Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hvarf af landi brott til þess að sitja námskeið um Evrópu út í London, héldu margir að tilgangur hennar væri að halda sér frá pólitískum skarkala þannig að hún gæti átt ferska innkomu inn á leiksvið íslenskra stjórnmála. Ef það var tilgangurinn er ljóst að það hefur algjörlega mistekist.
Í tengslum við umræður um fjölmiðlafrumvarpið hefur borgarfulltrúinn látið til sín taka á nýjan leik. Það fer þó ekki mikið fyrir ferskleika heldur eru gömlu slagorðin um samræðustjórnmálamenn og umræðustjórnmál rifin upp, alveg jafn löng og innihaldslaus eins og þau voru áður en farið var á námskeið í London. Ég veit líka ekki hvort fyrirtækjum eins og Baugi, Norðurljósum og KB banka sé nokkur greiði gerður með því að Ingibjörg rifji stöðugt upp Borgarnesræðu sína, eins og hún hefur gert á síðustu dögum, og þannig sífellt dregin af henni í pólitískan bás.
En það var lán í óláni fyrir varaþingmanninn Ingibjörgu að vinkona hennar, þingmaðurinn Guðrún Ögmundsdóttir, skuli hafa lagst í flensuskít um leið og hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp er til meðferðar á Alþingi. Kastljós fjölmiðlanna beinist nú, sem aldrei fyrr, að störfum þingsins og það er alveg óþarfi að láta formann Samfylkingarinnar einan um sóknarfærin sem ríkisstjórnin gefur á sér. Við skulum reyndar vona að um sannarleg veikindi sé að ræða en ekki að reglur séu hafðar í flimtingum í þágu konu sem náði ekki kjöri til Alþingis.
Það sem veldur þessari framhleypni Ingibjargar er að sjálfsögðu sú staðreynd að hún er þegar búin að tilkynna framboð sitt til formanns Samfylkingarinnar. Sú ótrúlega ákvörðun hennar að tilkynna framboð tvö ár fram í tímann um leið og hún bauð sig fram til varaformanns fyrir síðasta landsfund Samfylkingarinnar, var alveg dæmalaus. Ákvörðunin var þó í takt við forsögu hennar, þ.e.a.s. að láta ekki kjósa um sig. Hún lagði ekki í kosningu við Össur en var í stað þess sjálfkjörinn varaformaður. Svo hefur hún tvö ár til þess að grafa undan honum og treystir á að verða sjálfkjörinn formaður flokksins árið 2005. Það mætti kalla hana Sólrúnu sjálfkjörnu.
Fyrir síðasta landsfund sagðist Össuri auðvitað lítast vel á framboð Ingibjargar til varaformanns og sagðist hann „engar athugasemdir gera við þá yfirlýsingu hennar að stefna að framboði til formanns eftir tvö ár”. Sjálfur sagðist hann því miður ekki vera nógu framsýnn til þess að treysta sér í að spá hvernig staðan yrði að tveimur árum liðnum.
Það er ljóst að Samfylkingunni er lítill greiði gerður með þessari ákvörðun, enda er formaður flokksins í erfiðri aðstöðu þar sem stór hlut flokksmanna bíður eftir að einhver annar taki við flokksforystunni. Það er þó ekkert til þess að einfalda málið að það virðist gæta meiri tregðu innan þingflokks heldur en hjá almennum flokksmönnum Samfylkingarinnar til þess að skipta um formann.
Sú ákvörðun Ingibjargar að taka sér frí frá íslenskum stjórnmálum var kannski ekki svo vitlaus og mættu fleiri stjórnmálamenn taka sér það til fyrirmyndar. En framganga hennar á síðustu vikum sýna að hún hefur ekki miklu við að bæta í íslensku stjórnmálalífi, nema þó að vinna að enn einu sjálfkjöri sínu. Fríið hefði mátt vera lengra, miklu lengra.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007