Þeir sem berjast fyrir því að reykingar á kaffi- og veitingahúsum verði bannaðar hafa helst beitt heilsufari starfsmanna fyrir sig í baráttunni. Saklausir þjónar og afgreiðslufólk þarf að anda að sér fúlum tóbaksreyk klukkutímunum saman. Það sé að sjálfsögðu með öllu óásættanlegt, sérstaklega þar sem þau hafa ekkert val um hvort gestir kaffi- eða veitingahússins reyki.
Sama fólk hefur hins vegar ekki (ennþá) krafist þess að reykingar verði bannaðar í heimahúsum. Ef maður gefur sér að óbeinar reykingar séu hættulegar (sem er umdeilt) og er á því að banna eigi reykingar á vinnustöðum af þeim sökum, þá getur maður ekki annað en verið á þeirri skoðun að banna eigi reykingar í heimahúsum með sömu rökum. Erum við búin að gleyma blessuðum börnunum í öllu þessu? Börnin sæta sama „ofbeldis“ af hálfu tóbaksstrompanna og starfsmenn kaffihúsa, og þau eiga sér enga málsvara.
Ég trúi tóbaksfasistunum alveg til að vilja banna mér að reykja heima við, en ég held að sem betur fer sé meirihluti íslensku þjóðarinnar ósammála þeim í því efni. Íslendingar bera ennþá nógu mikla virðingu fyrir friðhelgi heimilisins til að vilja ekki sætta sig við afskiptasöm hönd ríkisins (hvort sem um er að ræða þá hægri eða vinstri) seilist mikið inn fyrir aðaldyrnar.
Ég veit að mörgum þykir ekkert tiltökumál þótt þeir séu í hrópandi mótsögn við sjálfa sig, en hægrimönnum er venjulega verr við það en þeim sem eiga heima á vinstri væng stjórnmálanna. Ef við erum hins vegar á því að manni sé leyfilegt að reykja í fasteigninni sem hann sefur í, jafnvel þótt þangað komi aðrir einstaklingar sem þurfi að anda að sér reyknum, þá erum við væntanlega á þeirri skoðun að hann megi leyfa gestum sínum að reykja þar líka. Hvernig getum við þá verið á þeirri skoðun að hann megi ekki reykja, eða leyfa öðrum að reykja, í annarri fasteign í hans eigu þar sem hann rekur kaffihús? Þar er enginn sem ekki vill vera, og starfsmennirnir hafa það fram yfir börn strompsins að þeir fá borgað fyrir innöndunina og geta yfirgefið starfann þegar þeim sýnist!
Þá verður að minnast á að til að réttlætanlegt sé að takmarka frelsi annarra þarf efnismeiri og alvarlegri röksemdafærslu en „mér finnst þetta ógeðslegt“. Það er margt sem mér finnst vemmilegt, skvapholda fólk í of þröngum fatnaði t.d. en mér dettur ekki í hug að banna fólkinu að labba um í spandexi. Maður verður að kunna muninn á því að vera mótfallinn einhverju og að vilja að það sé bannað. Þessir tveir hlutir eru talsvert ólíkir og ekki á að setja samasemmerki á milli þeirra.
Svo má heldur ekki gleyma því að ef við látum undan kröfum reykleysingja hvað varðar kaffi- og veitingahúsin þá er þess skammt að bíða að þeir fari að skipta sér af því sem við gerum heima hjá okkur.
- Vaxtarverkir litla bróður - 1. október 2004
- ESB og Almættið - 22. ágúst 2004
- Ljúfviðrið og lopapeysan - 13. ágúst 2004