Kennaraverkfall

Einu sinni, einu sinni enn…

Það virðist vera svo hérna á Frónni að hægt sé að stilla klukkuna, eða dagatalið, eftir ákveðnum atburðum sem eiga sér stað með reglulegu millibili. Mætti þar nefna falsvonir um sigur í Júróvisjon, vonbrigði með framgöngu strákana okkar á HM í handbolta, Framsóknarmenn fá sæti í ríkisstjórn og svo verkfall kennara.

Það virðist vera svo hérna á Frónni að hægt sé að stilla klukkuna, eða dagatalið, eftir ákveðnum atburðum sem eiga sér stað með reglulegu millibili. Mætti þar nefna falsvonir um sigur í Júróvisjon, vonbrigði með framgöngu strákana okkar á HM í handbolta, Framsóknarmenn fá sæti í ríkisstjórn og svo verkfall kennara.

Í dag 5. maí er von á tilboði frá ríkissáttasemjara til kennara en samningar þeirra hafa verið lausir frá því um mánaðamótin mars apríl. Að öllum líkindum verður tilboðið langt frá því sem kennarar telja sig geta sætt sig við en eins og venjulega krefjast þeir umtalsverðra kjarabóta, lái þeim hver sem vill. Verði raunin sú stefnir í enn eitt kennaraverkfallið.

Pistlahöfundur á hins vegar ákaflega erfitt með að sjá að verkfall sé góð leið fyrir kennara til að ná sínu fram. Þeir eru í þeirri undarlegu aðstöðu að þeir hagsmunahópar sem verkfallið hefur áhrif á hagnast frekar en að tapa á verkfalli þeirra. Atvinnurekandinn þ.e. ríkið, þarf ekki að greiða laun á meðan verkfallinu stendur og verður ekki fyrir neinni beinni tekjuskerðingu eins og hefði gerst hjá öllum fyrirtækjum. Viðskiptavinirnir þ.e. skólabörn, eru í langflestum tilvikum því guðs lifandi fegin að fá “frí” í skólanum í nokkrar vikur. Það eru helst foreldrar sem blóta því að börnin þeirra fari ekki í skólann, því að a.m.k. fyrir þau allra yngstu þarf að redda pössun með tilheyrandi kostnaði. Kennarar græða þó lítið á því þar sem fæstir foreldrar sýna málstað þeirra skilning og kenna þeim um, en ekki ríkinu, að börnin sæki ekki skóla.

Verkfall er því ekki góð leið fyrir kennara til að ná sínu fram. Svo ekki sé talað um þá tekjuskerðingu sem þeir verða fyrir á meðan á því stendur. Líklega er það svo að það tekur kennara oftast e-r ár að vinna upp tekjutapið sem þeir verða fyrir í verkföllum. Sem dæmi má nefna að skili eins mánaðar langt verkfall þeim 4% hærri launum en aðrar aðgerðir, sem ekki fela í sér verkfall, hefðu skilað þeim væru þeir um 2 ár að vinna fyrir tekjumissi í verkfallinu. Það er næstum sá tími sem líður á milli verkfalla hjá þeim!

Það má gera að því skóna að stærstu mistök sem kennarar hafa gert í sinni kjarabaráttu séu að hafa tekið upp verkfallsrétt og umsjón kjarasamninga í stað þess að láta kjaradóm ákveða laun þeirra eins og var áður. Það voru allavega þeir tímar að það þótti flott að vera kennari og að laun þeirra voru svipuð launum Alþingismanna. Sú tíð er löngu liðin. En ef það er ekki góð leið fyrir kennara að fara í verkfall, hvað er þá til ráða?

Að öllum líkindum þarf grundvallarbreytingu í þeirra launakerfi og þá um leið í grunnskólakerfinu á Íslandi til að kennarar njóti sanngirni í launum. Það þarf að auka samkeppni milli skóla og gefa stjórnendum meira svigrúm í launagreiðslum. Góðir kennarar eru miklu verðmætari en vondir og þess eiga þeir líka að njóta í launakjörum. Forsendan fyrir því að það sé hægt er að kennarar njóti ekki meiri atvinnuverndar en venjulegir starfsmenn. Það á að reka lélega kennara og á móti á að umbuna góðum kennurum. Góðir kennarar eiga líka að vera eftirsóttir starfskraftar. Skólar eiga að hafa metnað til þess að hafa sem best starfsfólk í vinnu og eiga þess vegna að sækjast eftir því að fá sem besta kennara í vinnu. Þannig gæti myndast samkeppni milli skóla um að greiða góðum kennurum laun.

Þáttur í þessu hlýtur þá einnig að vera að gefa grunnskólunum meira sjálfstæði í fjármálum og að skólarnir fái fjármagn til þess að umbuna kennurum. Mætti þá t.a.m. hugsa sér að skólarnir fengju fjármagn í samræmi við árangur sem yrði mældur eftir ákveðnum aðferðum, ekki eingöngu niðurstöðum úr prófum. Jafnframt mætti fjölga nemendum í bekkjardeildum, .Jón Steinsson benti á í Deiglupistli að námsárangur væri lítið háður fjölda í bekkjardeild, en með því mætti spara peninga sem gætu farið í að hækka laun kennara.

Hvaða leiðir sem kennarar fara í sinni kjarabaráttu er líklega orðið nauðsynlegt að gera grundvallarbreytingar á menntakerfinu og þeirra starfstengdu réttindum. Drifkrafturinn á að vera betra menntakerfi sem hlýtur að vera hagsmunamál allra aðila, jafnt foreldra og skólabarna sem kennara og ríkisins. Forsenda þess að það sé hægt er að kennarastarfið verði eftirsótt á ný og að góðir kennarar njóti þess í launum umfram þá lélegu. Til þess þarf grundvallarbreytingu sem kennarar jafnt sem viðsemjendur þeirra þurfa að átta sig á.

Sjá annars heimasíðu Kennarasambandsins varðandi samanburð á launakjörum þeirra og skrifstofufólks.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)