Nýjasta fyrirbærið sem náð hefur almennilegri landfestu er hugtakið „stjórnunarhættir fyrirtækja“ eða Corporate Governance eins og það heitir á frummálinu. Umræðan um stjórnunarhætti fyrirtækja hefur tröllriðið alþjóðlegu viðskiptaumhverfi undanfarin ár og hefur fest sig í sessi hér á landi með nýútkomnum leiðbeiningarreglum atvinnulífsins og skýrslu frá viðskiptaráðherra.
Í örstuttu máli má segja að með stjórnunarháttum fyrirtækja sé átt við þær reglur sem gilda um stjórnun fyrirtækja, hlutverk og ábyrð stjórnareininga og tengsl hluthafa og stjórnarmanna.
Um miðjan mars gáfu Verslunarráð Íslands, Kauphöll Íslands og Samtök atvinnulífsins út leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja. Stuttu síðar lagði viðskiptaráðherra skýrslu sama efnis fyrir Alþingi.
Leiðbeiningarnar taka í raun við þar sem hlutafélagalögum og reglugerðum sleppir og eru tilraun atvinnulífsins til að sýna að það geti sett sér reglur og farið eftir þeim án þess að þær komi hina hefðbundnu boðleið frá Alþingi. Hvati fyrirtækja til taka upp reglurnar er að þau verða áhugaverðari fjárfestingakostur og njóta meira trausts hjá yfirvöldum og almenningi ef þau geta sýnt fram á þau stundi góða stjórnunarhætti í samræmi við viðurkennd viðmið. Vonast er til að atvinnulífið tileinki sér svokallaða “Comply or Explain” reglu sem gerir ráð fyrir að fyrirtæki fari eftir leiðbeiningunum en útskýri annars hvers vegna sé ekki farið eftir þeim. Aðhaldið kemur svo frá markaðsaðilum, hluthöfum og fjárfestum.
Í viðauka við skýrslu viðskiptaráðherra er ítarlega fjallað um þróun reglna og umræðu um stjórnunarhætti fyrirtækja á alþjóðlegum vettvangi. Þá er dregið fram hvaða reglur gilda hér og bent á fjölmörg atriði sem að mati skýrsluhöfundar vekja upp spurningar um stjórnunarhætti fyrirtækja hér á landi í ljósi umræðunnar á alþjóðavettvangi. Í skýrslu viðskiptaráðherra eru enn fremur taldar upp 8 tilskipanir eða tillögur sem unnið er að á þessu sviði hjá Evrópusambandinu og eiga að koma fram á næstu 4 árum.
Fyrirhugaðar tilskipanir frá Evrópusambandinu, störf nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi og athugasemdir í skýrslunni varðandi stjórnunarhætti fyrirtækja hér á landi benda sterklega til þess að lagasetning sé óumflýjanleg á þessu sviði.
Þó það sé fullkomlega eðlilegt að taka hlutafélagalöggjöfina til einhverrar endurskoðunar, s.s. með því að færa hana nær deginum í dag og opna fyrir notkun rafrænna kosninga eða fjarfundabúnaðar á hluthafa- og stjórnarfundum, skal gjalda varhug við því að líta svo á að þörf sé á allsherjar uppstokkun hlutafélagalaga m.t.t. stjórnunarhátta fyrirtækja. Mörg þau atriða sem nefnd eru í skýrslu viðskiptaráðherra er eðlilegra að séu undir stjórn félaganna sjálfra að ákveða hvernig skal háttað, s.s. hugmyndir um lengri lágmarksfrest til boðana hluthafafunda en nú er kveðið á um.
Langflest hlutafélög eru hlutafélög fárra hluthafa þar sem reglur í þessa átt yrðu verulega íþyngjandi. Stærri hlutafélög sem bera meiri ábyrgð gagnvart þjóðfélaginu og viðskiptalífinu í heild, s.s. þau félög sem skráð eru í Kauphöllinni eða eru háð eftirliti fjármálaeftirlitsins, búa í dag við mun strangari reglur en koma fram í hlutafélagalögum um stjórnunarhætti fyrirtækja.
Í ljósi þess að þrýstingur frá Evrópusambandinu og öðrum reglusinnum á eftir að aukast gífurlega á næstu árum er mikilvægt að ríkisvaldið haldi aftur að sér eins og mögulegt er. Eins og staðan er í dag er æskilegt að gefa viðskiptalífinu og leiðbeiningarreglunum tækifæri til að sanna sig áður en gripið verður til íþyngjandi aðgerða á öll félög í landinu.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020