Enn á ný blása forystumenn íslenskra kennara í herlúðra og að óbreyttu munu kennarar leggja niður störf 20. september næstkomandi til að þrýsta á um betri kjör. Eflaust eru ekki allir kennarar of sælir af sínum launum en fáar stéttir hafa þó fengið eins miklar kjarabætur á síðustu árum.
Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, lét hafa það eftir sér í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær, að það væri fráleitt að allir þyrftu að semja á sömu nótum í kjarasamningum. Reyndar lét Eiríkur að því liggja að þeir sem fyrst hefðu gengið frá samningum hefðu samið af sér.
Til allrar guðs hamingju hafa vísari menn en Eiríkur verið í forsvari fyrir almennri kjarabaráttu landsmanna á umliðnum árum. Hugarfar Eiríks endurspeglar íslenskan raunveruleika fyrir 20-30 árum þegar víxlhækkanir launa og verðlags lögðu fjárhag heimila í rúst og engar kjarabætur urðu árum og áratugum saman.
Staðreyndin er sú að hóflegar launahækkanir síðustu ára hafa fært íslenskum launamönnum mestu kaupmáttaraukningu í sögunni. Kennarar eru þar síður en svo eftirbátar annarra, enda hafa þeir eins og aðrir notið góðs af því trausta efnahagsumhverfi sem við höfum búið við síðustu árin. Eirík Jónsson skortir annað hvort vilja eða getu til skilja þetta – nema hvort tveggja sé.
Viðvarandi ábyrgðarleysi forystumanna íslenskra kennara er mikið áhyggjuefni. En vonandi horfum við fram á bjartari tíma í þessum efnum eftir því sem valfrelsi í skólastarfi eykst. Aukinn einkarekstur samhliða valfrelsi í skólakerfinu mun bæta kjör góðra og eftirsóttra kennara til mikilla muna, eins og Þórður Heiðar Þórarinsson benti á pistli sínum 5. maí síðastliðinn. Þá verður vonandi einnig úr sögunni hið úrelda og skaðlega hlutverk kennaraforystunnar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021