Kaldbakur og SPRON

Stutt greining á tveimur fjármálafyrirtækjum

Í viðskiptapistli dagins verður kastljósinu beint að tveimur fyrirtækjum á fjármálamarkaði, SPRON og Kaldbaki.

Í viðskiptapistli dagins verður kastljósinu beint að tveimur fyrirtækjum á fjármálamarkaði, SPRON og Kaldbaki.

Kaldbakur

Kaldbakur heitir hæsta fjall Vestfjarða. Fyrir ofan þorpið Grenivík í Eyjafirði gnæfir fjall sem ber þetta sama heiti. Kaldbakur er jafnframt fjárfestingarfélag sem stofnað var í ársbyrjun 2002 þegar það tók yfir allar eignir og skuldir KEA, eða Kaupfélags Eyfirðinga. Tilgangur félagsins er að hámarka arð hluthafa með kaupum og sölu á hluta- og skuldabréfum. Félagið hefur leyfi til að skuldsetja sig.

Helstu eignir Kaldbaks samanstanda af rétt ríflega þriðjungs hlut í Tryggingamiðstöðinni, 18% hlut í Samherja, 8% hlut í Síldarvinnslunni, 8% hlut í Norðurljósum, 50% hlut í Sjöfn hf. og svo sjávarútvegsfyrirtækinu Boyd line management services ltd. sem Kaldbakur keypti í febrúar af Burðarási fyrir 13,2 milljónir punda. Sjöfn hf. er fjárfestingarfélag sem sérhæfir sig í umbreytingaverkefnum minni og meðalstórra fyrirtækja. Meðal eigna Sjafnar hf. má nefna Hans Petersen hf. sem þeir keyptu af Skeljungi í fyrra.

Eigið fé Kaldbaks um síðustu áramót var um 8,5 milljarðar króna. Hlutabréfasafn félagsins hefur hækkað vel það sem af er árinu og nýlega seldi félagið alla eign sína í Íslandsbanka, 4,19% hlut, og hagnaðist á því um 640 mkr. Þar af bókast 440 mkr. sem söluhagnaður á árinu 2004 en líklega hafa þessar 200 mkr., sem upp á vantar, verið í ársuppgjöri 2003 sem óinnleystur gengishagnaður. Miðað við verðmæti þessara félaga í árslok 2003 hafa skráð hlutabréf í eigu Kaldbaks hækkað um u.þ.b. 1200 mkr. það sem af er árinu. Með söluhagnaði Íslandsbankabréfanna má því gera ráð fyrir að eigið fé félagsins hafi hækkað um a.m.k. 1600 mkr. fyrstu fjóra mánuði ársins.

Kaldbakur er í dag metinn á um 11,5 milljarða króna miðað við lokagengi gærdagsins. Þetta þýðir að innra virðið í dag er um 1,14 (11,5/(8,5+1,6)) en sambærileg kennitala fyrir Straum er 1,55, miðað við þriggja mánaða uppgjör.

Að vissu leyti eru Straumur og Kaldbakur sambærileg félög. Kaldbakur er þó sínu minna í sniðum, bæði ef litið er til eigin fjár og starfsmannafjölda. Eignir beggja félaganna eru að mestu leyti bundnar í markaðsverðbréfum og því spurning hvort það geti verið réttlætanlegt að greiða meira en sem nemur innra virðinu 1 fyrir hlutabréf í félögunum. Hærra verð má þó réttlæta með þekkingu starfsfólks, sem þyrfti þá að vera betra í því en markaðurinn að ná góðri ávöxtun, og vonum um dulin verðmæti í óskráðum eignum, þó litlar séu sem hlutfall af heildareignum. Mætti þar nefna Norðurljós og Sjöfn hf. hjá Kaldbaki og flóruna úr Hugbúnaðarsjóðnum hjá Straumi. Það er allavega ljóst að sé litið til innra virðis er Kaldbakur mun ódýrara en Straumur og líklega mun ódýara en t.a.m. Atorka og önnur sambærileg félög í Kauphöllinni. Fjárfestar sem lítua hýru auga til skráðra fjárfestingarsjóða ættu því kannski að gefa Kaldbaki gaum. Í fljótu bragði virðast allavega betri kaup í bréfum félagsins en sambærilegum bréfum sem eru í boði.

SPRON

Það er athyglivert að skoða rekstur SPRON það sem af er árinu. Ef tekið er mið af undangegnum árum er fyrri hluti ársins ávallt erfiður hjá SPRON. Í fyrra var hagnaðurinn fyrstu sex mánuði aðeins fjórðungur af heildarhagnaði ársins, eða 200 mkr. af 800 mkr., og árið 2002 var tap fyrstu sex mánuði ársins upp á um 130 mkr.

Í ár má hins vegar búast við mjög góðu hálfs árs uppgjöri. Aðalástæða þess er mikil hækkun á eignarhlutum SPRON í KB banka og Marel. SPRON á í gegnum Meið fjárfestingafélag um 1,3% í KB banka og átti í upphafi árs um 7,8% í Marel. Verðmætaaukning SPRON í hvoru fyrirtæki fyrir sig, það sem af er árinu, ætti því að vera um 700 mkr. í KB banka og tæplega 300 mkr. í Marel. Alls er þetta um 1 milljarður króna sem er sambærilegur gengishagnaður og allt árið í fyrra. Þetta jafngildir um 22% hækkun á (83% á ársgrundvelli) eigin fé bankans sem var 4,6 milljarðar um áramótin. Í fyrra lagði SPRON óvenju mikið í afskriftarreikning útlána eða um 670 mkr. og því ætti að vera raunhæft að ganga út frá því að heildarhagnaðurinn í ár verði um 1,5 milljarðar króna, komi ekkert stórkostlegt upp á.

Verði það raunin ætti sparisjóðurinn að geta greitt stofnfjárhöfum allt að 33% arð af stofnfé (mega greiða að hámarki sem nemur ávöxtun eigin fjár) og 5% til hækkunar á stofnfé fyrir utan hefðbundna verðtryggingarhækkun. En það myndi jafngilda 38% raunávöxtun sem hlýtur að teljast allgott. Verður gaman að sjá með hliðsjón af þessu hvernig viðskipti með stofnfé SPRON munu þróast á opna markaðinum með stofnfé sem SPRON hyggst setja á laggirnar á næstunni. Spurningin er hvort verðið muni ná viðmiðunargenginu 5,55 sem stofnfjárhöfum bauðst frá KB banka í febrúar.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)