Nýgengnir dómar í kynferðisafbrotadómum þar sem tveir menn voru dæmdir. Annar í fimm ára fangelsi fyrir kynferðisglæpi gegn ungum drengjum og hinn í fimm og hálft ár fyrir áratuga ofbeldi gegn stjúpdóttur sinni hafa eðlilega vakið viðbrögð og umræðu í samfélaginu.
Sumir hafa bent á að menn sem gerast sekir um slík brot sem um ræðir í þessum tilvikum séu ekki heilbrigðir einstaklingar og láta jafnvel liggja að því að hefðbundinn refsing fyrir glæpi séu ekki eðlileg viðbrögð í samfélaginu. Einhvers konar endurhæfing eða lækning sé meira viðeigandi.
Við fyrstu sýn kann það að virðast nokkuð heilbrigð og sanngjörn afstaða að segja sem svo að samfélagið eigi ekki að refsa þeim sem eru veikir jafnvel þótt veikindi þeirra leiði þá út í viðurstyggilega glæpi. Maðurinn sem tældi og misnotaði unga drengi þjáist af „barnagirnd” af háu stigi en menn telja að lækning sé hugsanleg við slíku ástandi.
En jafnvel þótt unnt sé að útskýra glæpsamlega hegðun sem þessa með sjúkdómsheiti þá er ekki þar með sagt að glæpamaðurinn eigi að vera laus allra mála. Vitað er að kynhneigð hans er brengluð sem væri svosem ekkert stórkostlega tiltökumál út af fyrir sig nema af því að hann lætur undan þessum hvötum sínum og fyrir vikið verða saklaus börn fyrir ómældum skaða.
En ef þessir menn eiga að fá lækningu í stað refsingar þá hlýtur að vakna upp spurningin um hvort refsingar séu yfirhöfuð réttlætanlegar gagnvart fólki sem brýtur freklega gegn öðrum einstaklingum. Svarið hlýtur að felast í því að samfélagið geri þá kröfu til einstaklinga, sem vegna veikleika síns finna hjá sér kenndir og fýsnir sem ganga bersýnilega í berhögg við reglur samfélagsins, að þeir haldi aftur af sér og leiti sér aðstoðar áður en þeir fara að valda saklausu fólki óbætanlegu tjóni. Fólk sem er veilt á geði þarf líka að taka ábyrgð á sjálfu sér og ef það gerir það ekki þá er eðlilegt að það sæti refsingu fyrir glæpi sína.
Menn sem girnast börn og láta það eftir sér eru með þeim allra hættulegustu mönnum sem fyrirfinnast í samfélaginu. Slíkir glæpir eru í raun skilgreiningin á réttlætingu fyrir frelsisviptingu glæpamanna. Samfélag sem ekki gerir allt sem mögulegt er til að vernda fólk frá slíkum skaðvöldum á ekki skilið að kalla sig siðað.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021