Í rokrassgötum og úthverfum borgarinnar er allra veðra von. Myndin er frá 17. júní hátíðarhöldum úthverfafélagsins Geislans í Grafarvogi.
|
Á Manhattan-eyju búa rétt um 8 milljónir manna á 30 ferkílómetrum. Í Reykjavík búa hins vegar 0,16 milljónir manna á 40 ferkílómetrum. Hvað eru mörg R í því?
Það er alltaf jafnrosalega hressandi að vera boðið í partý í Ólafsgeisla og þurfa að taka leigubíl niður í miðbæ. Fyrir áttavilta skal það tekið fram að Ólafsgeisli er um 0,9 km aust-norð-austur af Reynisvatni, veðurfar er svipað og á Hellisheiði og þar eru alltaf geggjuð tilboð í gangi vinalegu í hverfissjoppunni.
Litlu-Kaffistofunni.
Samkvæmt skilgreiningu borgaryfirvalda er Ólafsgeisli hluti af nýjasta úthverfi Reykjavíkurborgar. Eitthvað virðist landfræðin nú hafa vafist fyrir skipulagsséníum borgarinnar (séni = sénivér?), en menn í deildinni hefðu kannski átt að fatta að það væri maðkur í mysunni þegar rýma þurfti Borgarnesafrétt til að leggja hornstein að hverfinu. Þannig er það pistlahöfundi algerlega ómögulegt að henda reiður á hvaða viðhorf eru viðhöfð við skipulagningu byggðar í Reykjavík. Það er alla vegana fullljóst að þau eru afar umdeilanleg.
Í mínum huga er þétting byggðar óhjákvæmileg og ætti að vera algert forgangsatriði við skipulagningu borgarinnar. Forsenda þess er að flugvöllurinn fari. Hugmyndir um Sundabraut, sem vel að merkja á að leysa umferðaröngþveiti úthverfanna, eru göfugar en samt eitthvað svo glataðar á meðan flugvöllurinn stendur óhreyfður og íbúum í nýbyggingarhug er plantað hálfa leið upp á Sandskeið.
Til hvers haldiði eiginlega að úthverfi og rokrassgöt hafi verið fundin upp? Hvor möguleikinn af tveimur þykir ykkur líklegri:
a) Að þau hafi verið fundin upp til að planta niður skrifstofu Alfreðs Þorsteinssonar og annarra kóna af hans toga — eins langt frá mannabyggð og nokkur kostur væri.
b) Til að byggja upp blómlega byggð fyrir fólk með mælanlegan hjartslátt.
Skrifleg svör sendist til borgarráðs, með utanáskriftinni — „Sveit í borg er sveitt borg.“
Einstaka hliðranir og grisjun innan hverfa í gamla miðbænum eru vissulega virðingarverðar, en eru fjarri því að svara þörf borgarbúa um aukningu framboðs á íbúðarhúsnæði í miðborginni. Þannig er Skuggahverfið vísir að því sem koma skal, þótt ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum í lífinu muni tæplega flytjast þangað í bráð — nema auðvitað að menn leigi á jarðhæð.
37 saman!
Að búa í borg snýst um nálægð við samborgara en ekki um það að húka í strætó í klukkustund á dag til að komast til og frá vinnu. Blómleg byggð í Vatnsmýrinni yrði ójákvæmilega mikil lyftistöng fyrir miðborgina og nauðsynleg til að glæða hana lífi á nýjan leik. Ég er þess fullviss að eftirspurn eftir lóðum yrði gríðarleg og arkítektar ættu ekki í vandræðum með að hanna glæsilegt hverfi í samlyndi við náttúruna. Þetta þarf að gerast strax…
Er ekki fyrir löngu kominn tími til að spyrja borgarfulltrúa R-listans hvort þeir gangi erinda lággaldaflugfélaga við skipulagningu Reykjavíkurborgar — enda fer að líða að því að menn þurfi að panta sér flugfar til að komast í vinnuna innan borgarmarka. Það er annað hvort það, eða að Framsóknarmenn vilji halda flóttaleið sinni frá höfuðborginni opinni þegar fólk rankar við sér og sér þá fyrir afturhaldsseggina sem þeir eru. Enda lýsti Alfreð Þorsteinsson því nýlega yfir að það væri hreint glapræði að lækka orkuverð á borgarbúa því það myndi stuðla að sóun á raforku!!!
En þegar ég fæ óskir mínar loks uppfylltar og flyt í Vatnsmýrina, verður slegið upp heljarinnar reisugilli sem verður í minnum haft. Í miðri teitinni kveiki ég öll ljós í íbúðinni, set hrærivélina á fullt og botna þurrkarann í sömu andrá og ég ríf upp símtólið og öskra af öllum lífs og sálarkröftum í gegnum mína eigin símalínu.net:
„Alfreð Þorsteinsson — þér er ekki boðið“!
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007