Fyrir skömmu var alþjóðsamfélagið saman komið til að minnast þess að 10 ár voru liðin frá þjóðarmorðunum í Rúanda. Alþjóðastofnanir og þjóðarleiðtogar lýstu því yfir að of seint hafi verið brugðist við í Rúanda og að slíkt mætti ekki gerast aftur.
Um svipað leyti er því fagnað að friðarsamningar eru að nást í borgarastyrjöldinni sem geisað hefur í Súdan síðast liðið 21 ár og kostað hefur yfir 2 milljónir manna lífið.
Á sama tíma hefur rúmlega milljón manns verið hrakin frá heimilum sínum og á flótta og allt að þrjátíu þúsund hafa drepist í Darfur-héraði í vesturhluta Súdan.
Með hjálp alþjóðasamfélagsins og þrýstingi frá Bandaríkjunum hefur tekist að koma á friði í þeim hluta Súdan þar sem styrjöld hefur geisað með hléum í tæp 50 ár. Þar hafa barist stjórnarherrarnir í Norður-Súdan sem eru arabar gegn hinum kristna og heiðna suðurhluta. Friðarsamningarnir virðast ótraustir, engar líkur eru á því að lýðræði komist á, en bardögum hefur í það minnsta verið hætt.
Á síðasta ári hófst uppreisn í Darfur héraði, þar sem svartir íbúar mótmæltu yfirgangi og slæmri meðferð af hálfu stjórnarherranna. Báðir aðilar eru íslamstrúar og byggjast átökin því ekki á trú heldur litarhætti eða uppruna. Til að berja niður uppreisnina sendi stjórnin vopnaða menn til Darfur með leyfi til að myrða, nauðga og ógna svörtum íbúum svæðisins. Stjórnin opnaði fangelsin, afhenti mönnum skotfæri, hesta og peninga og sendi þá af stað. Á svæði sem er jafnstórt og Frakkland hafa íbúar verið hraktir á flótta, þorp brennd, menn myrtir, konum nauðgað, matarforði og vatnsból eyðilögð. Við verk sitt hafa árásarmennirnir notið aðstoðar stjórnarinnar sem gerir loftárásir áður en ráðist er til inngöngu í þorpin.
Lýsingar blaðamanna sem hafa farið um svæðið og talað við flóttafólk eru svo hræðilegar að þær verða varla hafðar eftir. Villimennirnir brennimerkja konurnar sem þeir hafa nauðgað og láta foreldra ráða hvernig börnin þeirra verða drepin. Í búðunum þar sem fólkið hefur safnast saman er það svelt á kerfisbundinn hátt, þar er engin salernisaðstaða og verðirnir nauðga stúlkunum. Þetta hefur alþjóðasamfélagið vitað í marga mánuði.
Háttsettir ráðamenn og fulltrúar Sameinuðu þjóðanna hittust í Genf síðastliðinn fimmtudag til að ræða ástandið og safna fé til að bregðast við. Rigningatímabil er að skella á í Súdan og telja menn að milli 300 og 400 þúsund manns munu deyja á næstu mánuðum jafnvel þótt neyðaraðstoð verði afhent strax. Ef ekki tekst að koma til hjálpar strax mun allt að ein milljón manna deyja. Kastljósið beinist annað og mannafli og fé er bundið í Írak og Afganistan. Þó segja sumir að það þurfi ekki annað en alþjóðlegan þrýsting, yfirlýsingar frá háttsettum ráðamönnum og nokkur símtöl til að fá ríkisstjórn Súdan til að hleypa inn neyðaraðstoð og draga úr voðaverkunum.
Er sagan frá Rúanda að endurtaka sig og munu þjóðir heims þurfa að lýsa því yfir eftir 10 ár að þeim þyki leitt að hafa ekki brugðist nóg og snemma við?
Heimildir: BBC, New York Times og Economist.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020