Það var árið 1998 sem þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, ákvað að Þjóðminjasafnshúsið skyldi tekið í gegn en fyrir hans tíð höfðu verið uppi hugmyndir um að reist yrði hús undir starfsemi safnsins á milli Hótel Sögu og Þjóðarbókhlöðunnar. Eflaust eru flestir sammála um þar hafi verið tekin rétt ákvörðun en húsið hefur tekið stakkaskiptum að utan og er viðbygging sem mun þjóna hlutverki inngangs, sérlega vel heppnuð og samlagast umhverfinu vel. Upphaflega áttu framkvæmdirnar að taka 2 ár og áætlaður kostnaður nam um 700 milljónum króna. Stefnt var að opnun nýs og endurbætts safns þann 17. júní 2000.
Ýmislegt er hægt að telja til sem ástæður þess að verkið hefur tafist og orðið kostnaðarsamara. Ein stærsta ástæða tafa er sú að ástand hússins var mun verra en upphaflega var talið. Auk þess hafa önnur vandamál komið upp svo sem eins og rekstrarvandræði verktaka auk innanhúserfiðleika. Í því sambandi má nefna er þjóðminjavörður rak fjármálastjóra án þess að veita honum andmælarétt sem síðar var dæmt ólögmætt eins og mikið var rætt um í fréttum. Fljótlega eftir það fjaðrafok tók nýr þjóðminjavörður til starfa. Því má segja að ekki hafi ríkt nein lognmolla í kringum Þjóðminjasafnið á þessum sex árum, þótt að eiginleg starfsemi hafi verið lítil.
Lengi hefur verið beðið opnun safnsins en nú síðast var opnun frestað til 1. september en menn höfðu gert sér vonir um að af opnun gæti orðið 22. apríl. Síðasta frestunin er einkum rakin til þess að sérsmíðaðir sýningarskápar eru ekki tilbúnir. Enn ein frestunin og ekki skrýtið að menn skuli spyrja sig hvort ummæli menntamálaráðherra, um að tafirnar séu vel þess virði, séu réttmæt. Það er hálf skrýtið til þess að hugsa að nemendur í tólf ára bekk hafi aldrei átt kost á því á námsferli sínum að fara í skoðunarferð með skólanum sínum á safnið. Í hugum margra var það mikil upplifun að sjá í þessum vettfangsferðum gripi, mörg hundruð ára gamla sem tekist hafði að varðveita.
Menntamálaráðherra byggir skoðun sína á heppileika tafa á því að margar sniðugar lausnir hafi komið fram. Engu hefur verið til sparað við byggingu hússins og því líklegt að miklar væntingar séu gerðar til safnsins eftir opnun. Ánægjulegt er að sjá að starfsmenn safnsins vinna ötullega að því að starfsemin verði sem veglegust í nýju safni. En auk viðamikillar opnunarsýningar þar sem 2000 merkustu minjar safnsins verða til sýnis má finna á vef safnins að starfsmenn safnsins ætla að standa undir fræðsluhlutverki sínu. 1.,3., 5.,7., og 9. bekk grunnskólanna verður boðið í skólaheimsóknir og verða þær tengdar þeirri sögukennslu sem nemendurnir eru að fá skv. námsskrá. Einnig er á dagsskránni að bjóða menntaskólanemendum í heimsókn auk þess að halda fyrirlestra og námskeið.
Að vonum munu starfsmenn safnsins ná að vinna upp þann langa tíma sem hefur tapast við að miðla þekkingu til þjóðarinnar á menningararfi þjóðarinnar.
- Elsku vinir, koma svo - 31. maí 2021
- Yndisleg borg í blíðviðri - 24. júlí 2006
- Mikilvæg málefni - 13. maí 2006