Á undanförnum árum hefur talsverð umræða verið í þjóðfélaginu um kosti og galla lögleiðingar fíkniefna og hefur meðal annars verið fjallað um það hér á Deiglunni. Undirrituð er í hópi þeirra sem leggst alfarið gegn hugmyndum um lögleiðingu. En sama hvora skoðunina menn aðhyllast er ljóst að ávallt verður þörf á forvörnum.
Ríkið ver á ári hverju umtalsverðum fjármunum til forvarna en er þeim fjármunum nægjanlega vel varið? Sveitarfélög víða um land leggja einnig á ári hverju talsverða fjármuni til forvarnarstarfs og hafa sum þeirra mótað sér forvarnarstefnu þar sem skilgreind eru þau markmið sem stefnt er að með forvarnarstarfinu. Slík stefnumótun liggur hins vegar ekki fyrir af hálfu ríkisvaldsins.
Reynslan af forvarnastarfi hingað til m.a. á vegum Vá-vest hópsins á norðanverðum Vestfjörðum hefur leitt í ljós að markviss og stöðug vinna skilar árangri til lengri tíma litið meðan tímabundin „átök“ og “herferðir” skila eingöngu skammtímaárangri. Því verður að tryggja að skattfé almennings sé ekki eytt í slíkar skammtímalausnir. Fleiri “þjóðarátök” eru sem sagt ekki lausnin.
Ljóst er að til að árangur náist í forvörnum þarf markvissar aðgerðir. Til að hægt verði að segja að fjárveitingum ríkisins til forvarna sé vel varið verða þær að grundvallast á skýrri framtíðarsýn.
Ríkið verður því að setja sér forvarnarstefnu þar sem skilgreind eru þau markmið sem stefnt er að og skilgreina verður þann ramma sem þeim aðilum sem fá fjárveitingar til forvarna er ætlað að vinna eftir. Þá verður að setja fram mælikvarða til að mæla árangur af þeim aðgerðum sem farið er í. Í þeirri stefnu þarf að ákvarða hvaða aðilar eigi að sinna forvörnum þ.e. á að styrkja lögreglunna til þess að sinna þessum þætti betur? Á að auka fjárframlög til UMFÍ enn frekar? Á að veita hvaða einkaaðila sem er fjárveitingu til að koma á fót e-k forvarnarvinnu?
Í stefnuyfirlýsingu ríkistjórnarinnar kemur meðal annars fram að stefnt sé að því að:
“…markvisst verði unnið í baráttunni gegn fíkniefnavandanum. Mótuð verði heildstæð forvarnastefna í samvinnu við lögreglu, skólayfirvöld, íþróttafélög og foreldra. Hafnað er hvers kyns eftirgjöf gagnvart fíkniefnum, innflutningi þeirra, dreifingu og notkun. Meðferðarúrræðum verði fjölgað og rík áhersla lögð á forvarnir.”
Það stendur sem sagt til að móta slíka forvarnarstefnu af hálfu ríkisins og spennandi er að sjá hver útkoman verður.
Það er mikilvægt að slík stefna liggi fyrir sem fyrst því ljóst er að meðan ekki er til staðar markviss forvarnarstefna nýtast þeir fjármunir sem lagðir eru til málaflokksins af hálfu ríkisins ekki sem skyldi. Árangur er ekki mælanlegur og hætt er við að margir aðilar séu að vinna að sama markmiði hver í sínu horni og hugsanlega í samkeppni hver við annan um fjármagn í stað þess að nýta krafta sína í sameiningu til að ná sem bestum árangri.
Ekki fleiri “þjóðarátök” takk.
- Framtíðin sem við skuldum - 30. nóvember 2020
- Alþingi í gíslingu - 11. júlí 2009
- Tækifæri til að efna fögur fyrirheit - 16. júní 2009