Sama dag og nýbakaður forsætisráðherra Spánar, José Luis Rodriguez Zapatero, kallar herlið sitt frá Írak hefur Condoleezza Rice, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, varað við hryðjuverkaárásum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum næsta haust. Þetta er sá raunveruleiki sem við búum við í dag.
Sem betur fer virðist ekki rökstudd ógn fyrir þessum ummælum Rice en haft er eftir henni að hryðjuverkamönnum finnist „tækifærið of gott til þess að sleppa því“. Ekki er gott að segja til um hvaða áhrif slíkur verknaður hefði í för með sér en pólitísk áhrif árásanna í Madríd hljóta að auka líkur á slíku voðaverki. Kosningaslagurinn í Bandaríkjunum er að harðna og andstæðingar Bush eru þegar farnir að líkja Íraksstríðinu við Víetnamsstríðið. Hryðjuverk á Bandaríkin gætu stutt þá samlíkingu og hugsanlega leitt af sér svipaða andstöðu og gerðist í Víetnamstríðinu og varð til þess að Bandaríkjastjórn kallði herlið sitt heim. Það má leiða að því líkum að ferill Bush væri snarlega á enda ef slík andstaða magnast fyrir kosningarnar. Andstæðingur Bush, John Kerry, gæti því allt eins verið í sömu sporum og starfsbróðir sinn, Zapatero, næsta haust og þurft að draga bandarískt herlið heim frá Írak.
Það er erfitt að sjá hvaða árangur hefur náðst í stríðinu gegn hryðjuverkum og hvaða árangri Íraksstríðið hefur skilað í þeirri baráttu. Hryðjuverkaógnin hefur magnast, landamæri að lokast (sbr. vegabréfsáritanir til USA) og frelsi einstaklinga að skerðast með víðtækari starfsheimildum lögreglu og leyniþjónustofnanna. Auk þess er búið að senda hryðjuverkamönnum skilaboð um að „árangursríkara“ sé að taka menn í gíslingu eða ráðast á saklaust fólk heldur en að berjast við hermenn í Írak eða Afganistan.
Á sama tíma og hryðjuverkamenn hafa sýnt fram á að þeir geti haft áhrif á úrslit kosninga og afstöðu þjóða er máttur hinna staðföstu þjóða að þverra. Ef baráttan gegn hryðjuverkum er dómínóspil er hugsanlegt að með hryðjuverkunum í Madríd hafi fyrsti kubburinn fallið.
11. september 2001 hófst stríð gegn hryðjuverkum. 11. mars 2004 var því vonandi ekki lokið – með sigri hryðjuverkamanna.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009