðlínumanna og umbótasinna. Hundruðir þúsunda Kínverja héldu til höfuðborgarinnar til að krefjast lýðræðislegri stjórnarhátta og sumir til að fara fram á að kommúnistaflokkurinn léti af völdum. Eftir löng mótmæli óttuðust stjórnvöld í Kína öngþveiti og harðlínumenn, undir forystu Deng Xiaopings, létu til skarar skríða og skipuðu öryggissveitum að stöðva mótmælin með valdi sem hafði þær afleiðingar að hundruðir mótmælenda féllu fyrir byssum og skriðdrekum í miklu blóðbaði.
Atburðirnir á Torgi hins himneska friðar vöktu hrylling um allan heim. Athygli heimsins beindist að kínverskum stjórnmálum og sýndi svo ekki var um villst hvers konar stjórnarfar var við lýði. Í kjölfarið sýndu stjórnmálamenn vestrænna ríkja mannréttindabrotum í Kína áhuga og krafan um umbætur varð háværari. Vonuðu margir að atburðirnir hefðu þau áhrif að kínversk stjórnvöld neyddust til að slaka á klónni til að liðka fyrir samskiptum við aðrar þjóðir.
Nú fimmtán árum eftir atburðina er spyr maður sig óneitanlega hvort þessi aukni þrýstingur alþjóðasamfélagsins hafi skilað einhverjum árangri.
Flestir eru sammála um að miklar efnahagsumbætur hafa átt sér stað Kína. Undanfarin ár hafa kínversk stjórnvöld tekið stór skref í átt að frjálsara markaðskerfi og hefur hagkerfið notið góðs af frjálsum viðskiptum og auknum umsvifum einkaðila. Sem dæmi má nefna að Kína er nú hópi stærstu útflytjenda heimsins og meiri fjármunir streyma nú um markað 1,3 milljarða manna en nokkru sinni fyrr, en þess má geta að kínverjum fjölgar um 3,9 milljónir á ári. Enn eru þó miklar hömlur á hagkerfinu í Kína, sem lýsa sér einna best í að skilyrðum um meirihlutaeign kínverska ríkisins í fyrirtækjum, en blikur virðast á lofti um að um þær verði losað á næstu árum og má því búast auknum umsvifum kínverska hagkerfisins.
Þó að merki sjáist um umbætur í efnahagslífi í Kína eru ekki nein augljós merki um að mannréttindabrot séu fátíðari en fyrir fimmtán árum. Fréttir um handtöku fjölda manns, sem voru líklegir til að nýta tækifærið 4. júní síðastliðinn og mótmæla, bera þess glöggt merki. Samkvæmt frönsku fréttastofunni AFP í Peking bældu kínversk stjórnvöld niður alla umfjöllun af torginu síðasta föstudag og klipptu m.a. á viðtöl fréttastofunnar við meinta andófsmenn. Óeinkennisklæddir lögreglumenn tryggðu að enginn mætti á torgið til að minnast atburðanna.
Samkvæmt skýrslu Amnesty International virðast víða vera pottur brotinn þegar kemur að mannréttindum. Enn eru tugir þúsunda í fangelsum fyrir það eitt að tjá sig á opinberum vettvangi og á hverju ári eru þúsundir manna teknir af lífi fyrir sakir eins og skattasvik og misnotkun eiturlyfja.
Svo virðist sem kínversk stjórnvöld hafi enn hert takið á þeim sem berjast fyrir frelsi Tíbet. Til dæmis mega þeir sem dreifa efni um frelsun Tíbet, veifa fána landsins eða eiga myndir af Dalai Lama búast við að verða dæmdir í tólf ára fangelsi.
Pyntingar og barsmíðar virðast vera notaðar í miklum mæli hjá kínverska ríkinu. Högg, spörk, rafmagnsstuð og nauðganir eru meðal þeirra aðferða sem m.a. meðlimir Falun Gong fá að kynnast fyrir tilraunir til að tjá sig opinberlega og berjast fyrir trúfrelsi með friðsömum aðferðum. Hundruðir þúsunda eru neyddir til að taka þátt í kerfi sem kallað er „endurhæfing með vinnu“ og er í raun ekkert annað en frelsissvipting í allt að þrjú ár án dóms og laga.
Margir telja að með atburðunum 4. júní 1989 á Torgi hins himneska friðar hafi kommúnistastjórnin óviljandi tryggt hraðari þróun í átt til mannréttinda vegna hryllings alþjóðasamfélagsins á atburðun og aukins þrýstings um umbætur í kjölfarið. Ef ástandið í dag, fimmtán árum seinna, er skoðað sjást því miður fá merki um að svo sé. Því er mikilvægt að ríki hins frjálsa heims séu á tánum og slaki ekki á kröfu sinni um umbætur í Kína og tryggi þannig að ósanngjarn dauði kínverskra borgara í baráttu sinni fyrir grundvallarmannréttindum gleymist ekki. Þetta á ekki síst við okkur Íslendinga sem njótum þess sérstaka heiðurs að vera góðir gestgjafar í augum kínverskra ráðamanna – marga hverja sem bera beina ábyrgð á blóðbaði fyrir fimmtán árum.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021