Söguleg ákvörðun

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson lýsti því yfir að hann hyggðist leggja nýsamþykkt lög um fjölmiðla í dóm þjóðarinnar, skv. 26. gr. stjórnarskrá, var ljóst að í hönd fer eitt mesta umrótarsumar frá stofnun lýðveldisins. Áður bragðdauf kosningabarátta til forseta mun efalaust snúast um þessa embættisgjörð og mikill hamagangur er fyrirsjáanlegur í kringum væntanlega þjóðaatkvæðagreiðslu.

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson lýsti því yfir að hann hyggðist leggja nýsamþykkt lög um fjölmiðla í dóm þjóðarinnar, skv. 26. gr. stjórnarskrá, var ljóst að í hönd fer eitt mesta umrótarsumar frá stofnun lýðveldisins. Áður bragðdauf kosningabarátta til forseta mun efalaust snúast um þessa embættisgjörð og mikill hamagangur er fyrirsjáanlegur í kringum væntanlega þjóðaatkvæðagreiðslu.

Ráðamenn og stjórnmálaskýrendur virðast almennt sammála um að mikið óvissutímabil sé framundan. Aldrei hefur reynt á þennan rétt forseta frá stofnun lýðveldisins. Engin lög, fordæmi eða reglur liggja fyrir um framkvæmd á slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er því óvíst hvort það þurfi að samþykkja ný lög um þjóðaratkvæðagreiðslu eða beita núgildandi lögum um Alþingiskosningar eða forsetakosningar. Einnig er á huldu hvenær af atkvæðagreiðslunni sjálfri verður því tímaramminn er afar matskenndur.

Til að bæta gráu ofan á svart þá er það umdeilt á meðal fræðimanna hvort það sé yfir höfuð á færi forseta að neita að staðfesta lög. Hefur því verið haldið fram að forseti þurfi atbeina ráðherra til að synja lögum staðfestingu með vísan til 13. gr. stjórnarskrár sem kveður á um að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Þess ber þó að geta að efasemdarmenn, úr hópi virtra lögmanna, hafa þó sagt að fjölmiðlamálið sé betur til þess fallið en mörg önnur að láta reyna á hvort málskotsréttur forsetans sé til staðar.

Þrátt fyrir efasemdir þessara virtu heiðursmanna verður samt sem áður að viðurkennast að málsskotsréttur forseta er líklega fyrir hendi. Vegur þar þyngst að samþykkt lagafrumvarpa heyrir undir löggjafarvaldið og það getur forseti aldrei falið framkvæmdarvaldinu. En þrátt fyrir að málskotsrétturinn sé fyrir hendi þá þýðir það ekki að rétt sé að beita honum á hvaða mál sem er. Og álitaefnið um notkun á málskotsréttinum verða menn jafnframt að nálgast án þess að láta sitt eigið álit á fjölmiðlalögunum byrgja sér sýn.

Á síðustu dögum þá hefur Deiglan barist gegn setningu umræddra laga á fjölmiðla. Hefur vefritið ekki farið dult með þá skoðun sína að lagasetningin sé í ósamræmi við þá frelsisþróun sem einkennt hefur íslenskt samfélag á síðustu árum undir stjórn Sjálfstæðisflokksins og afturför til þess tíma þegar þegar stjórnmálamenn höfðu bein afskipti af íslensku atvinnulífi. Hefur því verið haldið fram af Deiglunni að frelsi á fjölmiðlamarkaði sé besta leiðin til að stuðla að því að fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði fái að blómstra.

Þrátt fyrir þessa andstöðu við lögin þá verður engu að síður að velta upp þeirri spurningu hvort ákvörðun Ólafs Ragnars í gær hafi verið heppileg. Eru fjölmiðlalögin þess eðlis að rétt sé að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu? Í sextíu ár hefur þessu valdi ekki verið beitt. Fyrir liggur að fjölmörg umdeild mál hafa ekki fengið þessa meðferð sbr. Natóaðild, varnarsamninginn, EFTA, EES-samninginn, gagnagrunn á heilbrigðissviði, Öryrkjamálið og Kárahnjúka. Það má færa góð rök fyrir því að sum þessara mála hafi skipt meira máli en lögin um fjölmiðla. Þó svo að Ólafur Ragnar hafi ekki verið forseti í öllum þessum málum þá gefa forverar hans vissulega tóninn um embættið. Það verður því að teljast afar umdeilanlegt að nota réttinn í þessu tilviki.

Það skyggir einnig á þessa ákvörðun að uppi eru þrálátar opinberar ásakanir um að Ólafur Ragnar hafi verið í miklum persónulegum og fjárhagslegum tengslum við Norðurljós. Með tilliti til mikilvægi málsins þá verður það að teljast eðlileg krafa að Ólafur Ragnar geri hreint fyrir sínum dyrum varðandi þessi tengsl til að almenningur og komandi kynslóðir geti verið vissar um að þessi sögulega ákvörðun hafi ekki verið tekin á annarlegum forsendum.

Engu að síður verður ekki fram hjá því litið að Ólafur Ragnar notaði málsskotsréttinn í gær og við munum nú komast að raunverulegri þýðingu hans, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Úr því sem komið er þá væri það væntanlega fyrir bestu ef Alþingi setti nú sanngjörn og málefnaleg lög um þjóðaratkvæðagreiðslur til að tryggja að kosningin verði hafin yfir allan vafa.

Það sem skiptir máli í framhaldinu er að við sýnum stillingu. Við megum ekki gleyma því að væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla á eingöngu að snúast um lögin en hvorki um ákvörðun Ólafs né stuðning við ríkisstjórnina. Það er því fráleitt að halda því fram að ríkisstjórnin þurfi að segja af sér verði þau felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þótt áhugamenn um stjórnskipun kunni að gleðjast yfir því að niðurstaða fáist í þrætunni um málskotsrétt forseta og að stoppað verði í eitt mesta óvissugat í íslenskri stjórnskipun, þá er það skoðun Deiglunnar að það hafi verið óskynsamlegt af hálfu forsetans að láta reyna á málskotsréttinn í þessu máli. Eins ósáttir og menn kunna að hafa verið við framgang stjórnvalda í málinu hingað til, þá hefur nú kastað tólfunum með ákvörðun forsetans sem ber því miður meiri keim af popúlisma en virðingu fyrir lýðræðinu.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)