Á föstudaginn í seinustu viku felldi borgarstjórn tillögu um að veita veitingastað í Egilshöll í Grafarvogi vínveitingaleyfi. Hefur umræðan verið þverpólitísk og líklega frekar endurspeglað almenn viðhorf fólks til áfengismála, þar sem fólk með frjálslyndari viðhorf hefur verið hlynnt því að veita þarna áfengi. Ég hef velt fyrir mér hættunni sem mun fylgja því að leyfa veitingu áfengis í Höllinni og í fljótu bragði sé ég ekki aðrar ástæður fyrir banninu en sú hugmynd að íþróttir og áfengi eigi ekki saman.
Þegar Egilshöllin er skoðuð kemur í ljós að þarna er engin venjuleg íþróttahöll á ferðinni. Alls er hún 23 þúsund fm að stærð, með innanhúsaknattspyrnuvelli, innanhússskautasvelli og skotaðstöðu. Inn í þessu er jafnframt 8 þúsund fm þjónusturými þar sem í verða verslanir, gistirými undir heilu íþróttaliðin, veitingaaðstaða og skrifstofuaðstaða. Hérna er því ekki bara hefðbundin íþróttahöll eins og eru við flesta grunnskóla landins.
Þegar kemur að umræðu um veitingu vínveitingaleyfisins, hefur mátt skilja marga á þann veg að veita ætti leyfið þannig að þarna verði bara opin bar! Það er þó ekki um að ræða heldur afmarkaðann veitingastað, þar sem hægt átti að vera að kaupa sér léttvín og bjór með matnum. Veitingastaðurinn er afmarkaður í 280 fm rými með sérinngang. Ekki átti að vera heimilt að fara með áfengisveitingarnar út úr þessu rými. Sjö umsagnaraðilar höfðu samþykkt þessa ráðstöfun og eru það aðilar eins og heilbrigðiseftirlitið, hverfaráð Grafarvogs, Borgarlögmaður og ÍTR.
Á Stór-Reykjavíkursvæðinu eru fjölmargir golfvellir og keilusalir sem hafa átt möguleika á að fá úthlutað slíkum leyfum. Golfspilurum og keiluáhugamönnum virðist þannig vera betur treyst að fara með áfengi en áhugamönnum um ísknattleik, knattspyrnu og skotfimi. Jafnframt eru blómleg atvinnusvæði í nágrenni húsins, veitingamanni sem þar vildi veita áfengi væri líka betur treyst en veitingamanninum í Egilshöllinni.
Þegar í ljós hefur komið að 7 umsagnaraðilar hafa allir samþykkt vínveitingarleyfið fyrir sína hönd má velta fyrir sér afhverju þetta svona mál eru yfir höfuð komin inn í borgarstjórn. Er tíma borgarstjórnar vel varið með því að vera að fjalla um málefni af þessu tagi? Ýmsum finnst skjóta nokkuð skökku við að á endanum séu það dutlungar borgarfulltrúa sem á skeri úr um það um hverjum hlotnist að veita guðsveigarnar, en ekki fyrirfram ákveðnar fastmótaðar reglur sem veitingamenn geta treyst á.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020