Þegar fyrstu vefnaðarvélarnar litu dagsins ljós í upphafi iðnbyltingar tóku einhverjir verkamenn sig til og skemmdu þær enda töldu þeir vélarnar vera hafa af sér atvinnu. Voru þeir kallaðir vélbrjótar. En þótt okkur nútímafólki finnst þessi tiltekna andstaða við framfarir hafa verið fáranleg og þótt vélbrjótarnir sjálfir hafi orðið einhvers konar brjóstumkennanlegir kjánar mannkynssögunnar þá lifa hugmyndir þeirra, og lifa vel.
Þessi hugmynd: Hugmynd um að atvinna sé einhver takmörkuð auðlind sem verður að stýra aðgengi að og verja með öllu móti, sú hugmynd virðist aldrei ætla að deyja. Það er þessi hugmynd sem fær fólk til að leggjast gegn því að útlendingar setjist að á Íslandi. Svekkjandi staða, ef menn vinna ekki, þá eru þeir að lifa á kerfinu og ef menn vinna þá eru þeir að „taka atvinnu“ af öðrum. You know you just can’t win.
Nýjasta dæmi um þessa atvinnuránavitleysu eru mótmæli ýmissa manna gegn hugmyndum um lagningu sk. Norðurvegar. Slíkur vegur mundi liggja yfir hálendið milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar og stytta þannig akstursleið til Akureyrar um 42 km. Ef farið yrði gegnum Þingvelli mundi leiðin svo styttast um allt að 82 km.
Fjölmargir aðilar, t.d. stjórnmálamenn Norðvesturkjördæmis og jafnvel ritstjórar Morgunblaðsins hafa fundið hugmyndinni flest til foráttu. Auðvitað er hún ekki gallalaus ekki fremur en nein önnur. Sumum gæti finnst sem of langt sé seilst inn á hálendið. Sumum gæti vegurinn þótt of dýr eða veðurskilyrði óhagstæð. Þetta verður allt að skoða. En á endanum þá snýst andstæða þrýstihópa á Norðurlandi-Vestra um það að vegurinn muni „taka atvinnu af fólki“ í landshlutanum. Menn benda á allar vegasjoppur á sem byggðar hafa verið upp á leiðinni. Menn benda á hvernig Blönduós hefur haft hag af umferðinni í gegnum bæinn.
Er fólk ekki aðeins að misskilja? Vegasjoppur eru gerðar til að þjóna vegfarendum, ekki öfugt. Vegfarendur eiga ekki siðferðislegri skyldu að gegna gagnvart fólki sem býr nálægt veginum. Fólk sem ferðast vill oftast gera það til að komast á milli staða, en ekki til að fá sér Hrútfirðing í Staðarskála, þótt það geti verið skemmtilegt uppbrot á ferðalaginu. Tilgangurinn með ferðinni er oftast annar en ferðin sjálf, svo það er hagkvæmast fyrir alla að hún taki sem stystan tíma.
Rík þjóðfélög eru þjóðfélög þar sem hlutirnir ganga hratt og skipulega fyrir sig. Þjóðfélög verða ekki rík af því að hafa sem flesta óþarfa milliliði í þágu atvinnusköpunar. Vegaskálar eru ekki óþarfir, en það er óþarfi að hafa fleiri en við höfum not fyrir. Og hver haldið þið að muni vinna í vegasjoppum á hinnum nýja Hálendisvegi? Hálendindingar? Nei, það verður auðvitað fólk úr héruðunum í kring. Ekki það að það eigi reyndar að skipta svo miklu máli, en samt virðast allir hafa misst af þessum punkti!
Mogginn sagði enn fremur að Vestfirðir myndu á einhvern hátt einangrast enn frekar við það að hafa engann fjölfarinn veg nálægt sér! Já, það er ekki bara gott að fólk keyri framhjá glugganum manns, heldur bætir það sálarlíf heils landshluta að hafa fjölfarinn veg í hundrað km. fjarlægð frá sér.
Á endanum er þetta víst spurning um þessa sk. „þjóðhagslegu hagkvæmni“. Stundum hef ég haft það á tilfinningunni að „þjóðhagslega hagkvæmt“ sé annað orð yfir „óhagkvæmt“. En gott og vel. Ef stytting akstursvegalengdar milli tveggja stærstu þéttbýliskjarna á landinu um rúman klukkutíma er ekki þjóðhagslega hagkvæm, hvað er það þá? Þegar á hólminn er komið eru íbúar Akureyrar fleiri en íbúar nálægt hringveginum. Skipta þeirra hagsmunir engu máli?
Vélbrjótar iðnbyltingar eru orðnir að vegbrjótum 21. aldar. Báðir töldu sig eflaust hugsa rökrétt og vilja vel. En á endanum er þetta sama vitleysan sem ef farið verður eftir kemur verst niður á þeim sem hana út úr sér láta. Væri betra ef menn héldu áfram að handsauma allan fjandann? Og getur Blönduós ekki orðið mögulega neitt annað en stór vegasjoppa?
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021