Það styttist óðum í kosningar til Evrópuþingsins, en 10. júní næstkomandi ganga íbúar Evrópusambandsins að kjörborðinu og velja fulltrúa sína á þingið. Eftir kosningarnar fjölgar þingmönnunum á Evrópuþinginu úr 626 í 732, þar sem tíu ný aðildarríki gengu í sambandið í síðasta mánuði. Baráttan milli flokkanna, sem í framboði eru, snýst svo að mestu um það hvort menn séu fylgjandi samþykkt stjórnarskrárinnar eða ekki.
Fyrstu almennu kosningarnar til Evrópuþingsins fóru fram fyrir 25 árum og síðan þá hefur verið kosið á fimm ára fresti. Kjörsókn hefur verið misjöfn eins og gengur, afar dræm í Bretlandi á meðan íbúar í Belgíu og Lúxemborg hafa verið duglegir að mæta á kjörstað. Ef marka má heimildir UK Office of the European Parliament hefur kjörsóknin dregist saman með hverjum kosningunum. Árið 1979 kusu 63% kosningabærra manna, en í kosningunum fyrir fimm árum var hlutfallið komið niður í 49,4%.
Hvort breyting verði á í kosningunum eftir tvær vikur treysti ég mér ekki til að spá fyrir um. Hins vegar virðist áhugi almennings í mörgum löndum Evrópusambandsins á kosningunum vera takmarkaður. Nýleg könnun í Danmörku leiddi það meðal annars í ljós að aðeins 50% Dana vissu yfirhöfuð að þessar kosningar væru núna í sumar, en Evrópuþingið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stóðu fyrir könnuninni. Ekki virðast Danir heldur þekkja þá, sem í framboði eru, því á vefsíðu Politiken kemur fram að 69% landsmanna gátu ekki nefnt neinn frambjóðanda. 16% vissu að Poul Nyrup Rasmussen væri í framboði, en aðeins 3% gátu nefnt þá frambjóðendur sem næstir komu. Í dönskum fjölmiðlum hefur sú skýring á áhugaleysi landsmanna helst verið nefnd, að almenningur telji það ekki taka því að kjósa. Danmörk hafi hvort sem er ekkert um málin að segja og það séu skriffinnarnir í Brussel sem mestu ráði. Þá hafa danskir þingmenn Evrópuþingsins bent á þá skýringu að fjölmiðlar sýni störfum Evrópuþingsins lítinn áhuga og umfjöllunin sé fremur á neikvæðu nótunum.
Politiken greinir jafnframt frá því að sambærilegar kannanir, er framkvæmdar voru í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins, hafi leitt svipað í ljós víðar en í Danmörku. Margir hafa bundið vonir við aukna þátttöku í kosningunum í kjölfar stækkunar sambandsins, en samkvæmt fyrrnefndum niðurstöðum ætla aðeins 20% Tékka, 26% íbúa í Eistlandi og 27% íbúa í Slóvakíu að kjósa sína fulltrúa. Svo virðist sem aðeins 45% af 340 milljónum Evrópubúa, sem á kjörskrá eru, hafi hug á að nýta þann rétt sinn. Ef þessar niðurstöður reynast réttar verða kosningarnar nú þær verstu í sögu Evrópuþingsins.
- Árleg mannekla - 18. september 2007
- Lítilla breytinga að vænta - 5. maí 2007
- Jarðgangagerð, opinber störf og niðurgreiðslur - 17. mars 2007