Ég skrapp niður á Austurvöll í gær til að fá mér ís í góða veðrinu. Ég og Davíð bara. Við virtumst hafa álíka miklar áhyggjur af því að Ólafur Ragnar hefði tekið umdeilda ákvörðun deginum áður. Eitthvað með það að skrifa ekki undir einhver lög. Skil ekki hvernig menn nenna að hafa áhyggjur af því í blíðunni. Sumardagana á að nota til einhvers annars en að stressa sig á fargviðri stjórnmálamanna. Svo við sátum bara ég og forsætisráðherra og sleiktum ís, hvor í sínu lagi.
Annars er ótrúlegt hvað gott veður getur verið afbrota hvetjandi. Sem betur fer var Lögreglan í Reykjavík með puttann á púlsinum. Hún stöðvaði villingana 3 sem supu á bjór í blíðunni undir styttunni af Jóni Sigurðssyni. Af honum Jóni forseta!!! Mér leið örlítið betur eftir að ólátabelgirnir voru fjarlægðir, reyndar svo vel að ég heilsaði fánanum sem blakti í blíðunni á þaki Alþingishússins. Davíð virtist ekkert taka eftir hamaganginum, hann horfði bara ásökunaraugum á Jón, svona eins og hann vildi segja; ,,Þetta er þér að kenna, þú byrjaðir á þessu lýðræði kallinn minn”.
Og svo vildi Óli bara ekki svara neinum spurningum. Reyndar var hann frekar taugaóstyrkur kallinn, bauð ekki einu sinni til sætis. Hann sagði að djúp gjá hefði myndast á milli þings og þjóðar. Næ því reyndar ekki alveg. Ef 38.000 manns, eða um 20% atkvæðabærra manna í landinu, eru á móti ákveðnu lagafrumvarpi, þýðir það þá að 80% séu fylgjandi því? Spyr sá sem ekki veit. Annars ætlaði ég ekkert að skrifa um þetta mál. Svona út frá skemmtanasjónarmiði finnst mér þó frábært að þetta hafi gerst. Að minnsta kosti verður nógu mikið fjör á næstunni.
Merkilegt hvað Reykjavík breytir um svip í góðu veðri. Eins og þetta getur verið ljót borg í grámyglunni stærstan hluta ársins. Hvert sem litið er má sjá ungar stúlkur í stuttum pilsum, og unga menn með lafandi tungu. Allir eru í góðu skapi, nema auðvitað stjórnarþingmenn. Hjá þeim er suð-suðvestan 15 m/sek og súld.
Á svona dögum ættu vinnustaðir að sjá sóma sinn í því að gefa starfsfólkinu frí. Það held ég að hagvöxturinn ykist til muna ef fólk fengi að njóta sólargeislanna í þessa örfáu daga á hverju ári.
Um helgina ætti fólk að fjölmenna á Austurvöll til að mótmæla. Ekki ákvörðun forsetans eða valdhroka Davíðs, heldur þeirri staðreynd að á þessum tíma ættum við að vera komin í kærkomið sumarfrí frá uppáþrengjandi og sjálfumglöðum stjórnmálamönnum. Í stað þess að heyra hefðbundnar sumarfréttir munu fjölmiðlar landsins eyða næstu vikum í umfjöllun um sjálfa sig. Það er fátt leiðinlegra en þegar stjórnmálamenn kvarta yfir umfjöllun fjölmiðla um ummæli stjórnmálamanna um fjölmiðla. Er þetta ekki orðinn heldur mikil hringavitleysa?
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005