Jamie Oliver er margt til lista lagt, þrátt fyrir að mörgum hafi þótt óbragð af nýjasta jafnrétti hans.
|
Stuðningsmenn lífssýnatöku fyrirtækja fengu óvæntan byr undir báða vængi þegar fregnir bárust af því að breski kokkurinn Jamie Oliver hefði brennt á sér skaufann í eldhúsinu þegar hann var í óða önn við að reiða fram rjúkandi jafnrétti. Reyndar kom upp úr dúrnum að kokkurinn hafi ekki verið undir áhrifum lyfja í vinnunni, heldur verið á heimili sínu að elda fyrir frilluna á sprellanum þegar ósköpin dundu yfir.
Karlkyns lesendur ættu nú að skilja og virða hvers vegna Jói Fel er alltaf að elda í sturtu!
Efasemdarraddir þess hljóðandi að um málamyndaeldamennsku hafi verið að ræða hlutu strax hljómgrunn, enda framandi réttur frá fjarlægu landi á matseðlinum og frillan vart eldri en 24jra vetra.
Hvað getum við lært af þessu?
Jú, karlar eiga ekki að elda! Og sú kenning verður lífseigari með hverjum deginum að þetta hafi verið leið Guðs til að benda karlmönnum á að halda sig fjarri eldhúsinu. Fyrir mína parta voru þetta reyndar fulldrastískar aðgerðir hjá Guði. Þannig hefði t.d. alveg nægt að hann hefði bara sagt: „Karlar eiga ekki að elda“ — og ég held að menn hefðu almennt ekkert verið að malda í móginn og verið þess guðslifandi fegnir að fá að glápa truflunarlaust á enska boltann.
En Hann er kannski bestur í svona drastískum aðgerðum — maður fær það alla vegana á tilfinninguna þegar maður hugsar um Rauðahafið og svoleiðis stórframkvæmdir — en þetta var nú óþarflega gróf aðgerð hjá himnaföðurnum…
Hér hefir trúmálum og jafnréttismálum verið troðið inn í sömu málsgreinina á vitaósmekklegan máta og nokkuð ljóst að pistlahöfundur er á ansi hálum ís. En aðalatriðið er náttúrulega sú spurning hvort kokkur geti nokkurn tíma eldað almennilega jafnrétti? Skoðanir manna eru jafnmargar og þær eru misjafnar en hins vegar virðist það fylgja að menn brenni sig alltaf þegar þeir ræða um jafnrétti. Og fyrst að út í þetta er farið er þá ekki rétt að spyrja hvort að tveir réttir geti nokkru sinni verið jafnréttir?
Það finnst dómsmálaráðherra ekki. Hann setur spurningamerki við að annar tveggja jafnréttra geti orðið réttur. Þess í stað segir hann að rangur sé réttur. Svona hugmyndafræði byggir á röksemdarfærslu sem heldur ekki vatni. Þannig hefi ég margoft reynt að benda starfsmönnum Esso-bensínstöðvarinnar í Skógarseli á þessa röksemd þegar ég kem vongóður með tvo rétta í Lottóinu og heimta vinning — en þeir neita að bæta einni skitinni rangri tölu við sem réttri!
Smáborgarar.
Nú gæti verið heppilegt að setja sig í heimspekilegar stellingar áður en lengra er haldið. Hvað á hann við? Er hann að reyna að rugla okkur í rýminu með einhvers konar orðaleikjum, er hann að reyna að vera fyndinn, eða býr eitthvað meira að baki? Ég segi ekki annað en þetta: Hætturnar leynast víða, börnin góð!
Hins vegar er fyrir löngu síðan kominn tími til að ég, þið, Jamie og Jói snúum bökum saman og bökum saman — þó ekki smákökur — heldur jafnrétti í stórum stíl.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007