Um þessar mundir er hægt að finna gríðarmikið magn af tónlist á netinu. Annað hvort er um að ræða tónlist sem aðilar eins og tónlist.is er að bjóða upp á gegn greiðslu eða hins vegar tónlist sem er hægt að sækja eftir öðrum leiðum. Dæmi um þessar leiðir eru kazaa, morfious eða dc++.
Svo kölluð P2P (Pétur til Páls eða Peer to Peer) netkerfi eru mjög einföld í uppsetningu. Á Íslandi er auðvelt að komast inn á þessar veitur (hubba), og komast þar með í ótæmandi uppsprettur tónlistar, kvikmynda eða forrita. Ógjörningur er að hafa eftirlit með öllum þessum veitum, því eina sem þarf er nettengd tölva og þar með er hægt að miðla gögnum beint á milli tveggja aðila. Slíkar veitur koma og fara, en tengingar spyrjast út á meðal vina, á spjallvefjum eða á síðum sem sérhæfa sig í að upplýsa um þessar veitur. Víða er rætt um að banna svona netkerfi.
STEF hefur hafið baráttu gegn þessari dreifingu, en þeir fá greitt af hverjum tómum geisladiski sem kemur í landið. Um leið og tekið er afrit af ljósmyndunum eða öðrum gögnum, fá þeir greitt í sína sjóði. Þessa peninga nota samtökin svo nú meðal annars til þess að berjast við netveitendur, til að fá uppgefið hvað notendur eru að sækja. Netveitendur hafa hins vegar hafnað þessu.
Menn hafa í raun deilt um hvort sala minnki við að tónlist sé sótt á netinu og má benda á að aldrei var meiri sala á íslenskri tónlist en í fyrra. Einn aðili í tónlistarheiminum vildi meina að aðilar sæktu minna af innlendri tónlist af virðingu við tónlistarmennina. Það er þó mjög ólíklegt að um slíkt sé að ræða, því jafn mikið er að finna af innlendri tónlist og erlendri á þessum veitum.
Ný rannsókn sýnir nú að niðurhal á tónlist skaðar ekki tónlistariðnaðinn. Aðrar eldri rannsóknir hafa sýnt annað. Neyslan hefur amk tekið stakkaskiptum og mun líklega halda áfram að breytast, þar sem fólk mun í meira mæli velja sér eigin tónlist og setja saman eigið safn. Í stað þess að kaupa sér smáskífur, velur það einstök áhugaverð lög og sleppir minna spennandi tónlist.
Möguleikar litla mannsins hafa margfaldast, í stað þess að fara í gegnum stóru tónlistarrisana, geta bílskúrsböndin nú gefið út eigið efni og dreift á netinu. Dæmi um aðila sem líklega hefði ekki átt mikla möguleika er Idol stjarnan Hung en fólk getur keypt tónlistina hans í gegnum iTunes. Á hinn bógin er líklegt að stóru tónlistarfyrirtækin verði af sneið, þegar einstaklingar geta á einfaldan hátt dreift eigin tónlist.
Þótt tónlistariðnaðurinn haldi áfram að berjast gegn ólöglegri dreifingu, verða aðilar sem hafa áhuga á því að fá ódýra tónlist ekki langt á eftir. Aldrei hefur verið auðveldara að finna góða tónlist en einmitt nú. Úrval stærstu tónlistarbúðanna er lítilfjörlegt miðað við þessar netveitur.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020