Miklar sögur ganga nú um meint símtal sem átt hafi sér stað á milli Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis. Í frétt DV fyrir helgi var því slegið upp á Davíð hefði í umræddu símtali hótað Tryggva og að umboðsmaður íhugi að rita bréf til Alþingis til þess að greina frá þessu samtali.
Enn sem komið er hafa engin efnisatriði samtalsins verið gerð opinber. Hins vegar ganga miklar tröllasögur um þetta símtal og er ýmislegt hvíslað um efnisatriði samtalsins. Eins og venjulega þegar slíkir kvittir komast á kreik eru sumar sögurnar svo ofboðslegar að varasamt er að leggja hin minnsta trúnað á þær. Slíkar sögur eru skaðlegar bæði fyrir forsætisráðherra og ekki síður fyrir embætti umboðsmanns Alþingis.
Stofnun embættis umboðsmanns Alþingis er af flestum talin vera mikil réttarbót á Íslandi. Með stofnun embættisins var fylgt í fótspor annarra Norðurlandaþjóða og komið til móts við það meginsjónarmið í réttarfari að einstaklingar geti skotið málum sínum, er varða stjórnsýsluna, til aðila sem er óháður framkvæmdavaldinu. Til þess að tryggja þetta sjálfstæði embættis umboðsmanns Alþingis heyrir embættið beint undir Alþingi, enda er meginhlutverk embættisins að stuðla að því að valdi framkvæmdavaldsins sé ekki beitt á ómálefnalegan hátt eða í trássi við lög, reglur og hefðir sem gilda um opinbera stjórnsýslu.
Fyrir áhugamenn um réttarheimspeki er staða umboðsmanns Alþingis mikilvæg í því skyni að skerpa örlítið á hinum mjög svo loðnu línum sem á Íslandi liggja á milli handhafa löggjafa-, framkvæmda- og dómsvalds. Það að umboðsmaður sé algjörlega óháður framkvæmdavaldinu er því algjör lykilforsenda þess að þetta mikilvæga embætti geti sinnt erindum sínum af sjálfstæði og trúverðugleika. Bíði embætti umboðsmanns hnekki hefur það alvarleg áhrif á þá stjórnsýsluhefð sem ríkisstjórnir síðustu ára hafa lagt áherslu á að innleiða.
Enginn maður er stærri en embættið sem hann gegnir. Efasemdir um óhæði embættis umboðsmanns Alþingis gagnvart stjórnvöldum hefðu varanlegar afleiðingar fyrir virðingu embættisins. Ásakanirnar um að forsætisráðherra hafi haft í hótunum við umboðsmann Alþingis eru alvarlegar í ljósi þessa.
Það er því eðlilegt að gera þá kröfu til umboðsmanns Alþingis að hann upplýsi um það hvort fréttir um óeðlileg samskipti milli hans og forsætisráðherra eigi við rök að styðjast. Ásakanir um óeðlilega íhlutun framkvæmdavaldsins í starf umboðsmanns Alþingis mega ekki standa óstaðfestar eða óleiðréttar. Hagsmunir samfélagsins af því að geta treyst á öflugt embætti umboðsmanns Alþingis eru ótvíræðir. Hið sanna verður að koma fram.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021