Hann getur huggað sig við að Kínaforseti fær flottan heiðursvörð næst þegar hann kemur í heimsókn.
|
Nokkur atriði hafa verið nefnd sem rök fyrir fjölgun meðlima víkingasveitarinnar úr 21 í rúmlega 50. Mest áhersla hefur verið á aukið öryggi vegna hættu á hryðjuverkum og aukna hörku í glæpum. Einnig hefur verið vísað til alþjóðlegra reglunna og sáttmála um flug- og siglingavernd, friðargæslu og eflingu lögreglu á höfuðborgarsvæðinu.
Hlutverk sérsveitar lögreglunnar á fyrst og fremst að vera að geta brugðist skjótt við þegar öryggi borgaranna er ógnað af vopnuðum misyndismönnum og þeim sem finnst sniðugt að taka haglabyssuna sína með á fyllerí. Sveitin hefur þannig einungis forvarnargildi að menn vita að ef þeir grípa til vopna, er víkingasveitinni að mæta.
Aukin harka í glæpum er hæpin forsenda fyrir ríflegri tvöföldun sveitarinnar. Helst hefur verið vísað þar til tíðra vopnaðra rána undanfarið, en sérsveit getur með engu móti komið í veg fyrir þau nema vera á staðnum þegar ránið er framið. Enn hefur þó ekki komið fram að lögreglumönnum sé ætlað að ganga um götur vopnaðir.
Það er heldur engin forvörn gegn hryðjuverkum að stækka sérsveitina. Bretland, Þýskaland, Frakkland, Spánn og Ítalía hafa orðið illa fyrir barðinu á hryðjuverkamönnum á síðustu áratugum þrátt fyrir að hafa eigin her og mjög öflugar sérsveitir hers og lögreglu. Skemmst er að minnast þess að hryðjuverkamönnum tókst að koma fyrir 13 sprengjum í lestum í Madrid á dögunum.
Jákvæðasti þáttur aðgerðanna er að 10 nýir lögreglumenn verða ráðnir til Lögreglunnar í Reykjavík, en mikið hefur verið rætt um manneklu í því lögregluliði. Sextán sérsveitarmenn sem eru þar fyrir verða þó áfram að hluta til í almennum lögreglustörfum, auk þess að sinna í meira mæli þjálfun annarra lögreglumanna. Að mínu mati hefði verið nær að fjölga almennum lögreglumönnum víðar á landinu, svo þeir geti betur brugðist við strax og eitthvað kemur upp á, t.d. þar sem einungis einn eða lögreglumenn eru á vakt á ákveðnum tímum.
Skjót viðbrögð við slysum, efling sjúkraflutninga, slökkviliðs og björgunarsveita eru þannig mun betur til þess fallið að auka öryggi á landinu. Hættan af hryðjuverkum og vopnuðum glæpum er svo hlutfallslega lítil, auk þess sem þeir sérsveitarmenn sem nú eru til staðar geta vel sinnt þeim verkefnum sem upp koma. Forvarnir gegn vopnuðum glæpum og hryðjuverkum felast engan vegin í fleiri vopnuðum mönnum í Reykjavík.
Það er til marks um hve röng forgangsröðunin í dómsmálaráðuneytinu er að fyrir stuttu síðan fékk landhelgisgæslan nætursjónauka að gjöf frá velviljuðum aðilum úti í bæ. Ekki fékkst fjárveiting fyrir slíkum tækjum frá ráðuneytinu, sem nú ætlar að eyða 250 milljónum árlega í byssuleiki fyrir fullorðið fólk.
Fyrir hluta þessarar fjárhæðar mætti til dæmis hafa fasta vakt hjá þyrlusveit gæslunnar og stytta þannig viðbragðstíma hennar um hálftíma þegar hún er á bakvakt og vinna með frekari hætti að frekari eflingu hennar.
Það er sorgleg staðreynd að starfsmenn neyðarlínu og radíóstöðva þurfi að velta því fyrir sér hvort þeir eigi að kalla út þyrluna, vegna þess hve dýrt það er. Að slík pressa sé lögð á það góða fólk sem þar starfar er með öllu óskiljanlegt þegar í ljós kemur að til eru 250 milljónir til að leggja árlega í gæluverkefni dómsmálaráðherra um einkaher.
Það má vera að aðstandendur þeirra sem hafa látist af völdum hryðjuverkamanna og vopnaðra glæpagengja hérlendis séu mér ósammála. Ég held hins vegar að þeir sjómenn sem bjargast hafa úr sjávarháska séu á sömu skoðun og ég. Syrgjendur þeirra sem ekki tókst að bjarga eru það án nokkurs vafa líka. Og hversu margar einbreiðar brýr og mannskæðar beygjur í vegakerfinu má laga fyrir 250 milljónir á ári?
Við megum vera stolt af víkingasveitinni okkar, hún er í hæsta gæðaflokki. Efling hennar með þessum hætti er þó engan vegin forgangsverkefni. Á meðan landhelgisgæslan, lögregluembætti um allt land og meira að segja dómstólar kvarta undan skorti á fjármagni ætlar dómsmálaráðherra að eyða fjórðungi úr milljarði í þetta verkefni. Ekki furða að Davíð Oddsson velti fyrir sér að taka sæti hans í ráðuneytinu.
En eins og allir aðrir sem gagnrýna dómsmálaráðherrann er ég eflaust ómálefnalegur og ósanngjarn.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021