Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um reynslulausn fanga eftir hina miklu umræðu upp á síðkastið.
Almenningi hefur skyndilega orðið það ljóst að það er afskaplega erfitt að koma einstaklingi sem brýtur skilyrði reynslulausnar aftur í afplánun. Í 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu er kveðið á um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Í því felst að viðkomandi er saklaus uns sekt hans er sönnuð og hefur rétt á réttlátri og opinberri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.
Þar sem brot á reynslulausn felur í sér íþyngjandi refsivist þá þarf klárlega að sanna viðkomandi brot með fullnægjandi hætti og það verður aðeins gert fyrir dómstólum. Á þetta reyndi árið 1999 þegar Umboðsmaður Alþingis úrskurðaði réttilega að það samrýmdist ekki Mannréttindasáttmála Evrópu að fangelsismálayfirvöld og stjórnvöld tækju ákvörðun um afturköllun reynslulausnar. Vestrænt réttarfar og mannréttindi gera einfaldlega ekki ráð fyrir því að stjórnvald geti tekið slíkar ákvarðanir um líf okkar og limi.
Þessi staðreynd ætti ekki bara að vekja athygli á nokkrum vondum föngum á reynslulausn heldur einnig á mun stærra vandamáli. Aðalvandamálið er nefnilega ekki einstaka vondir fangar sem hafa fengið reynslulausn heldur Fangelsismálastofnun ríkisins. Nýleg atvik sýna bersýnilega hversu vanhugsað það er að láta slíka stofnun úrskurða um reynslulausn þar sem hún heyrir undir framkvæmdarvaldið og er í raun að endurskoða refsimat dómstóla. Undirritaður benti á þetta vandamál í pistli sem birtist 19. maí 2001 og hét Glæpur, refsing, reynslulausn. Þar kom m.a. fram:
Fangelsismálastofnun passar einfaldlega ekki inn í jöfnuna. Það er jafnframt út í hött að fela stjórnvaldi valdheimild til að hleypa afbrotamönnum aftur út á götuna þegar það getur aldrei haft stjórn á því ástandi sem hún skapar. Hún hefur einfaldlega ekkert teljandi vald yfir þeim föngum sem hún hleypir út. Og til að bæta gráu ofan á svart þá eykur stofnunin síðan þetta vandamál upp úr öllu valdi með meðferð sinni á þessum völdum. Hún notar þau nefnilega til að hleypa yfir 60% allra fanga út á götuna á reynslulausn eftir að þeir hafa afplánað helming eða 2/3 refsingar án þess að hafa nokkur völd yfir þeim eða ábyrgð. Í framangreindum pistli undirritaðs frá 2001 kom fram að:
Það ætti því kannski ekki að spyrja hvers vegna það sé svona erfitt að koma fanga sem brýtur skilyrði reynslulausnar aftur í afplánun heldur af hverju yfir 60% fanga er hleypt út til reynslu á meðan það er fáránlega erfitt að koma þeim aftur inn! Þetta hefur legið fyrir í mörg ár án þess að nokkur hafi brugðist við.
Í kjölfar hinnar hörmulegu árásar sem hóf umræðuna þá virðast menn því miður einungis ætla menn að bregðast við þessu tiltekna atviki án þess að takast á við vandann í heild sinni. Hugmyndir hafa þegar verið kynntar um að veita dómurum heimildir til að úrskurða að fangar hafi brotið skilyrði reynslulausnar og að þeir skuli hefja afplánun aftur á meðan réttað er í máli þeirra. Yrði það þá með svipuðum hætti og gæsluvarðhaldsúrskurðir þar sem menn eru frelsissviptir án undangengis dóms. Ef þessar tillögur verði að veruleika þá gætu menn væntanlega farið í skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu yrðu þeir síðan sýknaðir af ákæru fyrir brot á skilyrðum reynslulausnar.
Þessar hugmyndir eru góðra gjalda verðar en eru engu að síður skyndilausn á miklu stærri vanda. Það eru dómstólar sem ákvarða refsingu hér á landi og eðlilegt að þeir fái að taka allar ákvarðanir sem varða afplánun hennar svo sem reyslulausn og afturköllun hennar. Það væri óskandi að þessi hörmulega árás yrði til þess að við myndum skoða heildstætt framkvæmd afplánunar hér á landi og hlutverk Fangelsismálastofnunar. Það er vandi sem við þurfum að bregðast við af jafn mikilli hörku og hinni hrottafengnu árás.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020