1.maí síðastliðinn var stór dagur í sögu Evrópu, en þann dag fengu 10 ríki til viðbótar aðild að Evrópusambandinu. Þar með var langþráðum áfanga náð og bið þessara ríkja eftir því að tilheyra sannarlega Evrópu á ný á enda. Tímamótin fela jafnframt í sér von nýju aðildarþjóðanna um grósku og stöðugleika, í efnahaglegum, pólítískum og félagslegum skilningi.
New Scientist birti grein þennan dag þar sem að varpað var ljósi á þá staðreynd að minna hafi farið fyrir sumum málum en öðrum í umræðum um hina nýju Evrópu, t.d því að aðildarþjóðirnar glaðbeittu gengu líka þennan dag inní stærsta kjarnorkuklúbb veraldar.
Þannig er nefnilega í pottinn búið að Evrópusambandið er bundið ákveðnum skuldbindingum sem byggðar eru á 47 ára gömlum sáttmála, Eurotom, sem kveður á um að Evrópusambandinu sé skylt að viðhalda og þróa öflugan kjarnorkuiðnað sem bætt geti lífsgæði borgara þess. Á þeim tíma sem Eurotom var gerður var kjarnorkan án nokkurra efasemda álitin orkuauðlind framtíðarinnar, og hefur því óheyrilegum fjármunum í gegnum árin verið varið bæði í rannsóknir á kjarnorku, sem og til að byggja og bæta kjarnorkuver.
Í kjölfar þessa má því segja að Evrópusambandið sé orðinn stærsti kjarnorkuframleiðandií heimi, en innan þess eru nú keyrðir áfram 156 kjarnaofnar sem sjá svæðinu fyrir um 32% af nýttu rafmagni, sem er hærra hlutfall en bæði í N-Ameríku og Rússlandi.
Þó margir álíti Eurotom mótsagnakennda tímaskekkju eru ekki líkur á að fallið verði frá samningnum á næstunni, en vafalítið er um talsverðan rugling og ósætti hvað varðar stefnu Evrópu í þessum málum að ræða. Staðan flækist enn við aðild ríkjanna 10.
Þannig er mál með vexti að fimm þessara nýju aðildarríkja (Pólland, Eistland, Lettland, Kýpur og Malta) búa ekki yfir kjarnorkuverum, en verða samt sem áður skyldug í framhaldinu til að styrkja, eða auka veg þróunar kjarnorkuiðnaðarins. Önnur aðildarríki eins og Slóvenía, Slóvakía, Ungverjaland, Litháen og Tékkland treysta hinsvegar á kjarnorku til að mæta orkuþörfum, en Evrópusambandið leggur hart að bæði Slóvakíu og Litháen að leggja niður hluta sinna kjarnaofna, sem þykja of gamaldags.
Meðalaldur kjarnaofna í Evrópu eru 22 ár, en eftir Tjernobyl-slysið fyrir 18 árum hefur áhugi ríkja á kjarnorkutækninni farið dalandi. Aðeins Frakkland og Finnland íhuga gerð nýrra kjarnaofna meðan lönd eins og Þýskaland, Svíþjóð, Belgía og Spánn leggja áherslu á að draga úr þessum iðnaði. Því má segja að Eurotom sé vel kominn á tíma hvað endurskoðun varðar.
Sú þjóð sem hvað mest er á móti kjarnorkuiðnaðinum, Austurríki hefur lagt til að Eurotom verði hið snarasta skipt út fyrir sáttmála sem er ‘technology-neutral’, þ.e. að ekki skipti máli hvaða tækni verði notuð til þess að framleiða þá orku sem til þarf til að viðhalda þeim lífsgæðum sem sómasamleg þykja. Virðist manni þetta vera eðlilegri þróun, heldur en sú að þráast við að viðhalda jafn viðkvæmum og hættulegum iðnaði og kjarnorkuiðnaðurinn er, ef tæknin býður uppá önnur úrræði.
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007