Það eru ófáir Íslendingar sem lagt hafa leið sína í kvikmyndahúsin síðustu mánuði til að líta augum eina af stórmyndum kvikmyndasögunnar. Kvikmynd Mel Gibson, The Passion of the Christ, hefur vakið óvænta en verðskuldaða athygli út um allan heim. Verðskuldaða vegna vandaðrar kvikmyndagerðar og óvænta þar sem um er að ræða mynd á tungumálum sem ekki eru töluð í dag um alvarleg mál sem lítill sem enginn áhugi er á í dag.
Jól, páskar og hvítasunna eru þrjár mikilvægustu hátíðir kristinna manna. Allir vita hvernig ber að fagna jólum, með tilheyrandi hátíðleika, helgihaldi og náungakærleikann í hávegum hafðan. Færri eru vissir um hvernig best er að eyða þessum frídögum sem fylgja páskahátíðinni. Fyrir utan það að verða sér úti um súkkulaðiegg er undirbúningurinn lítill og umstangið ekki nærri eins mikið og um jólin auk þess sem fjöldinn í kirkjum landsins er enginn í líkingu við það sem er jólahátíðinni. Margir nota tímann til að njóta fyrstu vor- og sólardagana og aðrir hafa það fyrir sið að elta uppi síðustu snjóleifarnar og skella sér á skíði áður en sumarið skellur á fyrir alvöru. Mér hefur þó virst sem fæstir noti þennan tíma til að minnast þeirra atburða sem liggja að baki öllum þessum frídögum.
Það er ekki skrítið að ekki skuli ríkja grátur og gnístan tanna á öllum kristnum heimilum á föstudaginn langa, eða að fólk geri sér ekki ferð í messu á skírdag til að neyta heilagra sakramenta og minnast um leið síðustu kvöldmáltíðar Jesú með lærisveinum sínum. Boðskapur páskahátíðarinnar er flókinn og erfiður, átakanlegur og sársaukafullur um leið og hann er gleðiboðskapur og grundvöllurinn að fagnaðarerindi kristninnar. Síðast en ekki síst er hann þó ýfirnáttúrulegur og framandi og því illtrúanlegur fyrir marga. Það er mun erfiðara að trúa því að Jesú hafi verið húðstrýktur, krossfestur og risið upp frá dauðum en að hann hafi fæðst. Allir á jörðinni hafa fæðst. Enginn á jörðinni hefur dáið.
Ég tel líklegt að vegna þessa framandleika páskaboðskaparins hafi verið forðast að leggja áherslu á atburði páskana við boðun fagnaðarerindisins og þar af leiðandi hafi hann ekki orðið eins rótgróinn í mönnum hér á landi eins og t.d. jólaboðskapurinn.
Mel Gibson er í mynd sinni, The Passion of the Christ, ekki hræddur við að draga upp mynd af dauða Jesú. Myndin lýsir á átakanlegan hátt breiskleika mannsins og illsku, þörfinni fyrir að ríkja, ráða og stjórna og erfiðleikanum við að leggja líf okkar, trú og sannfæringu í hendur einhvers annars. Myndin lýsir líka trúfesti og tryggð mannsins og loks óendanlegri elsku Guðs til mannanna. Að minnast þjáninga Krists á föstudaginn langa og hinnar heilögu minningarathafnar sem fólst í síðustu kvöldmáltíðinni, sem jafnframt var fyrsta útdeiling sakramentanna, ætti að vera hluti af hvers manns trúarlífi. Í hvert sinn sem við biðjum staðfestum við trú okkar á tilvist og þar með fæðingu Krists. Í því felst þó líka staðfesting á dauða hans og upprisu, enda er dauði hans og þjáning jafn óaðskiljanlegur hluti af fagnaðarerindinu og fæðingin. Með því var loforð Guðs um frelsun mannsins til eilífs lífs uppfyllt.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008