Í síðustu viku komst áfrýjunarnefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra hefði átt að ráða ákveðinn kvenkyns umsækjanda sem hæstaréttardómara í stað þess sem var ráðinn. Sagði áfrýjunarnefndin að kvenkyns umsækjandinn hefði verið mun hæfari til starfans.
Upptök málsins eru afar umdeild ráðning dómsmálaráðherra á hæstaréttardómara. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að allir umsækjendur væru hæfir en tveir karlkyns umsækjendur væru hins vegar heppilegastir. Í stað þess að ráða annan þeirra sem Hæstiréttur taldi hæfasta tók ráðherra þá ákvörðun að ráða einstakling sem var af mörgum talinn með þeim minnst hæfustu.
Rétt er að geta þess að ef ráðherra hefði ráðið annan hvorn þeirra sem Hæstiréttur taldi heppilegasta þá hefði hann líklega ekki lent í neinum vandræðum með áfrýjunarnefnd jafnréttismála. Lög um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 96/2000 kveða nefnilega á um að ef kvenkyns umsækjandi er hæfari eða jafn hæfur þá skuli hann ráðinn. Í þessu tilviki hafði Hæstiréttur metið tvo umsækjendur heppilegri en aðra og því átti umrædd lagagrein líklega ekki við ráðningu þeirra. Það er því ekki sjálfgefið að ef ráðherra hefði fylgt lögunum að þá hefði hann orðið að ráða konu. Vandamálið byrjar fyrst þegar hann ræður einstakling sem var líklega ekki hæfasti umsækjandinn. Enda eru tvær aðrar kvartanir í gangi hjá Umboðsmanni Alþingis vegna ráðningarinnar og líklegt að þrjú dómsmál spretti upp úr ráðningunni ef dómsmálaráðuneytið verður ekki búið að semja um bætur við viðkomandi umsækjendur.
Í vestrænum ríkjum hefur skapast sú hefð að þegar borgarar eru ósáttir við lög eða önnur fyrirmæli stjórnvalda þá mótmæla þeir lagasetningunni með því að virða ekki lögin á táknrænan hátt. Þetta hefur verið kallað borgaraleg óhlýðni. Á sama hátt mætti kalla viðbrögð ráðherrans einhvers konar ráðherralega óhlýðni. Í hnotskurn þá hefur málsvörn hans grundvallast á því að lögin séu vitlaus og því hafi hann ekki farið eftir þeim. Hann hefur sagt eitthvað á þá leið að jafnréttislög hafi sett ósanngjarnar kvaðir á hann við ráðningu hæstaréttardómarans, þau séu barn síns tíma og því hafi hann ekki virt þau þegar hann réð hæstaréttardómara á síðasta ári. Að auki hefur hann lýst því yfir að það þurfi að breyta lögunum.
Þessi málflutningur ráðherrans hefur ekki slegið á gagnrýnisraddir og er til þess fallinn að leiða athyglina frá aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er nefnilega ekki álit ráðherrans á jafnréttislögum heldur sú staðreynd að hann fylgdi ekki gildandi lögum í landinu. Á meðan jafnréttislög eru í gildi þá verðum við náttúrulega að fylgja þeim, sama hvað okkur finnst um þau. Sett lög eru leikreglur þjóðfélagsins og það er óþarfi að tíunda það ástand sem myndi skapast ef það væri valkvætt hvaða lögum menn færu eftir í þjóðfélaginu. Það skiptir engu hvort í hlut á ráðherra eða ruslakarl, enginn er hafinn yfir lögin.
Því verður ekki neitað að margir eru farnir að hafa vissar áhyggjur af þeirri lagasetningu og þeim skilaboðum sem berast úr dómsmálaráðuneytinu. Það virðist sem sá góði ráðherra sem var árið 1992-1993 í nefnd til að undirbúa lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu hafi villst af leið. Við fáum ekki lengur að heyra að allir séu jafnir fyrir lögunum heldur að sumir þurfi ekki að fara eftir vitlausum lögum. Ekki lengur að allir séu jafnir hér á landi heldur að útlendingar séu annars flokks borgarar. Friðhelgi einkalífs skiptir ekki lengur máli heldur eru símhleranir án dómsúrskurðar ekkert mál. Í hverju málinu á fætur öðru er gert ráð fyrir að réttindi borgara og almennings víki fyrir ráðstjórn og lögreglu. Þetta er hvorki það sem Sjálfstæðisflokkurinn né Björn Bjarnason hafa staðið fyrir.
Það er ljóst að til eru raddir innan stjórnkerfisins sem hafa viljað aukna ráðstjórn og einhvers konar lögregluríki með tilheyrandi skerðingu á mannréttindum borgaranna. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa hins vegar alla tíð haldið þessum öflum í skefjum og staðið vörð um grundvallar réttindi borgaranna. Nú virðast þessi sjónarmið hafa fengið að vaða stjórnlaust uppi í dómsmálaráðuneytinu og okkur vantar tilfinnanlega þá festu og skörungshátt sem einkenndu hin góðu störf Björns Bjarnasonar í menntamálaráðuneytinu.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020