Hin nútímalega stjórnarandstaða á Alþingi er alveg brjáluð. Meirihlutinn er, í krafti þingskapa, að beita ofbeldi til að koma fjölmiðlafrumvarpinu í gegn. Þvert á lýðræðislegar venjur og hefðir. Öðrum málum er ýtt til hliðar, nefndarmeirihlutar hundsaðir og vanfræddir sérvitringar vanvirða sérfræðinga. Þetta mislíkar vitanlega hinni nútímalegu stjórnarandstöðu.
Já, og hin nútímalega stjórnarandstaða á Alþingi fokkar auðvitað upp tækifærinu til að vera svolítið þroskuð og öðlast virðingu manna eins og mér, sem er annt um frelsið, en kannski ekki eins annt um hina nútímalegu stjórnarandstöðu.
Já, útverðir frelsisins beita bulli og töfum í baráttunni gegn óréttlætinu. Enda kannski lítið annað að gera með fjörkálfa á borð við Mörð Árnason innaborðs. Og Björgvin G. ætlar að koma Frelsinu eftir John Stuart Mill á stafrænt form á althingi.is með upplestri. You go, Bjöggi! Hvet fleiri þingmenn til að gera lykilbókmenntir mannkynssögunnar aðgengilegar almenningi með þessum hætti.
En í alvörunni talað, kommon!
Hámarkslengd lags í Eurovision-keppni er 3 mínútur. Slíkt er auðvitað takmörkun á tjáningarfrelsi keppenda og lagahöfunda. Eflaust væri öllum mönnum hollt að heyra nokkurra klukkustunda tóndæmi með austurslavneskri þjóðlagatónlist til að menn áttuðu sig betur á sögulegu samhengi úkraínska lagsins. En þeir sem það vilja geta gert það sjálfir í sínum eigin frítíma án þess að öll Evrópa þurfi að líða fyrir.
En þeir eru fleiri Björgvinarnir en Samfylkingarbjörgvin sem gefast ekki upp þótt á móti blási. Þegar Björgvin Halldórsson hafði sungið ellefu lög í íslenskum Eurovision-forkeppnum, án sýnilegs árangurs, sögðu menn loksins: „Jæja, Bó, nú er komið nóg.“ Og Bó var leyft að fara, án forkeppni. Í virðingarskyni fyrir ódrepandi þrautsegju.
Eurovision þrautsegja Björgvins Halldórssonar er ekki einsdæmi. Hún er raunar míkróskópísk útgáfa af Eurovision þrautsegju íslensku þjóðarinnar. Þrátt fyrir bitra reynslu og brostnar vonir seinustu ára erum við alltaf aftur mætt fyrir framan sjónvarpstækin. Enn of aftur standa íslensku keppendurnir sig best á blaðamannafundum, þykja hressasti hópurinn, lagið nær hátt í auðfalsanlegri netkönnun, og það er sjöunda seinasta lagið sem flutt er. Sem er prímtala og það boðar gott.
Keppnin í ár er sú stærsta hingað til. Nú kepptu 22 þjóðir í sérstöku undanúrslitakvöldi á miðvikudag. Það vakti athygli íslenska þularins að allar „Balkanskagaþjóðir“ hafi komist áfram. Kjósandi hvort annað, þetta balkanska lið! Það skipulagði borgarastyrjöld til að liðast í sundur og ná tökum á Eurovision í krafti ríkjafjöldans! Nú mun norræna klíkan aldrei tryggja okkur sigur! Fuss og svei.
Hvernig væri nú ef EBU mundi verðlauna þrautsegju Íslendinga og Eurovision-geðveiki, með því að leyfa okkur að halda keppnina að ári? Sama hvaða suðurslavi fer með sigur af hólmi! Að fá Eurovision til Íslands mundi jafnast á við nýja Þjóðarsátt, 10 EES samninga og 14 kjörtímabil undir undir forsæti Davíðs Oddsonar!
Sjáið hvert þetta Eurovision-leysi er að fara með þetta þjóðfélag! Símahleranir, herskylda, útlendingahatur, opinber ritskoðun! Beitum öllu tiltæku ofbeldi til að fá Eurovision til Íslands, þetta er spurning um líf og dauða fyrir okkar litla lýðveldi!
(Frelsið, John Stuart Mill)
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021