Mér er það mikil ánægja að fá að vera með ykkur hérna í dag og ræða um réttindamál innflytjenda og nýrra Íslendinga. Það er einnig einkar ánægjulegt að sjá hversu breið og þverpólitísk samstaða hefur náðst í þessum málaflokki og hversu góðar viðtökur undirskriftasöfnunin á Netinu hefur fengið.
Þessi mikla samstaða ungliðahreyfinga úr öllum stjórnmálaflokkum, helstu vefrita um þjóðmál ásamt Frjálshyggjufélaginu og Vöku – er sérstakt fagnaðarefni í ljósi þess að með þessari samstöðu er almenningi og stjórnmálamönnum send skýr skilaboð um að þegar grundvallarréttindi og grundvallarmál eru annars vegar vill ungt fólk ekki gera málamiðlanir. Það er einlæg von mín að þessi samstaða sé til marks um þá stefnu sem íslenskt samfélag muni taka á næstu árum og áratugum – stefnu sem felur í sér virðingu fyrir mannréttindum og mannhelgi hverrar manneskju.
Það má í það minnsta kosti vera fullkomlega ljóst að frumvarp á borð við það sem við erum að ræða hér í dag – þar sem verulega er vegið að réttindum aðfluttra Íslendinga – mun ekki eiga sér viðreisnar von þegar sú kynslóð sem nú starfar í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkana verður komin í þá aðstöðu að taka endanlegar ákvarðanir um slíka löggjöf.
Það er hins vegar staðreynd að málið sem er forsenda þessa fundar – þingmál nr. 749 – frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga – hefur nú þegar verið samþykkt í ríkisstjórn og yfirvofandi er hætta á því að þetta þingmál verði að gildandi lögum í þessu landi.
Í núverandi frumvarpi eru átján greinar og það er hægt er að gagnrýna eitthvað í næstum hverri einustu grein. Ef litið er heildsteypt á það þá má segja að það geri ráð fyrir að innflytjendur séu einhvers komar annars flokks Íslendingar þegar kemur að ákveðnum réttindum – þar er gengið út frá þeirri forsendu að fólk sem tekur ákvörðun um að flytjast til Íslands hafi eitthvað að fela – og í raun er meðferðin á þessum hóp næstum því eins og um síbrotamenn í gæslu sé að ræða. Þetta er hugsunarháttur sem ekki er hægt að samþykkja.
———————————————————–
Í núgildandi lögum getur útlendingur maki eða sambúðarmaki íslendings eða innflytjanda sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparstöðu sinnar án tillits til aldurs viðkomandi. Frumvarpið breytir þessu og kveður á um að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis útlendings á grundvelli sambúðar, hjónabands eða samvistar sé að viðkomandi hafi náð 24 ára aldri. Það er því ljóst nýju lögin viðurkenna ekki og veita ekki réttaráhrif hjónaböndum Íslendinga eða annarra, við útlendinga nema að útlenski makinn sé orðinn 24 ára. Makar af erlendu bergi brotnir á aldrinum 18-24 eru einfaldlega sviptir þessum rétti með frumvarpinu. Þetta er lagt til á meðan íslensk lög kveða skýrt á um að hver sem hafi náð 18 ára aldri geti gengið í hjúskap og tekið við öllum réttindum og skyldum sem því fylgja.
Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að jafnræði borgaranna er tryggt í 65. gr. stjórnarskrá og almennum viðurkenndum sjónarmiðum íslensks réttarfars um jafnrétti og það nær að sjálfsögðu til jafnræðis án tillits til þjóðernis eða kynþáttar. Fylgjendur frumvarpsins hafa bent á að þessi grein banni ekki mönnum að giftast og að þetta sé því ekki brot á jafnræðisreglunni. Þeir segja að makinn geti engu að síður komið inn í landið sem launþegi, pólitískur flóttamaður eða eitthvað. Það er hins vegar óumdeilt að hjónaband hættir að veita samkvæmt þessu frumvarpi, fólki undir 24 ára, sjálfstæðan rétt til búsetu hér á landi. Nákvæmlega engan.
Í rökstuðningi sínum fyrir nauðsyn þessa ákvæðis hafa dómsmálaráðherra, og aðrir starfsmenn ráðuneytisins, sagt að hér sé um vörn gegn svokölluðum málamyndahjónaböndum að ræða. En í stað þess að taka á þeim vanda – ef um raunverulegan vanda er að ræða – hefur verið farin sú leið að álykta sem svo að allir – hver einn og einasti undir 24 – sé sekur um slíkt brot og fái því ekki að koma inn í landið á þeim grunni. Engar undantekningar. Engar.
Og þar sem í rökstuðningi með ákvæðinu hefur ýmsum dæmum verið haldið á lofti – þá er ekki úr vegi að nefna dæmi um hvernig þessi lög munu hafa áhrif á líf saklauss fólks.
Ef íslenskur maður flyst – til dæmis til Afríku – og hittir þar konu – verður ástfanginn, og hún á móti – og þau giftast og eignast, segjum, fjögur börn – og ákveða að flytja til Íslands. Ef konan er til dæmis 23 ára þegar þau taka þessa ákvörðun þá kemst hún ekki til Íslands – nema sem flóttamaður – það er gert ráð fyrir að hjónaband þeirra sé málamyndahjónaband. Fjögur börn skipta þar engu máli.
Það er því klárlega verið að mismuna fólki í hjónaböndum um full réttindi á grundvelli hjónabandsins og að mínu mati þá brýtur þessi mismunum líklega gegn viðurkenndum sjónarmiðum íslensks réttarfars um jafnrétti og hugsanlega einnig gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
———————————————————–
Þrátt fyrir að þessi tillaga um ætluð málamyndahjónabönd sé alvarleg þá er það ekki nálægt því að vera alvarlegasta breytingin sem gerð er tillaga um.
Steininn tekur nefnilega algjörlega úr þegar kemur að hugmyndum um eftirlit með hjónaböndum og samböndum við útlendinga. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ef grunsemd er um að útlendingur sé í málamyndahjónabandi við Íslending eða innflytjenda þá hafi lögreglan heimild til að leita á útlendingnum, á heimili hans, herbergi eða í hirslum. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að þegar yfirvöld meta hvort þessi grunur sé til staðar sé meðal annars litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars o.s.frv.
Skoðum þetta aðeins nánar. Það liggur víst fyrir að lögreglan hefur verið að rannsaka nokkur meint málamyndahjónabönd og NB þá hefur ekki verið ákært eða dæmt í einu einasta þeirra. Ætlum við virkilega að fara að setja fáránlega íþyngjandi valdheimildir í lög til höfuðs öllum sem eru af erlendu bergi brotnir til að tækla þetta mál.
Valdheimildir til þess að lögreglan geti rannsakað tilurð hjúskapar borgaranna og huglæga afstöðu þeirra til hjónabandsins? Hvort fólk sé í alvörunni ástfangið eða bara að plata? Láta ríkið fara að pæla í aldursmuni hjóna og hvort það þekki einstök smáatriði um hvort annað. Maður spyr sig hvort málamyndahjónabönd séu virkilega brot sem réttlæta slíkt.
———————————————————–
En það er fleira í frumvarpinu. Einnig er gerð gífurlega stór breyting á núgildandi lögum varðandi nána aðstandendur nýrra Íslendinga og innflytjenda. Samkvæmt núgildandi lögum þá getur náin aðstandandi sótt um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldutengsla. Þetta var gert til að auðvelda nánustu fjölskyldu að búa í sama landi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einungis fólk sem er eldra en 67 ára gamalt geti sótt um slíkt dvalarleyfi. Það er semsagt verið að svipta alla nána aðstandendur á milli 0-67 ára þessum rétti. Þessi gífurlega skerðing á núverandi umhverfi er rökstutt með þeim rökum að verið sé að koma í veg fyrir að hjáleið myndist ekki fyrir útlendinga inn á íslenskan vinnumarkað.
Við skulum gera okkur grein fyrir því að náin aðstandandi er t.d. móðir og faðir. Engin má lengur koma á þessum grundvelli nema hann sé eldri en 67 ára. Þessi stórfelda skerðing er réttlætt með vísun í þann hræðsluáróður og þvælu sem mýtan um atvinnuþjófnað útlendinga er. Það er búið að hrekja þetta rugl fyrir löngu. Breska ríkistjórnin kannaði þetta, Hagfræðingurinn Christian Dustman frá University of London kannaði þetta, Bandaríkjastjórn undir forystu prófessora í Harvard kannaði þetta. Allir þessar rannsóknir komust að þeirri niðurstöðu að erlent vinnuafl auðgar atvinnulífið og stækkar kökuna en stelur ekki störfum af heimamönnum. Að erlent vinnuafl sé þjóðhagslega hagkvæmt og hafi í för með sér meiri tekjur en útgjöld. Í stað þess að taka mark á rannsóknum virtustu fræðimanna þá var ákveðið að fara þveröfuga leið og nota mýtuna sem afsökun til að beinlínis loka fyrir möguleika náinna aðstandenda að sameinast fjölskyldu sinni á grundvelli þeirra tengsla.
———————————————————–
Hægt er að gagnrýna fjölmörg önnur atriði í frumvarpinu, t.d. er Útlendingastofnun veitt heimild til að krefjast lífsýnis af öllum sem sækja um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. En ég ætla að leyfa öðrum að fjalla um það.
———————————————————–
Það sem ég hef gagnrýnt mest við þetta frumvarp er hugarfarið á bak við lagasetninguna og þær leiðir sem eru farnar.. Gott og vel, stjórnvöld meta það svo að málamyndahjónabönd og fl. sé raunverulegt vandamál og ákveður að bregðast við því. Það er þeirra mat – ekki er ég sammála því – en gott og vel.
Í stað þess að grípa til vægari leiða sem skerða ekki rétt viðkomandi þá ákveða stjórnvöld að rétta leiðin sé mjög íþyngjandi löggjöf og svipting réttinda sem gengur yfir alla útlendinga. Þessi lagasetngin brýtur einfaldlega gegn öllum eðlilegum sjónarmiðum um meðalhóf gagnvart borgurunum í lagasetningu.
Að lokum vil ég ítreka ánægju mína með þá miklu samstöðu sem tekist hefur um þetta mál meðal ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna. Það er okkur öllum gagnlegt í þessum efnum að meta málin út frá þeirri einföldu spurningu…„myndi ég vilja að þessar reglur giltu um mig?”
Í þessu máli er svarið einfalt. Nei – við viljum ekki að komið sé svona fram við okkur – og við kjósum að standa með þeim verða fyrir slíku óréttlæti. Það er það minnsta sem við getum gert.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020