Í gærkvöldi tók til starfa nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar sem undirbúa á löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin umdeildu. Hvert einasta skref sem tekið hefur verið síðan forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar markar ákveðin tímamót. Við göngum ótroðna slóð og mikilvægt er að huga vel að hverju skrefi.
Það var hárrétt ákvörðun hjá stjórnvöldum að streitast ekki gegn umdeildu synjunarvaldi forsetans og hefja strax undirbúning atkvæðagreiðslunnar. Stjórnvöldum hefði hugsanlega verið stætt á því að virða synjunina að vettugi og láta reyna á hvort málskotsrétturinn væri til staðar. En þetta var hárrétti tíminn til að sýna skynsemi og yfirvegun og forða okkur frá algjöru uppnámi í kjölfar ákvörðunar forseta.
Málskotsréttur forseta hefur verið mjög umdeildur. Málsmetandi menn hefur greint á um hvort hann sé raunverulega til staðar og einnig eru mjög skiptar skoðanir um af hvaða tilefni þessu valdi verði beitt. Mjög sterk rök hafa verið færð fyrir því að ótækt sé með öllu að forseti geti upp á sitt einsdæmi ákveðið að breyta grundvallaratriðum í þeim hefðum sem gilt hafa um íslenska stjórnskipun. Því er eðlilegt að næstu þrjú ár verði notuð til endurskoða stjórnarskránna með tilliti til breytinga á ákvæðum um forseta Íslands. Vilji menn hafa hér virkt og pólitískt hlutverk forseta þá verður stjórnarskrárgjafinn að kveða skýrt á um það, ellegar festa þingræðishefðina tryggilegar í sessi. Nægur tími er til stefnu til að finna farsæla lausn í því efni.
Það er skoðun Deiglunnar að byggja eigi áfram á þingræðishefðinni. Hins vegar má færa fyrir því gild rök að einhvers konar öryggisventill eigi að vera til staðar í stjórnskipuninni. Ein leið til að sameina þetta tvennt, án þess að gjörbreyta hlutverki forseta og gera það stórpólitískt, er að færa málskotsréttinn frá forsetanum til þjóðarinnar. Taka mætti upp ákvæði í stjórnarskrá um að tiltekið hlutfall atkvæðisbærra manna – fimmtungur, fjórðungur eða jafnvel þriðjungur – gæti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Þar með yrði embætti forseta á ný ópólitískt sameiningartákn án þess að sá öryggisventill sem í málskotsréttinum felst yrði afnuminn. Það er mun eðlilegra að málskotsrétturinn liggi hjá þjóðinni heldur en þeirri persónu sem hverju sinni gegnir embætti forseta.
En næsta mál á dagskrá er þjóðaratkvæðagreiðslan. Deiglan sér ástæðu til að vara við framkomnum hugmyndum um að binda atkvæðagreiðsluna óeðlilega ströngum skilyrðum. Sérstaklega er varhugavert að binda í lög skilyrði um lágmarksþátttöku. Fyrst á annað borð stendur til að halda atkvæðagreiðsluna er eðlilegt að hún fari fram með svipuðum hætti og almennar kosningar. Þótt skilyrði um 75% lágmarksþátttöku kunni að virðast eðlilegt og sanngjarnt, þá getur það orðið andlýðræðislegt í raun. Upp gæti komið sú staða að minnihluti í málinu komi sínu til leiðar með því einfaldlega að sitja heima. Ef 26% væru til að mynda fylgjandi lögunum en 74% á móti, þá myndu 26% hafa sigur með því að sitja heima.
Af tvennu illu er eðlilegra að miða við að tiltekið hlutfall þeirra sem eru á kjörskrá þurfi að hafna lögunum til að fella þau úr gildi. Þar með yrði loku fyrir það skotið að afgerandi minnihluti réði niðurstöðunni. Ef stór hluti þjóðarinnar væri nægilega mikið á móti lögunum til að mæta á kjörstað og greiða atkvæði með ógildingu þeirra, þá þyrftu fylgjendur þess málstaðar ekki að hafa áhyggjur af þátttöku eða þátttökuleysi þeirra sem styddu lögin.
Deiglan hefur þegar fært rök fyrir því að ákvörðun forseta Íslands hafi verið óskynsamleg. Viðbrögð stjórnvalda við þeirri misgjörð forsetans hafa þó verið skynsamleg hingað til og vonandi verður svo jafnframt um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008