Tjáskipti fólks hafa á undanförnum árum verið að færast í síauknum mæli úr samskiptum augnliti til augnlitis eða um síma, yfir á ritað mál. Er þá aðallega átt við netpóst (e-mail) en þó á þetta ekki síður við um smáskilaboð (sms) og hraðsmáskilaboð (msn). Það er því ekki úr vegi að staldra aðeins við og huga að einhverjum velsæmisreglum eða góðum siðum í netpósts- og textasendingum manna á milli.
Það er reyndar afskaplega misjafnt að hversu miklu leyti fólk hefur fundið tjáskiptum sínum textaðan farveg. Sumir nýta sér þennan vettvang aðeins lítillega meðan aðrir gera það af slíkri atorku að þeir eyða jafnvel helmingi meiri tíma í að skrifa pósta og smáskilaboð heldur en að tekur einfaldlega að hringja.
Mörgum leiðist hinsvegar að tala í síma og telja að þau tjáskipti hafi oftar en ekki tilhneigingu til að teygjast út í hið óendanlega. Aðrir kjósa einfaldlega textann til að takmarka nándina í samskiptum. Tilkoma smáskilaboða hefur sjálfsagt verið þessu fólki mikil blessun á sínum tíma. Svo ekki sé nú minnst á hraðsmáskilaboðin (msn) sem bjóða uppá samskiptavettvang sem kemst hvað næst samtali. Þá má sjálfsagt líka líta til þess að e.t.v spili kostnaður við símhringingar eitthvað inní. Þróunin hefur a.m.k verið í þá átt að fólk hreinlega talar minna saman og hittist minna en áður.
Hinsvegar er það svo að ekki hægt að meta þessi textuðu tjáskipti að jöfnu við þau hefðbundnu. Það segir sig sjálft að sömu orð eða setningar er hægt að túlka á marga ólíka vegu allt eftir raddblæ, áherslum, svipbrigðum og jafnvel líkamstjáningu en ekkert af þessu verður lesið af nöktum texta. Hættan á misskilningi er því alltaf til staðar, og sjálfsagt hafa flestir lent í þeim kringumstæðum.
Annað sem margir lenda í er að senda frá sér netpóst eða skilaboð sem síðan fylgir eftirsjá yfir að hafa sent. Auðvitað er það nokkuð sem hendir í venjulegum samtölum, en einhvern veginn virðist vægi sagðra orða dvína þegar þeim sleppir, meðan t.d að textaður pirringur situr smekkfastur, svartur á hvítu í minni síma eða tölvu móttakanda um ókomna tíð.
Líklegast er einfaldasta og besta reglan í þessum efnum að temja sér að senda ekkert frá sér sem maður treystir sér ekki til að segja beint framan í móttakanda. Þannig eru t.d reiðir og pirraðir póstar eða skilaboð, e.t.v ekki það gáfulegasta í ástandinu hverju sinni. Að gera sér grein fyrir því að það að pósta frá sér hugsun í uppnámi (sem er líklega ekki sú skýrasta) er óafturkræft.
Þetta á ekki bara við persónuleg skilaboð, heldur er reglan líka nokkuð sem bloggerar, og aðrir sem tjá sig á vefsíðum um menn og málefni ættu að temja sér. Reyndin virðist nefnilega vera sú að það eru alls ekki bara börn sem notfæra sér textaboð og meldingar á netsíðum hvort sem það er undir nafnleynd eður ei, heldur einmitt fullorðið fólk og jafnvel nafntogað. Það að virða þennan samskiptavettvang bæði m.t.t til sjálfs síns og annarra er að sjálfsögðu nokkuð sem fólk ætti að gera til jafns á við það sem það gerir í öðrum samskiptum.
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007