Þjóðin á síðasta orðið, sagði Ólafur Ragnar Grímsson þegar hann tilkynnti fyrir tveimur dögum að hann myndi ekki skrifa undir nýsamþykkt fjölmiðlalög. Það kann að vera að á endanum verði það svo, en ljóst er að margt verður sagt í millitíðinni, og ekki allt af yfirvegun.
„Fullkomin óvissa“ segir ríkisstjórnin, „augljóst mál“ segir stjórnarandstaðan. Skeytin ganga á víxl, lögfræðingar halda morgunfundi um það hvort forsetinn hafi yfir höfuð synjunarvald, eða hvort hann hafi framið stjórnarskrárbrot í fyrradag, svona rétt með síðdegiskaffinu. Fræðilegar umræður sem lögfræðingar áttu áður í rólegheitunum yfir viskíglasi eru allt í einu orðnar grafalvarlegur praxís. Úr útvarpinu heyrist að ekki sé einu sinni hægt að kalla saman Alþingi því þinghúsið sé varla fokhelt. Hriktir í stoðum lýðræðisins, er allt að verða vitlaust?
Þegar horft er yfir þann skamma tíma sem liðinn er síðan forsetinn hélt þennan sögulega blaðamannafund, hlýtur svarið að vera neitandi. Jú, formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru ósáttir hvor við annan, en það er ekki nýtt. Stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar eru ekki sammála í dag frekar en fyrri daginn. Ekkert nýtt þar heldur.
En það sem hefur ekki gerst, er það sem hótað var í aðdraganda málsins. Því var haldið fram að algert uppnám gæti orðið í kjölfar þess að ríkisstjórnin neitaði að halda þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem kveðið er á um í stjórnarskránni, en enginn gæti dregið neinn til ábyrgðar því þingmeirihlutinn myndi ekkert aðhafast.
Með viðtali við forsætisráðherra í Kastljósinu í gærkvöld var endi bundinn á slíkar vangaveltur. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin. Davíð er ekki sáttur við það og vísar í lögfræðileg rök. Hvað Davíð finnst sem lögfræðingi er samt ekki kjarni málsins. Það gagnstæða hefur verið kennt í lögfræðinni margra ára skeið, sem skiptir vissulega máli. En það er heldur ekki kjarni málsins.
Kjarni málsins er sá að þjóðin hefur staðið í þeim skilningi frá stofnun lýðveldisins að þessi réttur sé raunverulegur. Gegn þeirri sannfæringu dirfist enginn stjórnmálamaður að ganga þegar til kastanna kemur.
Málskotsréttinum hefur verið líkt við öryggisventil. Í pistli hér á Deiglunni velti Pawel Bartoszek fyrir sér réttmætum áhyggjum af því að þessi öryggisventill virkaði ekki. Hvort sem nú var rétti tíminn til að beita honum eða ekki er ljóst að hann virkaði þegar á reyndi og málið er komið í sinn rétta farveg. Það er ákveðinn léttir fyrir þá sem sáu forsætisráðherra gefa í skyn fyrir skömmu að hann kynni að virða synjun forseta að vettugi.
Íslenska þjóðin mun standa af sér þetta slagviðri eins og önnur. Þegar öldurnar lægir munum við hafa stigið eitt skref til viðbótar í skammri sögu lýðveldisins. Hvort við göngum áfram eða aftur á bak verður sagan að leiða í ljós, en hvernig sem fer er ljóst að við munum standa í fæturna þegar veðrinu slotar.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020