Samviskuföngum sleppt – en mannréttindabrotin halda áfram

Það var ótrúlegt að horfa á myndirnar frá Njarðvíkurskóla í gær. Þar hélt íslenska ríkisstjórnin nokkrum tugum samviskufanga vegna þess að lífssýn þeirra samræmist ekki áhugamálum Jiang Zemin sem ýmist er kallaður erlendur tignargestur eða, sem eðlilegra er, erlendur harðstjóri og fjöldamorðingi.

Það var ótrúlegt að horfa á myndirnar frá Njarðvíkurskóla í gær. Þar hélt íslenska ríkisstjórnin nokkrum tugum samviskufanga vegna þess að lífssýn þeirra samræmist ekki áhugamálum Jiang Zemin sem ýmist er kallaður erlendur tignargestur eða, sem eðlilegra er, erlendur harðstjóri og fjöldamorðingi.

Í gærkvöldi hittust forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra og sendu frá sér tilskipun um að samviskufangarnir skyldu látnir úr haldi. Var þetta ákaflega jákvæð yfirlýsing og mikið gleðiefni að á Íslandi séu skólahúsnæði ekki lengur notuð sem fangelsi, þótt í ljós hafi komið á síðustu dögum að sum þeirra séu afar hentug til slíks brúks.

Hins vegar er stefna ríkisstjórnarinnar vegna heimsóknar Jiang Zemin lítið breytt í raun. Enn eru íslensk stjórnvöld að meina fólki inngöngu í landið á grundvelli kynþáttar og trúarskoðana. Fréttir hafa borist af því að í New York hafi um 20 “meintum” Falun Gong meðlimum verið meinað að ganga um borð í Flugleiðavél og var það gert samkvæmt fyrirskipunum íslenskra stjórnvalda en Flugleiðir höfðu fengið í hendur lista yfir fólk sem ekki væri velkomið til Íslands.

Í Morgunblaðinu í morgun er fjallað um taívanska læknaprófessora, sem engin tengsl hafa við Falun Gong, sem hefur verið neitað um vegabréfsáritanir. Þetta sýnir, svo ekki verður um villst, að ríkisstjórn Íslands er farin að hafna fólki um vegabréfsáritanir á grundvelli þjóðernis.

Sú ákvörðun að hætta við að halda samviskuföngum á Íslandi er hvergi nærri nóg til þess að sýna fram á að hér hafi menn ákveðið að halda sig við hefðbundin mannréttindi. Fræg líking um ríkisvaldið kemur upp í hugann við þessar aðgerðir því segja má að ríkisstjórnin hafi nú boðið því fólki hækjur sem það sparkaði niður og segi svo: “Sjáið hvað við erum nú góð.”

Eina leiðin til að mótmæla þeim mannréttindabrotum sem eiga sér stað í Kína er að alþjóðasamfélagið láti vanþóknun sína í ljós og að fulltrúum kínverska alþýðulýðveldisins sé mótmælt á ferðum sínum í hinum vestræna heimi. Það er ákaflega mikilvægt að kínverskir erindrekar og embættismenn geri sér grein fyrir því að vestræn ríki muni ekki nota þau grundvallarmannréttindi, sem fólk hefur dáið fyrir í stríðum og byltingum, sem skiptimynt þegar þessir gaurar heimta það.

Aðgerðir íslenskra stjórnvalda í þessu máli eru ekki til þess fallnar að hjálpa til við lýðræðisumbætur í Kína og það sem verra er – þau fara þvert gegn öllum þeim grundvallaratriðum um mannréttindi sem íslenskt samfélag er reist á.

Deiglan skorar á ríkisstjórnina að snúa hið snarasta af þeirri stórhættulegu braut sem hún er komin á. Ef það verður til þess að kínverski fjöldamorðinginn hættir við að koma þá hafa mannréttindin unnið sigur. Farið hefur fé betra heldur en Jiang Zemin.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)