Samkvæmt tímaritinu Time starfa nú meira en 400.000 hámenntaðir evrópskir vísindamenn við rannsóknir í Bandaríkjunum. Þar stuðla þeir að hagvexti og nýsköpun svo eðlilega velta ráðamenn í Evrópu fyrir sér hvernig megi ná þeim heim.
Fyrst þarf að svara spurningunni: Hvað er það sem Bandaríkin hafa fram yfir Evrópu þegar vísindamenn velja sér starfsvettvang?
Í fyrsta lagi, meiri peninga og betri aðstöðu. Ljóst er að peningar eru lykilatriði ef stunda á rannsóknir að einhverju marki. Hér ber töluvert á milli enda nýta Bandaríkin 2,8% landsframleiðslu til rannsókna á meðan meðaltalið í Evrópu er 1,94% (árið 2000, [1]).
Í öðru lagi, minna skrifræði. Pappírsflóðið í Evrópu hægir á rannsóknum og bælir niður nýsköpun. Stífar reglur verða einnig til þess að vísindamenn geta ekki nýtt það fjármagn, sem þeir þó fá, á besta mögulega hátt.
Og það sem er kannski mikilvægast, tækifæri til starfsframa. Í mörgum löndum Evrópu fer starfsframi vísindamanna meira eftir úreltri goggunarröð en árangri í vísindastarfi sem venjulega ræður mestu í Bandaríkjunum.
Þessi munur á tækifærum í Evrópu og Bandaríkjunum veldur fyrrnefndum fjöldaflutningum yfir hafið í svo miklum mæli að ástandinu hefur verið lýst með hugtakinu „brain drain“. Aðal áhyggjuefnið er að vísindamenn sem fara, koma venjulega ekki aftur. Um þetta er fjallaði í The Scientist en þar kemur fram að 75% þeirra vísindamanna sem verja einhverjum tíma við störf í Bandaríkjunum ákveða að setjast þar að.
Framkvæmdaráð Evrópusambandsins hefur sett fram áætlun sem miðar að því að snúa þessari þróun við. Í því felst meðal annars að samræma vinnureglur við ráðningu vísindamanna og mat á árangri vísindavinnu auk þess, að sjálfsögðu, að bæta aðstöðu og auka fjármagn til rannsókna.
Samkvæmt Rannsóknarmiðstöð Íslands er ástandið hér á landi að mörgu leiti gott í þessu tilliti. Útgjöld til rannsókna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa aukist mjög mikið síðustu ár eða úr minna en 1% árið 1995 í um 2,6% og rúmlega 3% árin 2000 og 2001. Þessi hækkun er að mestu leiti vegna nýrra fyrirtækja í rannsóknarstarfsemi, og þar er þáttur Íslenskrar Erfðagreiningar áberandi mestur, en þessi hækkun skilar okkur í 4. sæti meðal OECD ríkja yfir útgjöld til rannsókna og þróunar.
Að ýmsu öðru leyti er ástandið síðra og full ástæða til aðgerða til að tryggja möguleika íslenskra vísindamanna til að koma heim og sinna sínu vísindastarfi hér. Auka þarf m.a. fjárframlög í samkeppnissjóði og stórbæta möguleika á fjármögnun til nýsköpunar.
[1] European Report on Science and Technology Indicators 2003.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007