Síðastliðið haust flutti Páll Skúlason, rektor HÍ, ræðu við útskrift þar sem hann talaði um fjárhagsvanda skólans. Páll hafði verið á milli steins og sleggju. Ríkið sem neitaði að auka fjárframlög í samræmi við fjölgun nemenda og greiða fyrir alla nemendur skólans, meinaði honum líka að afla skólanum tekna annars staðar frá, m.a. með því að taka upp skólagjöld við háskólann.
Í kjölfarið hefur mikil umræða farið fram um kosti og galla skólagjalda. Ekki er ætlunin að fara í þá umræðu hér í þessum stutta pistli. Tel ég þó að ef ríkisstjórnin hefur allt í einu hugsað sér að minnka umsvif sín, væri nær að hún liti á nefndafargan ríkisins eða til landbúnaðarins þar sem samyrkjubúskapur virðist vera nýyrði.
Auðveldlega er hægt að hagræða innan Háskólans. Sést það einna best á því að kostnaður við að innrita nemendur skólans inn í tölvukerfi háskólans er kominn upp í 296 milljónir króna, eða 32.500 krónur á hvern nemenda. Hagræðingin þyrfti að haldast í hendur við mikla menntasókn þar sem sammælst er um að reka menntakerfið af myndarskap á öllum stigum þess.
Skólagjöld eru við leiksskóla borgarinnar en einn mánuður í leiksskóla kostar álíka mikið og eitt ár við Háskóla Íslands. Þau eru ekki talin lánshæf hjá LÍN. Nauðsynlegt er að laun leikskólakennara séu í samræmi við menntun þeirra og ábyrgð, en undanfarin ár hefur staða leiksskólakennara verið talin til láglaunastarfa.
Nú stendur til að stytta nám í framhaldsskóla í 3 ár. Ef takmarkið er að spara í menntakerfinu og koma fólki fyrr út á vinnumarkaðinn, virðist nær að láta krakkana byrja fyrr í grunnskóla eða að stytta grunnskólanámið úr 10 í 9 ár. Þannig væri takmarkinu náð án þess endilega að skerða gæði námsins. Auðvelt er að nýta þessi grunnskólaár betur, en fyrst þyrfti þó að koma til hugarfarsbreyting þar sem hætt væri að líta á leiksskólann og fyrstu stig grunnskólans sem geymslustað fyrir börnin.
Nemendur sem stefna á nám við framhaldsskóla geta valið um að ljúka námi á 2, 3 eða 4 árum, allt eftir þeirra hentugleika. Nú hyggst menntamálaráðherra minnka þetta frelsi og fækka jafnframt þessum “bestu árum lífsins”. Einnig er það undarlegt að á sama tíma og beltið er þrengt um menntamálin, fer ríkið í stóriðju til að skapa láglaunastörf á landsbyggðinni.
Til að ljúka þessari hugleiðingu um menntamál landsins, er vert að minnast á tengsl hagvaxtar og aukinnar menntunar. Á seinustu vikum hafa heyrst raddir um að aukin menntun skili sér ekki eða að litlu leyti í auknum hagvexti. En aukinn hagvöxtur er ekki endanlegt takmark samfélagsins. Staðreyndin er sú að ef tölvan mín bilaði í þessum skrifuðu orðum myndi hagvöxtur á Íslandi aukast. Sama gildir ef ég lenti í árekstri. Það þýðir þó ekki að það sé samfélaginu til góðs.
Þar fyrir utan fylgir auknum fjárframlögum til menntunar auðvitað aukinn hagvöxtur. Hærra menntunarstig hefur einnig mikil bein og óbein áhrif. Menntað fólk hugsar yfirleitt betur um heilsuna, reykir síður og er tekjuhærra.
Það væri því æskilegt að stjórnvöld stefndu að því að skapa skilyrði þekkingarsamfélags, í stað þess að standa í risarækjueldi eða stóriðju á austurlandi. Það skýtur líka skökku við að halda frammi hugsjónum lágmarksríkisins í menntamálum á sama tíma og samyrkjubúskapur og styrkjakerfi grassera í landbúnaði.
- Sýn Vöku á starf Stúdentaráðs - 7. febrúar 2007
- Fellum niður fargjaldið í september - 28. júlí 2006
- Stafrófið uppurið - 23. október 2005