Eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum þann 11. september síðastliðinn voru sett lög sem fela í sér auknar heimildir lögreglu til rannsóknaraðgerða. Lögin innihalda m.a. reglur um persónuupplýsingar, eftirlit með fjarskiptum og útlendingaeftirlit. Þau veita alríkislögreglunni tiltölulega auðveldan aðgang að ýmsum upplýsingum um einstaklinga, þar á meðal að sjúkraskýrslum og gögnum um fjárhagsstöðu. Með lögunum getur lögreglan fylgst með því hvaða netsíður tiltekinn notandi skoðar á ákveðnu tímabili og einnig hefur hún rúmar heimildir til símahlerana. Lögreglunni er samkvæmt lögunum heimilt að halda útlendingi í gæslu í allt að viku án ákæru ef hún telur ástæðu til að ætla að hann ógni þjóðaröryggi. Aðeins þarf að tilkynna dómstóli að slík rannsókn eigi sér stað og að upplýsingarnar sem aflað verður geti skipt máli.
Síðan reglurnar voru settar hafa þær verið í stöðugri endurskoðun. Fyrir nokkrum dögum var alríkislögreglunni heimilað að fylgjast með vefsíðum á Netinu til að leita að vísbendingum um samsæri. Einnig var lögreglunni veittur aukinn aðgangur að ýmsum atburðum, þar á meðal samkomum pólitískra og trúarlegra samtaka. Þessar aðgerðir þurfa ekki að tengjast beint sérstakri sakamálarannsókn og þingið þarf ekki að samþykkja þær.
Vissulega er afar brýnt að bregðast við hryðjuverkum og leita allra leiða til þess að tryggja öryggi borgaranna. Hins vegar verður að gera kröfu til þess að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er. Ofangreindar reglur veita lögreglunni heimildir til athafna án þess að fyrir liggi rökstuddur grunur eða gögn um glæpsamlegt athæfi. Í mörgum tilvikum þarf lögreglan ekki að bera ákvarðanir sínar undir dómstóla eða þingið. Lögreglunni er einfaldlega falið að meta það sjálfri hvenær hún telur rétt að grípa til aðgerða.
Þær heimildir sem lögreglunni í Bandaríkjunum hafa verið veittar undanfarna mánuði skerða mjög friðhelgi einkalífsins. Þær eru ekki skýrt afmarkaðar og ekki bundnar við ákveðinn tíma. Um er að ræða afar varhugaverða þróun sem erfitt gæti reynst að snúa við.
- Burtu með fordóma - 1. júní 2014
- Rétturinn til þess að ljúga - 23. febrúar 2012
- Markmið sérstaks saksóknara - 31. janúar 2012